Stjórn Blaðamannafélags Íslands lét óháðan bókara rýna tiltekin atriði í fjárreiðum félagsins síðustu tíu ár. Niðurstaða hans liggur nú fyrir og hefur verið send til endurskoðunarskrifstofunnar KPMG sem mun skila stjórn félagsins skýrslu um þær eins fljótt og auðið er. Stjórnin ætlar svo að kynna niðurstöður þeirrar skýrslu fyrir félagsmönnum eigi síðar en á aðalfundi Blaðamannafélags Íslands, en hann verður haldinn 16. apríl næstkomandi.
Þetta kemur fram í bréfi sem Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélagsins, sendi félagsmönnum síðdegis í dag.
Þar segir enn fremur að gagnger endurskoðun hafi farið fram á umgjörð og regluverki í kringum starfsemi félagsins. „Stjórn BÍ hefur samþykkt að leggja fyrir aðalfund tillögur að breytingum að lögum félagsins sem kynntar verða félagsmönnum sérstaklega í aðdraganda aðalfundar. Þá hafa stjórnir sjóða félagsins einnig endurskoðað reglugerðir og úthlutunarreglur til að auka skýrleika og gagnsæi í því hvernig fjármunum sjóðanna er úthlutað. Þessar tillögur verða sömuleiðis lagðar fyrir aðalfund og kynntar félagsmönnum í aðdraganda hans.“
Þessar breytingar koma í kjölfar þess að stjórn Styrktarsjóðs Blaðamannafélagsins bókaði á á fundi sínum síðastliðinn þriðjudag að hún veki athygli á því og árétti „að í samræmi við reglugerð sjóðsins eiga þeir einir rétt á greiðslu úr sjóðnum sem greitt hafa í sjóðinn í að minnsta kosti síðastliðna 6 mánuði. Réttur til greiðslu úr sjóðnum fyrnist á 6 mánuðum eftir að greiðslum í sjóðinn er hætt.“
Stjórn Styrktarsjóðsins óskaði eftir því að bókunin yrði birt á vef Blaðamannafélagsins en engar skýringar fylgdu með þeirri birtingu.
Neitaði að veita formanni skoðunaraðgang
Í janúar var Hjálmari Jónssyni, sem verið hafði framkvæmdastjóri Blaðamannafélagsins frá árinu 2023, sagt upp störfum. Sú ákvörðun var samþykkt einróma í stjórn félagsins.
Hjálmar skrifaði grein, sem birtist á Vísi, eftir uppsögnina þar sem hann sagði að ágreiningur hans við núverandi formann Blaðamannafélagsins snerist einungis um meint brot hennar á skattalögum og skort á því að gera hreint fyrir sínum dyrum þegar fjölmiðlar hafi gengið eftir skýringum. „Það er enginn trúnaðarbrestur okkar í milli heldur er það skylda mín sem framkvæmdastjóra Blaðamannafélags Íslands að standa vörð um orðstír félagsins.“
Hjálmar sagði að það lægi fyrir, í samtölum hans við formanninn, að hún væri sek um að skjóta tekjum undan skatti í þrjú ár. „Í mínu ungdæmi hétu þetta skattsvik en á nýíslensku núverandi formanns heitir þetta endurálagning!“
Hann sagði að endanlega hafi soðið upp úr milli hans og formannsins vikuna áður þegar hún vildi fá skoðunaraðgang að reikningum félagsins. „Ég hafnaði því alfarið, enda fullkomlega óeðlilegt að mínu mati. Stjórn og formaður geta kallað eftir öllum upplýsingum úr bókhaldi félagsins, en viðkvæmar persónuupplýsingar um hverjir fá endurgreiddan sálfræðikostnað eða eru að glíma við krabbamein, svo dæmi séu tekin, koma þeim að sjálfsögðu ekki við. Stjórn styrktarsjóðs BÍ kjörin á aðalfundi afgreiðir þau mál og er bundin ströngum trúnaði. Að veita öðrum aðild að slíkum persónugreinanlegum upplýsingum væri lögbrot og trúnaður um þessar upplýsingar þarf að vera hafinn yfir allan vafa.“
„Í því felst nauðsynlegt aðhald“
Í yfirlýsingu sem stjórn Blaðamannafélags Íslands sendi frá sér eftir að grein Hjálmars birtist kom fram að hún væri tilkomin vegna trúnaðarbrests milli hans og stjórnar sem hefði verið viðvarandi um nokkurra mánaða skeið. „Yfirlýsingar framkvæmdastjórans fyrrverandi á opinberum vettvangi undanfarna daga opinbera þann trúnaðarbrest – að hann vildi ekki vinna með stjórn félagsins eða í samræmi við ákvarðanir stjórnar. Eins og fram hefur komið var síðasta atvikið sem birti þann trúnaðarbrest í síðustu viku. Stjórn hafði samþykkt að formaður skyldi fá skoðunaraðgang að reikningum félagsins, en framkvæmdastjóri neitaði að framfylgja þeirri ákvörðun. Auk þess hefur framkvæmdastjóri ekki unnið fjölmörg þeirra verkefna sem stjórn hefur falið honum, ásamt því að hann hefur neitað að mæta á fund með formanni og varaformanni. Var stjórnin einróma um það í framhaldinu að óhjákvæmilegt væri að binda enda á ráðningarsamband hans og félagsins.“
Stjórnin áréttaði að fullkomlega eðlilegt væri að formaður, og eftir atvikum fleiri stjórnarmenn, hefðu skoðunaraðgang að reikningum félagsins. „Í því felst nauðsynlegt aðhald enda segir í lögum félagsins að stjórn hafi yfirumsjón með starfsemi félagsins og beri á henni fulla ábyrgð. Almennt fer stjórn enda með æðsta vald í málefnum félagsins á milli félagsfunda. Framkvæmdastjóri starfar svo í umboði stjórnar og samkvæmt þeim fyrirmælum og stefnu sem stjórn ákveður. Svo stjórn geti sinnt hlutverki sínu og fylgst með því að rekstur sé í réttu horfi þarf hún að hafa aðgang að bókhaldi og bankayfirlitum. Stjórnarmenn eru að sjálfsögðu bundnir sama trúnaði og framkvæmdastjóri um persónugreinanlegar upplýsingar sem kann að vera að finna í bókhaldi eða bankagögnum félagsins.“
Ekki léttvæg ákvörðun
Stjórnin sagði að ákvörðunin um að segja Hjálmari upp hafi engum stjórnarmanni verið léttvæg. Hún hafi verið tekin að vel ígrunduðu máli og átt sér langan aðdraganda. „Stuttu eftir að Hjálmar komst á eftirlaunaaldur, í apríl sl., ákvað stjórn að auglýsa starf nýs framkvæmdastjóra sem taka myndi við verkefnum Hjálmars þegar hann léti af störfum sökum aldurs. Í því fólst einnig sú fyrirætlun að starfið myndi breytast og að nýr framkvæmdastjóri myndi sinna nýjum verkefnum sem stjórn hafði ákveðið að ráðast í í samræmi við breyttar áherslur í starfi félagsins.“
Samhliða því hafi farið fram samtal við Hjálmar um nýtt starf, sem stjórnin vildi bjóða honum, þar sem hann myndi áfram sinna verkefnum í þágu félagsmanna á sömu kjörum og hann hefur notið. „Sú vinna, sem var unnin með fullri vitund Hjálmars, var með aðkomu ráðningarskrifstofu. Í tengslum við það ferli afhjúpaðist sá trúnaðarbrestur sem að ofan greinir með fyrrgreindum afleiðingum.“
Starf framkvæmdastjóra Blaðamannafélags Íslands var auglýst laust til umsóknar þann 23. janúar og ráðningarferlið er nú á lokametrunum.
Athugasemdir