„Það var rosalega gaman og ég ætla sko að fara í alla skóla sem hægt er að fara í,“ sagði ég, sex ára hnáta eftir fyrsta daginn í vorskólanum. Vorskólinn var líka kallaður stubbaskóli sem var í stuttan tíma að vori fyrir sex ára börn til undirbúnings fyrir skólagönguna sem hófst fyrir alvöru að hausti. Aðalmálið í frímínútum var fótbolti, ég var svo heppin að hafa verið talsvert í fótbolta í leikjum okkar krakkanna sem stundum voru allmörg því þrír bæir voru saman í þyrpingu og því oft hægt að setja saman í þokkaleg fótboltalið þegar sumarkrakkarnir voru líka með. Ég brosi oft með sjálfri mér við tilhugsunina um hvernig skipt var í fótboltalið í frímínútum, það var stundum Austan á móti Vestan – það þýddi að þau sem bjuggu austan skóla voru í liði gegn þeim sem bjuggu vestan við. Svo var stundum Willys á móti Land Rover – já, auðvitað áttu flestir bændur jeppa, og liðum mátti skipta líka á þann veg.
Ég ólst upp á bóndabæ, 20 mjólkandi kýr í fjósi, 200 ær, nokkrir hestar, hænur í kofa og einn til tveir hundar og jafnvel köttur í fjósi til að veiða mýs – og svo systkinin mörgu en ég var næstyngst tíu systkina. Í svo stórum systkinahópi er auðvelt að týnast og ég hafði snemma þá tilhneigingu að leita inn í sjálfa mig og til náttúrunnar. Hafði sterkan og virkan huga og hélt lengi vel að það væri besta leiðin í lífinu – að hugsa hlutina sem mest til þrautar – en svo kemur að því að sú leið lokar öllum dyrum.
Ég hafði frjótt ímyndunarafl, talaði við guð og dýr og taldi mig hafa bjargað lífi kýrinnar Búbótar sem var svo óþæg þegar verið var að setja á hana mjaltavélina, hún sparkaði og lét öllum illum látum, enda bara nýlega hætt að vera kvíga. Ég heyrði móður mína segja að það yrði að senda hana í sláturhús, léti kýrin ekki af þessari hegðun, sem mér var mjög brugðið að heyra. Ég fór því að rölta til hennar í haganum á daginn og settist hjá henni þegar hún lá á jórtri, klappaði og strauk og sagði henni í mestu hreinskilni að hún yrði að hætta að sparka og láta illa, annars færi mjög illa fyrir henni. Búbót virtist ekki kippa sér neitt upp við þessi tíðindi, en til að fylgja orðum mínum eftir fór ég að vera hjá henni þegar verið var að setja á hana mjaltavélina, og strauk henni til að minna hana á hversu alvarleg staða hennar væri. Og viti menn, Búbót virðist hafa náð þessu að lokum því hún bætti hegðun sína og slapp við sláturhúsbílinn!
Já, sennilega var ég einrænn krakki, leitaði oft í eigin heim ímyndunarafls og sagna. Man enn hversu leiðinlegt mér fannst að gefa hænunum. Maturinn þeirra var afgangar, kartöfluflus, eggjaskurn, rest af hafragraut morgunsins og saman við hrært fóðri. Ég gerði mér að leik að ímynda mér að hænurnar væru ekki hænur í illa lyktandi kofa, heldur fínar frúr í hvítum kjólum sem settust til borðs, svo ég hrærði jukkinu í hænsnafötunni lystilega saman og blandaði þar fóðri og setti svo fallega í ílanga dallinn þeirra, stráði svo smá korni yfir í lokin svona eins og sykri er dreift yfir skyr. Og fínu frúrnar í hvítu kjólunum sínum gerðu sér þetta alveg að góðu, allavega fannst mér þær líta á mig sínu hornauga með smá þakklæti.
Ég fetaði algenga leið til mennta, í Héraðsskólann að Skógum og í Menntaskólann á Laugarvatni þannig að orð mín eftir fyrsta daginn í vorskóla virtust ganga eftir. Leið mín lá síðar í Kennaraháskóla Íslands sem gerði mig að grunnskólakennara en áður hafði ég kennt sem leiðbeinandi í grunnskóla. Það hefur kannski verið mín árátta síðan – sífellt að sækja mér meira að læra, tók sérkennslunám í Svíþjóð og svo leiðsögunám og jógakennaranám. Og er kannski ekki hætt að sækja mér nám í skólum?
En ég var ekki alveg sátt í tilverunni. Ég var að nálgast fertugt, átti tvo syni og las viðtal sem kveikti í mér. Ákvað að leita á náðir viðmælandans, og við tók vinna við að losa eigið hjarta og tilfinningar úr fangelsi. Sterki hugurinn minn, skynsemin, hafði fjötrað tilfinningaveruna og verkefnin voru að leyfa tilfinningum að koma fram og vera til. Ég lærði að einhverju marki að láta skynsemisveru og tilfinningaveru tala saman – en það gerist nú ekki á einni nóttu því máttur vanans er svo sterkur.
Ég lauk þessari terapíu og fannst ég ganga út í frelsi, tilbúin til að faðma lífið. Sama ár hafði móðir mín skilið við þennan heim eftir baráttu við krabbamein og á þeim tíma opnaðist leynd gátt, tenging við almætti og trú sem fékk mig til að horfa meira til andlegra hluta. Ég skellti mér í guðfræði samhliða vinnu og fékk námsleyfi eitt skólaár frá kennslu sem ég nýtti til þess. En guð var ekki að finna í guðfræðinni – mér til vonbrigða.
Síðar var ég stödd á tímamótum í lífinu þar sem miklar breytingar höfðu brostið á eins og dularfullu öldurnar í Reynisfjöru sem skella óforvarandis svo fólk missir fótanna og er jafnvel tekið á haf út – í hálfgerðu þess konar ástandi var ég og auglýsing um jóganámskeið varð til þess að ég mætti í jógasal. Á móti mér tók engilfögur tónlist, fallegur salur með loftglugga hvar birta flæddi niður og þegar jógakennarinn settist í enda salar á upphækkaðan pall, hvítklædd frá hvirfli til ilja með túrban vafinn um höfuð, þá tautaði hugurinn – hvaða fígúrugangur er nú þetta?
„Lengi hafði það verið svo að ég þorði ekki að eiga mér drauma því óttinn við að þeir rættust ekki varð alltaf yfirsterkari.“
En þetta jóga tók mig – kannski eins og aldan í Reynisfjöru – ég fór í jógakennaranám nokkrum mánuðum seinna, ætlaði raunar bara að skyggnast inn í fræðin, ekki verða jógakennari – of gömul og stirð sagði hugurinn en svo varð það samt raunin. Þarna varð mikil breyting á mér, ég lærði að skilja sjálfa mig, að sýna mér og öðrum meiri mildi, lærði enn meir á hugann minn sem tautaði öllum stundum og mest eitthvað neikvætt. Ég tætti utan af mér vanamunstur, komst nær eigin kjarna, sálinni minni, og vissi betur hvað ég vildi í þessu lífi.
Lengi hafði það verið svo að ég þorði ekki að eiga mér drauma því óttinn við að þeir rættust ekki varð alltaf yfirsterkari. Samt átti ég mér dagdrauma, alveg endalausa sveimhuginn sem ég var, en þeir voru loftkenndir og aldeilis óhætt að sleppa þeim lausum því þeir voru of fjarstæðukenndir til að geta orðið raunverulegir – og voru bara í lendum ímyndunaraflsins.
En svo, kannski með auknum þroska, kannski með vitneskjunni um að vera komin á seinni helming ævinnar – þá breyttist eitthvað – og jú sennilega aðallega vegna þess að ég hafði dottið hálf óvart inn í jógaiðkun, þá breyttist svo margt. Það fór að gefast tóm til að gefa draumum sínum gaum.
Það sem hefur verið minn stærsti lærdómur í lífinu er að læra að stjórna huga sínum en láta hann ekki stjórna sér. Tengjast eigin sál, hlusta eftir draumum sínum og elta þá með ástríðuna í vængjunum. Mitt heilræði: Slepptu taki á huganum. Hleyptu draumunum út, ekki láta þá bara svamla í hugarlendum heldur komdu þeim út í dagsljósið og fylgdu þeim eftir.
Athugasemdir (1)