Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík sendi nýverið frá sér ályktun þar sem tilboði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins um full fjárframlög gegn afnámi skólagjalda er hafnað og stjórnvöld hvött til þess að endurskoða úrræðið.
Í ályktuninni segir að tilboðið feli í sér að rekstrartekjur skólans lækki um rúman milljarð króna „og þar sem HR er rekið sem sjálfseignarfélag og skilar hann ekki hagnaði þýðir þeta niðurskurður um u.þ.b. 15%.“
Í tilkynningunni segir Stúdentafélagið fagna umræðu um að fé skuli fylgja nemendum en kallar eftir því að stjórnvöld styðji nemendur í sjálfstætt starfandi háskólum, óháð því hvort þeir greiði skólagjöld eða ekki.
Þá segir í ályktuninni að ekki sé hægt að tryggja gæði kennslu og fara eftir skilmálum úrræðisins sem skólanum býðst. „Forsendur í núverandi tilboði frá ráðuneytinu gefa í ljós að HR gæt þá tæplega helmingað skólagjöld en haldið sömu sérstöðu sem nemendur hafa valið.“
Í samtali við Jakob Daníelsson, forseta Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík, segir hann að stúdentafélagið hafi sent ályktunina til stjórn skólans sem tekur lokaákvörðun um málið. „Ég held að þau séu nú sammála okkur í þessu að það sé erfitt að halda þessari sérstöðu uppi ef þú ætlar að skera niður um 15 prósent,“ segir Jakob.
Tilboð háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra
Fyrr í vikunni tilkynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að sjálfstætt starfandi háskólum; Háskólanum í Reykjavík, Háskólanum á Bifröst og Listaháskóla Íslands stæði til boða fá óskert fjárframlög gegn því skilyrði að þeir afnemi skólagjöld.
Undanfarin ár hafa framlög til skólanna þriggja verið á bilinu 60 til 80 prósent af því sem opinberir háskólar hafa fengið. Í tilkynningu ráðuneytisins segir að breytingin verði fjármögnuð innan ramma fjárlaga 2024 og innan gildandi fjármálaáætlunar. Enn sem komið er liggur ekki fyrir hvort Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst muni þiggja boð ráðherra.
Listaháskóli Íslands tilkynnti samdægurs að skólinn myndi þekkjast boð ráðherra og mun afnema skólagjöld frá og með næsta hausti. Í samtali við blaðamann Heimildarinnar sagði Kristín Eysteinsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands, að það hafi lengi verið eitt af stóru markmiðum skólans að gera nám í listum aðgengilegra fyrir fjölbreyttari hóp fólks. Þá muni skólinn líta til annara möguleika til þess að afla sér sértekna.
Athugasemdir