Tíska er furðulegt fyrirbæri. Þegar ég var unglingur nutu skyndilegra vinsælda síðerma nærbolir sem aðeins gamlir karlar höfðu klæðst fram að því. Einn vetur lögðum við vinkonurnar reglulega leið okkar í Verslun Guðsteins Eyjólfssonar við Laugaveg, þar sem hinir svokölluðu afabolir fengust, í von um að komast yfir flíkina sem seldist jafnharðan upp og ný sending barst.
Um síðustu helgi fór ég með tíu ára dóttur mína í verslunarleiðangur á Oxfordstræti. Hún hafði unnið tuttugu og fimm punda gjafabréf í hæfileikakeppni í skólanum sínum hér í London og fékk því alfarið að ráða för. Þar sem við hentumst milli verslana sem buðu til sölu undarlegan graut af glingri – skart, varasalva, bangsa og stílabækur – vakti athygli mína nýjung. Í mörgum verslananna mátti finna sérútbúið ljósmyndahorn þar sem viðskiptavinir gátu myndað verslunarleiðangurinn á símann sinn og þannig varðveitt hann um ókomna tíð.
Ummerki um líf
Við Leistikowstraße 1 í Potsdam í Þýskalandi stendur bygging sem lítur út eins og afturganga.
Gluggarnir snúa út í veröldina eins og tómar augntóftir. Húðlituð steypan er marin eftir barning tímans. Húsið, sem var byggt á árunum 1916–18, hýsti upphaflega samtök á vegum evangelísku kirkjunnar. Í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar var húsið hins vegar tekið yfir af sovéska hernámsliðinu og því breytt í fangelsi.
Í lok kalda stríðsins var húsinu skilað fyrri eigendum sem varðveittu það eins og Sovétmenn skildu við það. Í dag er þar hýst safn þar sem grimmdarverk sovésku leyniþjónustunnar í fangelsinu eru útlistuð. Fangaklefarnir eru á sínum stað í kjallaranum, ósnertir, kaldir og þröngir. Lyktin af örvæntingu er enn í loftinu. Ummerki um líf sem var þekur veggina en fangarnir ristu margir nöfn sín í steininn.
Eitt nafnanna á veggnum er Erika Sagert. Erika var handtekin 19. mars 1953 þar sem hún safnaði eldiviði í nágrenni fangelsisins og var sökuð um að vera njósnari. Þegar unnið var að því að opna húsið við Leistikowstraße fyrir almenningi höfðu aðstandendur safnsins uppi á Eriku. Hún var spurð að því hvers vegna hún og samfangar hennar hefðu tekið upp á að skilja eftir sig ummerki á veggjunum. „Við vorum viss um að við værum að fara að hverfa af yfirborði jarðarinnar,“ svaraði Erika. „Við gerðum það svo að einhver myndi sjá þau.“
Ég var hér
Á morgun lokar Verslun Guðsteins Eyjólfssonar á Laugavegi hinsta sinni. Hefur hún verið starfrækt frá 1918, lengst af við Laugaveg 34.
Það er eitthvað harmrænt við brotthvarf verslunarinnar. Jafnvel með okkur, sem höfum ekki stigið inn í búðina síðan við klæddumst karlmannsnærbolum sem unglingar, vekur lokunin dapurleika. Hverju sætir?
Engin ljósmynd er til af því þegar ég verslaði í Guðsteini seint á síðustu öld. Ummerki um innkaupaferð helgarinnar með dóttur minni eru hins vegar greypt í símann minn um alla eilífð.
Í Chauvet-Pont-d'Arc-hellinum í Suður-Frakklandi má finna 30.000 ára gamlar útlínur handar sem dregnar hafa verið á steininn. Handarfarið, nöfnin í fangelsinu og ljósmyndahorn verslana á Oxfordstræti bera vott um djúpstæða mannlega þörf til að skilja eftir sig spor, til að segja, „ég var hér“.
Með því að grópa okkur inn í veröldina reynum við að tryggja okkur varanleika þrátt fyrir endanleikann. Lokun herrafataverslunar á Laugavegi, sem starfrækt hefur verið jafnlengi og húsið við Leistikowstraße hefur staðið, er hins vegar áminning um tilgangsleysi þeirrar viðleitni okkar. Því eins og segir í ljóðinu: Allt er í heiminum hverfult. Unglingurinn í afabolnum er horfinn á braut. Nú er hún Snorrabúð stekkur.
Athugasemdir