Háskólinn í Reykjavík ætlar ekki að þekkjast boð háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra um að fá fullan ríkisstyrk gegn því að afnema skólagjöld. Í fréttatilkynningu sem háskólinn sendi frá sér fyrir stuttu segir að stjórn skólans „telur sér ekki fært að skerða rekstrartekjur skólans um 1200 milljónir á ári með því að samþykkja hugmynd háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins um aukið ríkisframlag.“
Ákvörðun stjórnar Háskólans í Reykjavík byggir að mörgu leyti á röksemdum sem komu fram ályktun Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík sem var birt fyrr í morgun. Í þeirri ályktun kom fram að nemendur telji að í tilboði ráðherra felist í raun fjárskerðing til skólans.
Ekki sé hægt að samþykkja tilboðið og varðveita á sama tíma gæði náms og sérstöðu skólans. „Við í stúdentaráði teljum ómögulegt að halda þessari sérstöðu sem nemendur í HR kjósa með svona fjárskerðingum,“ segir í ályktuninni.
Í tilkynningunni er haft eftir Ragnhildi Helgadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík, sem segir það sé „mikilvægt að það komi fram að ekki er verið að auka við það fjármagn sem fer inn í háskólakerfið í heild sinni heldur er verið að breyta því hvernig kökunni er skipt.“
Ragnhildur bendir á að heildarfjármagn til háskólanna myndi í raun minnka ef allir tæku þátt í því. Það komi ekki aðeins illa niður á Háskólanum í Reykjavík heldur öðrum háskólum líka.
Athugasemdir (1)