Undanfarnar vikur hefur átt sér stað hreint ótrúleg pólitísk umræða. Hún byggir á því að ábúðarmikið fólk, ýmist í jakkafötum eða drögtum, hefur sett í brýrnar og kallað eftir raunsæi og skynsemi í nálgun um mikið og aðkallandi vandamál, fjölda flóttamanna á Íslandi. Pólitískum áróðri og lýðhyggju með skammtímamarkmið um upptakt í skoðanakönnunum hefur verið pakkað inn sem ábyrgri og fullorðinni afstöðu til að mæta barnalegri nálgun fólks sem er blindað af manngæsku.
Trommutakturinn er að uppistöðu eftirfarandi: Flóttafólk er að sliga velferðarkerfið og kosta okkur svo mikla peninga að það sé lítið eftir til annarra verka. „Ísland er uppselt“ hrópaði einn stjórnmálaleiðtoginn. „Við höfum ekki horfst í augu við afleiðingar þess að ganga of langt í þessum málaflokki. Þess vegna eru innviðirnir á Íslandi sprungnir,“ bætti annar við. Opin landamæri og velferðarkerfi fara ekki saman sagði sá þriðji. „Kerfið er ónýtt“ klykkti enn annar út með.
Líkt og viðbúið er þegar um útlendingaandúð er að ræða smitaðist umræðan hratt frá flóttafólki og yfir á innflytjendur í heild, en alls eru, samkvæmt birtum tölum Hagstofu, um 73 þúsund erlendir ríkisborgarar í landinu.
Þeir stjórnmálamenn sem tala hæst um að það þori enginn að taka umræðuna um erfiðu málin eru vanalega þeir sem geta illa lesið gögn með réttum hætti eða notað staðreyndir til að undirbyggja málflutning sinn. Fólk sem talar af tilfinningu og í skrumstíl frekar en með því að vísa í staðreyndir.
Við skulum því, enn og aftur, taka umræðuna, og styðjast við tölur.
Tölum um Venesúela
Á árinu 2023 bárust 4.155 umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi, samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun. Þeim fækkaði um átta prósent milli ára. Þessi tvö ár eru þau einu í Íslandssögunni sem Ísland hefur tekið á móti miklum fjölda flóttamanna.
Tveir hópar, sem íslensk stjórnvöld hafa sérstaklega boðið viðbótarvernd hér, voru uppistaðan. Annar er frá Venesúela, en þaðan bárust 1.212 umsóknir. Á meðan að þessi hópur fékk viðbótarvernd þá lagðist hann ekki á nein kerfi heldur fann sér vinnu og sá sér farborða. Lagði sitt fram til samfélagsins með sköttum og gjöldum. Atvinnuþátttaka þeirra á árunum 2018 til 2022 var meira að segja umtalsvert hærri en hjá íslenskum ríkisborgurum, eða 86,5 prósent. Fólk sem er í vinnu leggst ekki á kerfin hvað varðar húsnæði eða framfærslu.
Í byrjun árs í fyrra var ákveðið að hætta að veita þessum hópi þá viðbótarvernd sem hann hafði fengið fram af því og við það fór hópur Venesúelabúa að safnast upp hérlendis sem mátti ekki vinna. Hann fór því, vegna ákvörðunar stjórnvalda, á opinbera framfærslu á meðan að niðurstaða fékkst í mál þeirra. Þar er kominn stærsta ástæða þess að kostnaður við útlendingamál rauk upp úr 12 milljörðum króna í 20 á milli áranna 2022 og 2023. Þegar kærunefnd útlendingamála staðfesti svo ákvörðun Útlendingastofnunar sat hér eftir risastór hópur sem þarf annaðhvort að senda til baka eða ákveða að veita einhvers konar leyfi til að vera.
Umsóknum frá Venesúela hefur svo fækkað gríðarlega síðustu misseri. Þær voru 62 á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs. Varla er það til að selja upp Ísland.
Tölum um Úkraínu
Hinn hópurinn, sá stærsti, var Úkraínufólk, en þaðan komu 2.341 manns á síðasta ári. Fáir virðast vera á þeirri skoðun, að minnsta kosti opinberlega, að Ísland, herlausa þjóðin í miðju Atlantshafi sem notið hefur veru í NATO efnahagslega og öryggislega langt umfram eigið framlag frá stofnun varnarbandalagsins, eigi ekki að axla sína ábyrgð og taka á móti því fólki líkt og aðrar Evrópuþjóðir. Það er ekki uppi nein krafa um að senda Úkraínufólkið heim.
Þá skulum við heldur ekki gleyma því að Ísland, eitt ríkasta land í heimi, hefur aldrei, ólíkt flestum nágrannalöndum okkar, staðið sína plikt í móttöku á svokölluðu kvótaflóttafólki frá stríðshrjáðum svæðum. Frá því að Ísland byrjaði að taka á móti flóttamönnum árið 1956 og fram til ársins 2018 tókum við á móti samtals 695 kvótaflóttamönnum, eða 12,2 að meðaltali á ári. Árið 2019 ætluðum við svo að taka á móti 85 manns, sem á endanum urðu 74. Þrátt fyrir stórkostlega aukningu í móttöku kvótaflóttamanna samkvæmt fréttatilkynningum stjórnarráðsins, en til stóð að þeir yrðu 100 árið 2020, var ekki tekið á móti neinum það árið. Vísað var í kórónuveirufaraldurinn sem ástæðu. Hann stöðvaði þó ekki nágrannaþjóðir okkar sem öll stóðu sín gefnu loforð. Árið 2021 tókum við svo á móti 86 og á síðustu tveimur árum, 2022 og 2023, voru þeir samtals 66 talsins.
Tölum um 412 einstaklinga
En aftur að þeim sem leita hér verndar á eigin vegum. Frá öðrum löndum en Úkraínu og Venesúela komu samtals 951 manns í fyrra, eða færri en gerðu það árið 2022. Til að setja þá tölu í samhengi þá er það svipaður fjöldi erlendra ríkisborgara og fluttu hingað til lands í hverjum einasta mánuði á árinu 2023.
„Raunveruleikinn er auðvitað sá að innviðir eru ekki sprungnir vegna 412 flóttamanna sem fengu hér vernd, eða 951 sem sóttust eftir henni“
Fyrir utan þá sem komu frá Úkraínu fengu alls 412 einstaklingar hér vernd, að meðtöldum þeim 58 frá Venesúela.
Þetta eru tölulegar staðreyndir, teknar saman af hinu opinbera.
Innviðir eru kerfi eins og heilbrigðis-, mennta-, löggæslu-, samgöngu- og húsnæðiskerfi. Þjónusta við íbúa landsins sem stjórnvöld bera ábyrgð á að séu nægjanlega sterk og burðug. Frá ársbyrjun 2010 og fram á síðasta haust fjölgaði íbúum á Íslandi úr 318 þúsund í 397 þúsund, að uppistöðu vegna fjölgunar á erlendum ríkisborgurum sem komu hingað frá EES-svæðinu til að vinna. Notendum innviða fjölgaði um næstum 80 þúsund. Til viðbótar hefur fjöldi ferðamanna, sem nota mörg þessara kerfa líka, rúmlega fjórfaldast.
Raunveruleikinn er auðvitað sá að innviðir eru ekki sprungnir vegna 412 flóttamanna sem fengu hér vernd, eða þeirra 951 sem sóttust eftir henni. Þeir eru sprungnir vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa valið að fjárfesta ekki í innviðum í þeim mæli sem notendafjöldi þeirra hefur vaxið. Þess í stað hafa þau valið að veikja þá með því að einblína á að gefa eftir tekjustofna til að standa undir fullburða velferðarsamfélagi.
Tölum um það sem okkur vantar
Þess utan vantar Ísland fólk. Í fyrsta lagi vantar okkur fólk til að vinna í störfunum sem hagkerfið býr til til að viðhalda hagvexti og auka landsframleiðslu. Við framleiðum einfaldlega ekki lengur slíkt fólk sjálf. Í tölum Hagstofunnar, sem birtar voru í fyrrahaust, kom fram að yfirleitt sé miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mannfjölda til lengri tíma litið. Árið 2022 var frjósemi íslenskra kvenna 1,59 og hefur ekki verið minni síðan mælingar hófust árið 1853. Frjósemi hefur enn fremur ekki farið upp fyrir 2,0 í áratug og fólk er sífellt að verða eldra þegar það eignast sín fyrstu börn.
Sennilega eru margar ástæður fyrir þessu, en versnandi innviðir spila þar klárlega stóra rullu. Fyrir vikið eru þeir sem eru með íslenskan bakgrunn, og lifa blessunarlega mun lengur en áður, að verða ósjálfbær hópur miðað við kröfur samfélagsins. Það vantar einfaldlega fólk til að sjá um unga og aldna. Þann hóp þurfum við að sækja að utan.
Í grænbók í málefnum innflytjenda sem birt var í nóvember kemur fram að meirihluti þeirra sem flytja til Íslands erlendis frá starfa í greinum sem tengjast ferðaþjónustu og verslun. „Þegar litið er til þess hvernig hlutfallsleg skipting er á milli þeirra sem koma frá EES-ríkjum og þeirra sem koma utan EES-svæðisins sést að nokkuð stærri hluti þeirra sem koma utan EES-svæðisins starfar hjá hinu opinbera. Leiða má líkur að því að sá hópur starfi að stórum hluta innan heilbrigðisþjónustunnar.“
Tölum um einhleypu brúnu mennina
Ein mýtan sem haldið er fram er að hingað til lands hrúgist einhleypir karlar frá öðrum menningarheimum sem áreiti konur, stundi glæpi, leggist á félagslegu kerfin og stundi almennt iðjuleysi. Sú mýta fær ekki stoð í tölum um atvinnuþátttöku né tölum um glæpatíðni. Ef einungis er horft á þá sem sækjast eftir vernd á Íslandi þá segja tölurnar okkur að nokkurt jafnræði sé með kynjunum, tæplega 53 prósent eru karlar og rúmlega 47 prósent konur. Að langmestu leyti er um ungt fólk að ræða á besta mögulega vinnualdri, en tæplega helmingur allra umsækjenda á árinu 2023 var á aldrinum 18 til 34 ára.
Á hinum mjög fróðlega vef Metill.is, sem Brynjólfur Gauti Guðrúnar Jónsson, doktorsnemi í tölfræði, heldur úti, má sjá að ungum karlmönnum hefur fækkað hlutfallslega meðal þeirra sem sækjast eftir vernd á Íslandi, ef flóttafólk frá Úkraínu er undanskilið. Af Norðurlöndunum er hlutfall þeirra nú lægst í Svíþjóð og á Íslandi.
Tölum um hvað ætti að hafa verið búið að gera
Það eina góða sem komið hefur út úr þessari umræðu, sem fengið hefur ábyrgðarlaust að geisa hér síðustu daga og vikur, er að ríkisstjórn Íslands gat loks sammælst um aðgerðir í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, flóttafólks og innflytjenda. Það er ekki lítið afrek, sérstaklega í ljósi þess að sitjandi ríkisstjórn hefur varla getað sammælst um nokkuð árum saman annað en það að viðhalda úr sér gengnum kerfum og hanga á völdum.
Í aðgerðunum felst meðal annars að afgreiðslutími umsókna um alþjóðlega vernd verður styttur verulega, niður í 90 daga að meðaltali á hvoru stjórnsýslustigi, að teymi verði skipað til að klára mál þess stóra hóps Venesúelabúa sem héldu að þeir hefðu boð um að koma hingað en komust svo að því að svo væri ekki á sex mánuðum og að unnið verði að því að koma á fót búsetuúrræðum fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd þar sem þeir fá stuðning, upplýsingar og öryggi.
Auk þess á að stórauka áherslu á jöfn tækifæri nýrra Íslendinga og vinna gegn stéttskiptingu þeirra með íslenskukennslu, inngildingu, auknum stuðningi innan skólakerfisins og viðurkenningu á því að menntað og sérhæft fólk frá öðrum löndum sem hingað flytur í leit að betri lífi geti nýst betur en til að skúra gólf, búa um rúm eða þjóna til borðs. Þá á að einfalda umsóknarferli fyrir dvalar- og atvinnuleyfi.
Allt eru þetta góðar og þarfar aðgerðir. Það hefði bara átt að ráðast í þessar aðgerðir fyrir löngu síðan. Til viðbótar mætti bæta við að það þarf að dreifa álaginu af þjónustu við fólk á flótta mun betur milli sveitarfélaga svo sveitarfélög, og skattgreiðendur, í Reykjavík, Reykjanesbæ og Hafnarfirði, beri ekki hitann og þungann af henni líkt og nú er.
Tölum um hvað við þurfum að gera núna
Við getum ekki haldið áfram að vaxa efnahagslega nema með því að flytja inn fólk. Það er staðreynd. Við getum ekki rekið hér stöðugt velferðar- og heilbrigðiskerfi án þess að flytja inn fólk. Það er staðreynd. Fólki á flótta mun ekki fækka, heldur fjölga, vegna stríða, aukinnar misskiptingar og loftslagsáhrifa, það er staðreynd. Og það fólk mun sækja í rík og örugg lönd eins og Ísland, það er staðreynd.
„Það sem við þurfum er pólitískt þor, bjartsýni og aðgerðir til að líta á stöðuna sem jákvæða áskorun“
Við eigum að byggja upp kerfi sem hefur fyrirsjáanleika í þessum málum og hefur það að markmiði að bæði þeir sem hingað koma og þeir sem eru hér fyrir hafi margvíslegan hag af. Orðræða þeirra sem tala um að loka landamærum ber merki um hræðslupólitík og skammsýni. Það sem við þurfum er pólitískt þor, bjartsýni og aðgerðir til að líta á stöðuna sem jákvæða áskorun.
Til þess þurfum við að tala um aðrar tölur. Við getum talað um þá 62 milljarða króna sem samráð skipafyrirtækja hefur kostað neytendur á Íslandi, þá fákeppni og einokun sem ríkið á öllum helstu mörkuðum í landinu sem stuðlar að speglun á slíkum tilkostnaði. Þennan vítahring þarf að uppræta og mynda þjóðarsátt um opið hagkerfi þar sem frjálsræði ríkir í viðskiptum með skýrum leikreglum og öflugu eftirliti. Við getum talað um þá 37 milljarða króna sem heimili landsins greiða í bein og óbein þjónustugjöld vegna notkunar á greiðslukortum, og innleiða greiðslulausn sem hefur hagsmuni annarra en fjármálageirans að leiðarljósi. Við getum talað um að 71 prósent af arðinum sem verður til af nýtingu sjávarauðlindarinnar fer til þeirra sem fá að nýta hana en einungis 29 prósent til þeirra sem eiga hana.
Við getum talað um marga fleti í íslensku samfélagi sem hafa verið hannaðir til að beina peningum og áhrifum til fámennra hópa sem lifa á gráa svæðinu milli viðskipta og stjórnmála sem eru mannanna verk og þarf einungis vilja til að uppræta.
En við þurfum aðallega að hætta að tala, og fara að gera. Með því er hægt að sækja fjármögnun til að rétta við innviði landsins. Veita íbúum jöfn tækifæri í lífinu.
Líka þessum 412 sem fá vernd hér árlega.
Síðan þá hafa þeir setið með hendur í skauti, aðgerðalausir.