Öllum grunnskólabörnum verða tryggðar fríar skólamáltíðir, óháð því hvor þau voru skráð í áskrift áður en ákvörðun ríkisins og sveitarfélaganna um að greiða niður máltíðirnar var tekin. Þetta staðfestir Grétar Sveinn Theódórsson, samskiptastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, í samtali við Heimildina.
Tökum Reykjavík til dæmis. Árið 2023 voru 14.755 nemendur skráðir í almenna grunnskóla í Reykjavík, það er grunnskóla sem reknir eru af borginni. Í svari við fyrirspurn Heimildarinnar segir talsmaður Skóla- og frístundsviðs borgarinnar að um 87 prósent nemenda hafi verið skráð í áskrift að skólamat.
Í haust munu því um 1.900 börn í grunnskólum Reykjavíkur eiga kost á því að fá skólamáltíð sem ekki voru skráð í mat. Fyrir foreldra hinna rúmlega 12.800 barnanna, sem voru skráð í skólamáltíðir, munu aðgerðirnar skila sér í auknum ráðstöfunartekjum.
Kostnaður gjaldfrjálsa skólamáltíða í Reykjavík
Ríkið mun greiða 75 prósent af kostnaði þess að gera skólamáltíðir gjaldfrjálsar en sveitarfélögin restina. Áætlað er að kostnaður við þessa aðgerð muni nema um fimm milljörðum króna.
Um stórt og metnaðarfullt verkefni er að ræða og hefur þessi hluti kjarasamninganna vakið mikla athygli. Ýmis atriði sem snerta nánari útfærslu á aðgerðinni liggja þó en ekki fyrir.
Samkvæmt vef Reykjavíkurborgar kosta skólamáltíðir 12.836 krónur. Gróflega reiknað munu gjaldfrjálsar skólamáltíðir kosta tæpar 190 milljónir á mánuði. Af þessari upphæð mun Reykjavíkurborg greiða um rúmar 47 milljónir króna.
Á ársgrundvelli, að frádregnum sumarmánuðunum júní, júlí og ágúst, mun aðgerðin kosta ríkið og Reykjavíkurborg um 1,7 milljarða króna á ári.
Vinna að útfærslu fyrir skóla sem hafa útvistað skólamatnum
Nú reka ekki allir grunnskólar eldhús og útvista þess í stað þjónustunni til einkafyrirtækja. Á undanförnum árum hafa grunn- og leikskólar í auknum mæli útvistað störfum í eldhúsum skólanna í hagræðingarskyni.
Er þetta þrátt fyrir að yfirlýst stefna borgarinnar sé að útvista ekki störfum í eldhúsum í grunn- og leikskólum. Hins vegar leggst borgin ekki gegn því ef breytingin er gerð að frumkvæði stjórnenda skólanna.
Spurður hvernig því verði háttað í grunnskólum þar sem ekki er starfrækt eldhús og máltíðum er útvistað til einkarekinna fyrirtækja segir Grétar Sveinn að enn eigi eftir að komast niðurstöðu gagnvart því atriði ásamt öðrum útfærsluatriðum.
Þá segir Grétar Sveinn að á næstu mánuðum munu ríkið og sveitarfélögin semja um útfærslu ýmsum útistandandi atriðum. Samkvæmt tilkynningu sem birt var á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga er gert ráð fyrir að búið verða að útfæra verkefnið fyrir lok maímánaðar á þessu ári.
Athugasemdir