Þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðu ráðherra ríkisstjórnarinnar svara um kaup Landsbankans á tryggingafélaginu TM í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Vakti það furðu hjá sumum þeirra að yfirlýsingar fjármálaráðherra stönguðust á við samþykktir formanna ríkisstjórnarinnar frá því fyrir tveimur árum.
Í gær var tilkynnt um áform Landsbankans, sem er í eigu íslenska ríkisins, að kaupa TM af Kviku banka fyrir 28,6 milljarða króna. Í kjölfarið lýsti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, yfir óánægju sinni með ákvörðunina í færslu á Facebook í gærkvöldi. Sagði hún að hún myndi ekki samþykkja þessi viðskipti nema ríkið myndi hefja sölu á hlut sínum í Landsbankanum.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tóku skýrt fram í ræðum sínum að ekki stæði til að selja hlut ríkisins í Landsbankanum.
„Það er algjörlega skýrt af minni hálfu að ég mun ekki taka þátt í því að selja hlut í Landsbankanum. Það er það sem þessi ríkisstjórn ákvað,“ sagði forsætisráðherra. Hún segist þeirrar eindregnu skoðunar að Landsbankinn skuli vera í eigu almennings áfram.
„Olía á verðbólgubálið“
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, virtist óánægð með það að auka ætti peningamagn í umferð um 28 milljarða króna með kaupunum á TM. „Það er ekki nóg með það heldur sendir bankastjóri Landsbankans í orðsins fyllstu merkingu fjármálaráðherra fingurinn og segir bara hreinlega að fjármálaráðherra komi þetta ekkert við, akkúrat ekki neitt.“
Vísaði Inga þar líklegast til ummæla Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, frá því fyrr í dag. Í samtali við mbl.is sagði Lilja Björk að bankinn myndi standa við kaupsamninginn þrátt fyrir opinbera gagnrýni fjármálaráðherra.
Vildi Inga fá að vita hvaða „gjörningar og plott“ væru í gangi. „Ég get ég ekki betur séð en að sé verið að belgja út báknið og sé verið að stofna hér nýgerðum kjarasamningum í stórkostlega hættu með auknu peningamagni í umferð upp á tæpa 28 milljarða króna sem um leið heitir olía á verðbólgubálið,“ sagði hún.
Inga ýjaði að því að verið væri að reyna að skera Kviku banka, sem ætlar að selja Landsbankanum TM, út úr „einhverjum skuldakröfum í einhverju plotti“ sem hún væri sjálf ekki búin að ná utan um.
Í svari sínu sagði Katrín Jakobsdóttir að bera þyrfti ákvörðunina undir Bankasýslu ríkisins, sem færi með hlut ríkisins í Landsbankanum. „Það er þannig sem þetta mál stendur.“
„Hvaða leikur er í gangi?“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, vísaði í fyrirspurn sinni til forsætisráðherra til yfirlýsingar formanna stjórnarflokkanna árið 2022 þar sem áhersla var lögð á óbreytt eignarhald ríkisins í Landsbankanum. Þetta gengi hins vegar í berhögg við yfirlýsingar fjármálaráðherra.
„Var ekkert að marka þessa yfirlýsingu formanna stjórnarflokkanna? Er það rétt að fjármálaráðherra sé bara að tala út frá sínum eigin hugðarefnum og í raun gegn ákvörðun formanna stjórnarflokkanna í þessum pistli sínum í gær? Hvers vegna er fjármálaráðherra að tala svona beint gegn yfirlýsingu formanna ríkisstjórnarflokkanna? Hvaða leikur er í gangi?“ spurði Þórhildur Sunna.
Í svari sínu sagði Katrín að yfirlýsing formannanna stæði.
„Hvað er eiginlega að gerast hérna?
Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, finnst málið hið furðulegasta. Sagði hann að fjármálaráðherra stillti samstarfsflokkunum upp við vegg með ummælum sínum um einkavæðingu Landsbankans.
„Hvað er eiginlega að gerast hérna? spyr Sigmundur Davíð. „Hefur þetta mál ekkert verið rætt í ríkisstjórn? Er þetta bara skeytasending frá fjármálaráðherra af Facebook frá New York sem hæstvirtur forsætisráðherra gerir ekkert með og tekur ekkert mark á?“
Í svari sínu sagðist Katrín enn standa með yfirlýsingu stjórnarflokkanna frá 2022 um óbreytt eignarhald í Landsbankanum. Sú stefna væri skýr og Sigmundur þyrfti ekki að efast um það né finnast það ruglandi. Mikilvægt væri að halda til haga að viðskipti sem þessi færu eftir ferlum og reglum. Eðlilegt væri að bera ákvörðunina undir Bankasýslu ríkisins. Það væri hennar afstaða gagnvart kaupum bankans á TM.
„Þetta bara kom upp akkúrat núna“
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, innti Lilju eftir því hvort henni hugnaðist það að Landsbankinn keypti stórt tryggingafélag á sama tíma og stefna stjórnvalda væri að draga úr umsvifum ríkisins á fjármálamarkaði.
„Telur hæstvirtur ráðherra að þetta sé í samræmi við eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum? Og ef svo er ekki, telur hæstvirtur ráðherra að stjórnvöld geti með einhverjum hætti stöðva þessi áform Landsbankans út frá armslengdarsjónarmiðum?“
Svör Lilju voru svipuð og Katrínar, en hún sagði að hennar mati væri ríkið ekki að fara að einkavæða Landsbankann. Hún sagði þó að þessi þróun væri nýskeð og að hún ætti eftir að kynna sér málið betur.
„Ég á eftir að kynna mér það bara mun betur nákvæmlega hvernig þetta allt er og hvað Landsbanki Íslands er að hugsa og hvernig hann sér þetta fyrir sér. þannig að ég skal bara vera alveg hreinskilin – þetta bara kom upp akkúrat núna.“
Sigmar sagði þá að svör ráðherranna tveggja leiddu í ljós að alls óljóst væri hver áform ríkisstjórnarinnar væru.
„Menn tala algerlega í austur og vestur. Fjármálaráðherra sagði í gær að þessi kaup ríkisbankans á tryggingafélagi yrði að stöðva nema að rætt yrði um sölu Landsbankans. Nú er hæstvirtur forsætisráðherra búinn að segja að það standi ekki til að selja Landsbankann nema mögulega þegar búið verður að selja Íslandsbanka. Maður klórar sér svolítið í kollinum yfir því hver næstu skref raunverulega verða.“
Athugasemdir (3)