Sólríkan sumardag árið 2022 arkaði ég ásamt barnahóp mínum í átt að íþróttamiðstöð Islington-hverfis þar sem ég bý í London. Við komumst þó ekki langt því á vegi okkar varð stórflóð. Um göturnar rann vatn sem náði mönnum upp að mitti. Við fylgdumst með slökkviliðinu koma íbúum og starfsfólki fyrirtækja til aðstoðar. Hálfan dag tók að dæla vatninu burt.
Árið 1989 var vatnsveita á Englandi einkavædd. Var þeirri ákvörðun ætlað að auka skilvirkni og fjárfestingar í innviðum. Raunin varð hins vegar önnur. Svo litlu var varið í viðhald vatnsleiðslna að tuttugu prósent alls neysluvatns fer nú til spillis vegna leka. Á árunum 2007–2016 var engu að síður níutíu og fimm prósent hagnaðar vatnsveitufyrirtækja greidd út sem arður.
Þegar upptök flóðsins í Islington urðu ljós greip um sig reiði. Orsökin var sprungin vatnsleiðsla. Fimmtíu húseignir skemmdust og fjölda fyrirtækja var lokað til lengri tíma. Meira að segja dagblaðið Financial Times, kyndilberi frjálshyggjunnar, boðaði í kjölfarið að „tími væri kominn til að viðurkenna að það hefðu verið mistök að einkavæða vatnsveituna“.
„Er einkavæðing ellinnar gerð með samþykki landsmanna?“
Vatnsveitur eru á ný í deiglunni í Englandi. Svo virðist sem fyrirtækin hafi lengi losað í leyfisleysi óhreinsað skólp út í sjó og ár. Þegar stjórnendum vatnsveitnanna var skipað að bæta ráð sitt spyrntu þeir við fótum. Á sama tíma og þeir gerðu upp á bak fengu þeir 26 milljónir punda greidd sem bónusa.
En það er ekki aðeins vatnsveitan í Englandi sem telur fyrstu skyldu sína að umbuna innanbúðarfólki með ærnum tilkostnaði fyrir fólkið sem fyrirtækinu er ætlað að þjóna.
Hjúkrunarheimili eða fangelsi?
Nýverið bárust fréttir af uppsögnum starfsfólks á einkarekna hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Var það gert í kjölfar þess að eigendur rekstrarfélags Sóltúns seldu húsið sem hjúkrunarheimilið er starfrækt í og greiddu sér svo út úr félaginu tvo milljarða króna.
Vegna starfsmannaskorts er starfsfólki sem sinnir umönnun íbúa nú einnig ætlað að laga kaffi, vaska upp og skúra gólf svo fátt eitt sé nefnt. Einnig hafa aðstandendur verið beðnir um að þrífa herbergi og koma með til verksins eigin tuskur og hreinsiefni.
Aðstandandi konu sem dvaldi á hjúkrunarheimilinu sagðist í samtali við Heimildina heldur vilja eyða síðustu ævidögunum í fangelsinu á Hólmsheiði en á Sóltúni. „Annars vegar ertu með starfsfólkið á gólfinu sem er alveg yndislegt og gerir sitt allra besta. En svo ertu með stjórnendur eða yfirstjórnina,“ sagði hann og kvað fyrirmæli um sparnað hafa bitnað verulega á þjónustunni.
Opnað bakdyramegin
Einu og hálfu ári eftir flóðið í Islington liggur starfsemi íþróttamiðstöðvar barna hverfisins enn að mestu niðri. Stjórnendur vatnsveitunnar hafa þó gengið að umbun sinni vísri. Senn gæti þó orðið breyting á.
Bresk stjórnvöld hyggjast nú banna bónusgreiðslur til stjórnenda vatnsveitufyrirtækja sem stunda ólöglega skólplosun í örvæntingarfullri tilraun til að stöðva yfirgang þeirra. „Það er tími til kominn að yfirmenn vatnsveitnanna sæti ábyrgð,“ sagði Steve Barclay, umhverfisráðherra Bretlands.
Í nýrri skýrslu sem heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, lét gera er mælst til aukinnar aðkomu einkaaðila að rekstri hjúkrunarheimila, sér í lagi við uppbyggingu og rekstur fasteigna.
Húsnæði hjúkrunarheimilisins Sóltúns var selt fasteignafélaginu Reginn, sem skráð er á hlutabréfamarkað. Hjúkrunarheimilið leigir nú fasteignina af félaginu fyrir rúmlega 19 milljónir króna á mánuði, eða tæplega 230 milljónir króna á ári.
Í ljósi nýlegra rekstrarörðugleika Sóltúns er erfitt að sjá að sú ráðstöfun sem Willum Þór Þórsson berst nú fyrir muni gefast vel.
Jonathan Portes er hagfræðiprófessor við einn virtasta háskóla Bretlands. Hann vann við að útfæra einkavæðinguna árið 1989. Hann segir skattgreiðendur hafa stórtapað þegar ríkiseignir voru seldar á undirverði og neytendur hafa verið ofrukkaða fyrir grunnþjónustuna allar götur síðan.
Íslensk stjórnvöld virðast nú reyna að opna bakdyramegin á aukinn einkarekstur í öldrunarþjónustu sem dulbúinn er sem einhvers konar fasteignaflétta. Kallaði forseti ASÍ, Finnbjörn Hermannsson, tillögurnar í skýrslu heilbrigðisráðherra „einkavæðingu ellinnar“.
Einkavæðing vatnsveitunnar á Englandi var gerð í óþökk almennings sem geldur hana nú dýru verði. Er einkavæðing ellinnar gerð með samþykki landsmanna?
Mikil er skömm einkavæðingarmanna!
Hvaða klíka er nú að vinna bak við tjöldin?