Þessi grein birtist fyrir rúmlega 11 mánuðum.

Börnin sem bíða á Gaza

Heim­ild­in hef­ur rætt við að­stand­end­ur rúm­lega sjö­tíu ein­stak­linga sem fast­ir eru á Gaza, for­eldra sem ótt­ast um af­drif barna sinna og börn sem ótt­ast um líf for­eldr­anna. Al­gjör ör­vænt­ing birt­ist hjá þeim öll­um, sem eru á Ís­landi og þurfa að leggja líf fjöl­skyldu­með­lima í hend­ur ís­lenskra stjórn­valda. Auk þess að biðla til stjórn­valda að ná fjöl­skyld­um þeirra heim, biðla þau til þeirra að gera ekki grein­ar­mun á ís­lensk­um börn­um og palestínsk­um.

Móðir barns í lífshættu eftir árásir Ísraelshers, faðir þriggja ára langveikrar stelpu og frændi sem sér um systkinabörn sín sem þrá ekkert heitar en að fá foreldra sína til Íslands. Faðir ellefu mánaða gamals barns, faðir tíu mánaða barns, sjö barna faðir, eiginmaður sem upplifir sig ekki lifandi án eiginkonu sinnar sem er föst á Gaza.

Á síðustu vikum hefur Heimildin rætt við fólk um hvernig það er að eiga fjölskyldumeðlimi sem eru fastir á Gaza, búa við stríð, hungur, vatnsskort og stöðugan ótta. Hvernig tilfinning það sé að bíða þeirra hér heima á Íslandi. Þetta eru fjölskyldumeðlimir rúmlega sjötíu einstaklinga sem hafa fengið samþykkt dvalarleyfi fyrir fjölskylduna sína á grundvelli fjölskyldusameiningar. Sumir sóttu um slíkt leyfi árið 2022 en geta en ekki enn tekið utan um fjölskyldu sína.

Þetta eru sögur þeirra.

„Pabbi, ekki leyfa okkur að deyja“

„Má ég koma til þín, gerðu það?“ sagði Mohammed Albayyouk í símann við pabba sinn úr tjaldi í Rafah. Hann bað hann um að hlífa sér við árásum Ísraelshers, hann bað pabba sinn um að hlífa sér við dauðanum. „Pabbi, gerðu það, ekki leyfa okkur að deyja, ekki leyfa þeim að drepa okkur,“ sagði Mohammed litli, sem er þriggja ára, við Imad Albayyouk, pabba sinn, sem er hér á Íslandi ásamt þrettán ára dóttur sinni að bíða eftir Mohammed, systkinum hans og móður. Imad gat ekki annað en grátið við að heyra son sinn segja þetta.

Mohammed litliYngsti sonur Imad heitir Mohammed og er þriggja ára gamall.

Imad reyndi hvað hann gat að koma börnunum sínum og eiginkonu á lista landamærastöðvarinnar í Rafah við landamæri Egyptalands en það kostar tæpar 700 þúsund fyrir hvern fullorðinn einstakling að komast yfir á eigin vegum og um 350 þúsund krónur fyrir hvert barn. Það hefði kostað Imad þrjár og hálfa milljón króna að koma þeim yfir landamærin til Egyptalands og hann átti þá upphæð ekki.

Sömu sögu má segja af Madji Abdaljawwad, sem fór nýlega til Egyptalands til þess að reyna á eigin spýtur að koma fjölskyldunni sinni, þremur börnum og konu, út af Gaza. Fyrsta verk við komu hans til Kaíró, höfuðborgar Egyptalands, var að óska eftir því við utanríkisráðuneyti Egypta að fjölskyldu hans yrði komið yfir landamærin og í skjól. Honum var tjáð að það myndi kosta hann 1,7 milljónir króna að koma þeim yfir. Upphæð sem hann á ekki.  

„Ég mun ekki fara aftur til Íslands án eiginkonu minnar og barnanna þriggja. Það er nóg að ég sé búinn að missa móður mína og frænda. Ég ætla ekki að missa þau líka,“ sagði Madji við blaðamann Heimildarinnar frá Egyptalandi.

Úr einu tjaldi í annað

Mohammed litli, sonur hans Imad, hefur þurft að flytja tjalda á milli frá því að stríðið hófst fyrir fjórum mánuðum síðan. Bæði hefur hann þurft að flytja á milli tjalda með fjölskyldu sinni á leið þeirra frá Khan Younis, þar sem þau áttu heima áður en stríðið byrjaði, til Rafah þar sem þau eru núna og á milli tjalda í Rafah-borg. 

Rafah-borg, sem áður hýsti 275 þúsund íbúa, hýsir nú yfir eina og hálfa milljón Palestínumanna, eða um 65 prósent af öllum íbúum Gaza, og ásýnd borgarinnar einkennist af þeim fjölda tjaldbúða sem settar hafa verið upp og eyðileggingu vegna loftárása. Sum tjöldin sem finna má í Rafah eru gerð úr engu öðru en gólfmottum eða öðru efni sem tiltækt var til að búa til einhvers konar skjól fyrir veðri og vindum. Snákar og önnur skriðdýr eiga greiða leið inn í þau eins og rigningin og kuldinn. Tjöld úr betri efniviði eru seld dýrum dómi í Rafah á meðan tjöld sem hjálparstofnanir hafa reynt að koma inn á svæðið ásamt vatni, mat og öðrum nauðsynjum, sitja ónotuð í vörugeymslum hinum megin við landamærin í Egyptalandi þar sem Ísrelsher hleypir þeim ekki í gegn. Þeirra afsökun er að fólkið sem er í Rafah, sem býr við hungur og aðstæður sem samkvæmt fulltrúa Sameinuðu þjóðanna eru ekki ætlaðar manneskjum, gæti notað tjaldstangir sem vopn. 

Aðstæður í tjaldbúðum í RafahMyndin var tekin þann 15. febrúar og á henni má sjá mann reyna að sópa út drullu eftir mikla rigningu.

Fólkið sem býr í Rafah býr við stanslausan ótta um að Benjamin Netanjahú láti verða af hótunum sínum að senda landgönguliða inn í borgina til þess að rýma hana, borgina sem átti að vera síðasti öruggi staðurinn á Gaza. Þetta vita fjölskyldumeðlimir íslensku dvalarleyfishafanna sem eru föst í Rafah.

„Það sem hræðir mig mest er að Ísraelsher fari inn á Rafah. Ef fjölskyldan mín er ekki komin út fyrir það, þá komast þau aldrei út,“ segir Imad Albayyouk. 

„Pabbi, gerðu það, ekki leyfa okkur að deyja, ekki leyfa þeim að drepa okkur“

Of ungur til að fá dvalarleyfi

Imad sótti um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar fyrir pabba sinn og systur líka en fékk neitun. Pabbi hans er 66 ára og til þess að falla undir skilgreiningu á því hverjir eiga rétt á dvalarleyfi á þessum forsendum þurfa foreldrar að verða orðnir 67 ára. Systkini uppfylla ekki skilyrði um fjölskyldusameiningu heldur. Yasmin Albayyouk, systir Imad, greindist með krabbamein tveimur mánuðum áður en stríðið hófst. Hún býr með Mohammed og systkinum hans, mömmu þeirra og pabba sínum í tjaldi í Rafah og fær enga meðferð við krabbameininu, hvorki lyf né aðhlynningu. Imad segir að þegar hún hafi leitað á sjúkrahús til að fá aðstoð sé henni tjáð að því miður hafi þeir alvarlega slösuðu og deyjandi forgang. „Hún er bara í tjaldi að deyja,“ útskýrir Imad. 

Dóttir hans, Samira, sem er hér á Íslandi með pabba sínum, er þrettán ára gömul. Hún er því í grunnskóla en gengur illa að stunda námið vegna kvíða yfir því að vita af mömmu sinni og litlu systkinum í þessum aðstæðum. Imad útskýrir að um daginn hafi Samira hringt í mömmu sína til að heyra rödd hennar en þegar mamma hennar svaraði var hún á hlaupum undan sprengjuregni ásamt börnum sínum, Samira heyrði í gegnum símann í sprengjunum falla á jörðina. Imad gat ekkert sagt við Samiru fyrir tárum. 

Imad reynir að hugga dóttur sína, reynir að fá hana til að einbeita sér að náminu, reynir hvað hann getur að hún, verandi á Íslandi, geti lifað eðlilegu lífi. Til þess að róa hana hefur hann logið að henni að mamma hennar sé á leiðinni, að íslensk stjórnvöld séu á leiðinni að ná í hana. Það er það sem Samira trúir en Imad veit hvorki hvenær eða hvort þau komist einhvern tíma hingað. 

Þau feðgin búa inni á bróður Imad því þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur hann ekki fengið húsnæði eða vinnu ef út í það er farið. 

Sjö börn á Gaza

Strákarnir hans SalimMyndin af Ibrahim 9 ára, Fayeq 7 ára, Mohammed 5 ára og Khalil 4 ára var tekin tveimur dögum áður en stríðið braust út.

Margir meðlimir Albayyouk-fjölskyldunnar búa nú á Íslandi og eru í sömu stöðu og Imad. Salim Albayyok frændi hans á sjö börn og konu á Gaza. Yngsta barnið hans er fjögurra ára, sonur hans Khalil. Fjögur af sjö börnum hans sem búa nú í tjaldi í Rafah eru 10 ára eða yngri. Tvær eldri stelpurnar hans, Ghazal sem er þrettán og Talja sem er fjórtán ára eru ekki að upplifa stríð eða árásir ísraelska hersins í fyrsta skipti eins og sum af yngri systkinum þeirra. „Þær þekkja sprengingar,“ segir Salim. Hann segir skelfilegt að vera foreldri og vita að börnin hans þekki hljóðin í sprengjum eins vel og þau gera. 

„Hún er bara í tjaldi að deyja“

Þær voru ekki nema 10 og 11 ára árið 2021 þegar sprengjum rigndi úr herþotum Ísraelshers í ellefu daga samfleytt. Þegar Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði að „ef til er helvíti á jörðu, þá lifa börnin á Gaza í því“. Þetta „helvíti“ eins og Guterres lýsti því, var að mati Salim „brandari“ miðað við það sem er að gerast núna. „Barnið mitt hringir í mig grátandi því hann vill bara fá banana en ég er ekki með dvalarleyfi og get ekki unnið svo ég get ekki sent honum neina peninga,“ segir Salim. Hann segir að þegar fjölskyldan hans fái einhvern mat sé það yfirleitt í gegnum hjálparstofnanir og þess vegna finnist honum „hræðilegt“ að Ísland hafi fryst greiðslur til Palestínuflóttamannahjálparinnar.

„Land eins og Ísland sem styður öll mannréttindi en svo stöðva þau allt í einu, í miðju stríði, alla hjálp til flóttamanna hjálparinnar. Það er hræðilegt.“ Frændi hans, Jamil, sem sjálfur á fjögur börn sem eru föst á Gaza, lýsir því í samtali við Heimildina að yngsti sonur hans, Mohammed, sem er fimm ára, sé orðinn „lífshættulega veikur vegna vannæringar“.

í lífshættu vegna vannæringarYngsti sonur Jamil eldri er í lífshættu vegna vannæringar.
Samir og TolinPabbi þeirra er hræddur um að missa Samir og Tolin og mömmu þeirra Suzan á hverri stundu.

Þar sem Salim er ekki með dvalarleyfi var það 17 ára sonur hans, Firas, sem kom til Íslands sem fylgdarlaust barn, sem sótti um dvalarleyfi fyrir systkini sín og móður á grundvelli fjölskyldusameiningar. Salim vonar að hann sjálfur fái dvalarleyfi sem fyrst.

Ammar Albayyouk á tvö börn föst á Gaza, þau Tolin og Samir en Samir er þriggja ára. Ammar segir börnin sín horfa upp á dauða hverja mínútu og segist sömuleiðis viss um að hann gæti misst þau og mömmu þeirra á hverri mínútu. „Ég er svo hræddur um þau, gerið það hjálpið mér, segir hann.

Gaza er búið 

Jamil Albayyouk yngri, frændi Jamil og Samil, á eiginkonu sem er föst á Gaza. Hún heitir Alaa Yousef og er 23 ára. Sjálfur er Jamil 27 ára en hann sótti um dvalarleyfi fyrir hana í mars á síðasta ári og fékk samþykkt fyrir einum og hálfum mánuði síðan. Aðspurður um það hvernig sé að vera svona langt í burtu frá henni á tímum sem slíkum segir hann: „Mér líður eins og ég sé ekki lifandi án hennar.“

„Ég þakka guði að fjölskyldan mín er enn á lífi. En ég veit ekki hvað gerist eftir tvær mínútur, hvort hún lifi næstu mínútur af.“

Hann segir að það eina sem hann vilji sé að fá hana til sín. „Ég þarf ekki að fá neina frekari aðstoð frá stjórnvöldum, bara að fá hana hingað.“ Hann er að vinna í fiski í Keflavík og sáttur við sitt. Síðast þegar hann heyrði í konunni sinni lýsti hún því fyrir honum að það væri ekkert vatn að finna og enginn matur í boði. 

„Svo segir hún mér fréttir, að þessi og hinn séu dánir og þessi hafi verið drepinn hér og annar þar. Ég veit ekki hvað ég á að segja við hana, þetta er svo skelfilegt.“

Mamma hans og pabbi búa á Íslandi ásamt fimm systkinum hans. Bróðir hans, Ahmed, er með honum þegar hann hitti blaðamann, honum til halds og trausts en Jamil er auðsjáanlega í miklu uppnámi, svo miklu að hann á erfitt með að tjá sig og þá tekur Ahmed við. 

Fordómar ekkert miðað við þjóðarmorðJamil er til vinstri á myndinni og bróðir hans Ahmed til hægri. Þeir segja þá fordóma sem þeir verða fyrir á Íslandi blikna í samanburði við það er að gerast á Gaza.

 Hann á tvö systkini sem eru á Gaza og lýsir því hvernig foreldrum hans líður illa að vita af þeim þar. Hann segir að margir í fjölskyldunni hans séu með samþykkta umsókn um dvalarleyfi á Íslandi, til dæmis sé einn bróðir hans með umsókn fyrir sína fjölskyldu sem er föst á Gaza. „Í þeirra huga er Gaza bara búið. Guð blessi Gaza. Það er ekkert líf þar, það er búið að rústa Khan Younis og nú ætla þeir að taka Rafah. Fyrir þau er það annaðhvort Ísland eða dauði. Þess vegna eru þau svona mörg að sækja um,“ útskýrir Ahmed Albayyouk, sem verður 24 ára í desember á þessu ári. 

Fordómar eru ekkert miðað við þjóðarmorð

Hann var því fjórtán ára í stríðinu á Gaza árið 2014 og segist muna vel eftir því, muna vel eftir þessum 51 degi af eyðileggingu. Sex þúsund sprengjum var varpað á Gaza yfir þessa daga og 1.462 Palestínumenn voru drepnir, þriðjungur þeirra börn. „Hundruð palestínskra borgara voru myrt á eigin heimilum, sérstaklega konur og börn,“ sagði í yfirlýsingu frá Sameinuðu þjóðunum í kjölfar þess. Í málshöfðun Suður-Afríku gegn Ísrael fyrir þjóðarmorð fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag er tekið fram að þjáning Palestínumanna af hendi Ísraelshers eigi sér 75 ára sögu og að hernaður Ísraels hafi oft, eins og í stríðinu 2014, beinst að almennum borgurum og geti þannig ekki verið skilgreindur sem almennur hernaður heldur sem allsherjar refsing (e. collective punishment) sem lýsi sér meðal annars í því að vernda ekki almenna borgara og að í stríðinu 2014 hafi 18 þúsund heimili verið eyðilögð að hluta eða að fullu. 

„Mér líður eins og ég sé ekki lifandi án hennar“
Lana og HamadPabbi þeirra veit ekki hvort þau séu á lífi en hann hefur ekki heyrt frá þeim í tvær vikur.

Lana, sjö ára dóttir Abdalhay Alfarra, sem er föst á Gaza ásamt móður sinni, þekkir einnig sprengingar en hún tengir þær við heilögustu hátíð múslima, Ramadan, því að sögn Abdalhay byrjar Ramadan iðulega á skothríð frá hernum.  „Þetta stríð er búið að vera í gangi svo lengi, það er fast í minni barnanna. Þetta mun vera fast í minni þeirra þó þau hafi ekki þroska til að túlka það sem þau muna,“ segir Abdalhay sem veit ekki hvort Lana eða bróðir hennar, Hamad, sem er fimm ára, séu á lífi.

Ahmed segir að þó að þessi tími hafi verið hræðilegur sé hann ekkert í samanburði við það sem er að gerast núna, það sem sé að gerast núna hafi ekkert með Hamas að gera heldur sé þjóðarmorð, beint að „venjulegu fólki“ eins og hann orðar það. Hann segir þá fordóma sem hann hefur orðið fyrir á Íslandi sömuleiðis blikna í samanburði við það sem fólkið á Gaza þarf að þola. „Þegar ég verð fyrir fordómum þá labba ég bara í burtu. Það eru bara miklu verri hlutir að gerast. Þetta er ekki neitt miðað við það.“ 

Hræddur alla daga alltaf

Ahmed Albayyouk vinnur á KFC í Skeifunni og á meðan hann er í vinnunni reynir hann hvað hann getur að hugsa ekki um stríðið en „ég ræð ekki við mig“, útskýrir hann. Hann er stanslaust að fylgjast með fréttum. „Ég er bara svo hræddur. Ég gæti fengið frétt um það að systir mín sé dáin, bara núna á meðan við erum að tala saman.“ Hann segir mikið líkamlegt og andlegt álag fylgja því að vera svona hræddur „alla daga, alltaf“.

Þegar Jamil bróðir hans er spurður að því hvort hann nái að leiða fréttirnar hjá sér, hugsa um eitthvað annað eða hvort hann sé sífellt að fylgjast með þeim, segir hann: „Ég get ekki einu sinni talað, ég sver til guðs að ég get ekki talað. Ég veit ekki hvað er hægt að segja, hvað á maður að segja þegar maður sér myndir af fótum, hausum, höndum, börnum að deyja, fólki að svelta, þegar maður veit af fólki sem er að borða asnakjöt, hundakjöt, hvað á maður að segja?“ Jamil tekur upp símann til að sýna að hann geti ekki opnað neina samfélagsmiðla án þess að sjá einhvern hrylling. Hann sýnir blaðamanni myndir af dánum börnum, margar í röð áður en hann leggur símann á borð fyrir framan sig og grefur andlit sitt í höndum sér. 

„Ég gæti fengið frétt um það að systir mín sé dáin, bara núna á meðan við erum að tala saman.“

Hinn 26 ára Ahmad Al-Shaghanoubi er orðinn óvinnufær af kvíða af því að bíða eftir að fá mömmu sína, pabba sinn, bróður sinn og eiginkonu sína til Íslands en þau eru öll komin með dvalarleyfi hér. „Ég get ekki sinnt vinnunni, ég geri ekkert, ég er bara heima kvíðinn. Konan mín hringir í mig daglega og grætur og ég veit ekki hvað ég á að gera. Ég segi henni að bíða en á meðan við bíðum hérna á Íslandi getum við misst alla sem við elskum.“

Fjölskyldan býr í tjaldifjölskylda Ahmad býr í tjaldi. Lengst til vinstri á myndinni er pabbi hans og fyrir miðju bróðir hans Mousa. Þeir eru báðir með dvalarleyfi á Íslandi.

Þrátt fyrir að hafa fengið uppáskrifuð svefnlyf hjá lækni nær hann ekki að festa svefn nema í klukkustund eða tvær á dag. Hann hætti að vinna eftir að stríðið byrjaði, hann gat ekki hugsað sér að missa af símtali frá þeim á meðan hann var að vinna, auk þess sem svefnleysið og matarleysið var farið að hafa of mikil áhrif á getu hans til að einbeita sér í vinnunni.

Mahmoud Alsaiqali, sem Heimildin ræddi við í desember, er í svipaðri stöðu, kvíðinn og getur lítið borðað eða sofið og hefur þess vegna grennst mikið. Á meðan hann talaði við blaðamann reyndi hann að hringja í konuna sína og elstu dóttur sína, sem eru fastar á Gaza ásamt þremur öðrum börnum hans, en það kom enginn sónn, þær voru utan þjónustusvæðis. 

Mahmmour og börnin hansMahmoud sýndi blaðamanni Heimildarinnar myndir af börnunum sínum í desember síðastliðnum.

„Hann mun deyja ef hann kemst ekki út strax“

Ahmed Murtaja hefur einnig fengið sinn skammt af stríði og eyðileggingu á Gaza en hans eina ósk er að þriggja ára, langveika dóttir hans þurfi aldrei að upplifa það, þó hann sjálfur muni aldrei gleyma þeirri reynslu, sama hvað hann reyni. Sham Murtaja, dóttir hans, fæddist með sjaldgæft heilkenni sem veldur til dæmis flogaköstum frá fæðingu og því þarf hún bæði mikla og reglulega læknisaðstoð og lyf til að halda flogaköstunum í skefjum og til þess að blindast ekki en heilkennið hefur helst áhrif á heila og sjóntaugar. 

Sham MurtajaPabbi hennar vill ekkert frekar en að hlífa henni við þeim hörmungun sem hann sjáflur hefur þurft að ganga í gegnum.

Þegar Heimildin náði tali af Ahmed sagði hann að hún fengi engin lyf lengur og að hún og mamma hennar byggju í tjaldi í Deir Al Balah. Hann gerði tilraun til að lýsa því hvernig er að óttast svona um konuna sína og barn á hverjum einasta degi. Hann líkir því við að horfa á eftir barninu sínu ganga yfir gangbraut á rauðu ljósi, ganga í veg fyrir umferðina. Hann sagði mikilvægt að stjórnvöld tækju ekki bara mál hans fyrir heldur allra í sömu stöðu. „Ég biðla til stjórnvalda að horfa á Palestínumenn sem fólk. Sem venjulegt fólk sem elskar lífið og vill lifa. Við erum bara venjulegt fólk.“

Fadia Radwan þekkir að hafa áhyggjur af því að eiga langveikt barn sem er fast á Gaza og býr í tjaldi en 17 ára strákurinn hennar, Ahmed Radwan, hefur þurft að jafna sig eftir stóra aðgerð, sem hann þurfti að fara í án þess að fá deyfingu, á gólfi í tjaldi sem hann deilir með pabba sínum og tveimur systkinum. „Hann mun deyja ef hann fer ekki út strax. Vatnið er skítugt, maturinn skítugur, hann sefur á gólfinu. Það er ekki hreint umhverfi í kringum hann og hann er með mjög veikt ónæmiskerfi,“ segir Fadia og útskýrir að ónæmiskerfi hans sé veikt vegna þess að þegar hann var tveggja ára hlaut hann svo alvarlega áverka í árás Ísraelshers að það þurfti að fjarlægja annað nýrað og hluta af lifrinni. 

Þegar hann særðist núna í nóvember síðastliðnum þurfti Ahmed Radwan að vera í 23 daga á spítala og það liðu fimm dagar þangað til hann gat heyrt rödd mömmu sinnar því síma- og internetsambandið er svo slæmt en það fyrsta sem hann sagði eftir að aðgerðinni á honum lauk var að hann vildi fá að heyra rödd hennar. 

Ahmed alvarlega særður á spítalaÞegar Ahmed var tveggja ára varð hann fyrir árás ísraelshers og það þurfti að taka úr honum annað nýrað og hluta af lifur.

„Ég veit ekki hvað ég á að segja en dagurinn minn fer í að gráta, ég fer ekki út úr húsinu. Ég sé svo illa því ég er búin að gráta svo mikið.“ 

Segir þeim að vera þolinmóð

Sami shaheen reynir að segja börnunum sínum fimm, sem hann sótti um dvalarleyfi fyrir fyrir ári síðan, að vera þolinmóð og að Ísland sé á leiðinni að ná í þau. „Þú ert að ljúga, sögðu þau við mig þá og grétu,“ segir hann. Sami hefur ekki séð börnin sín, Ayahu, Islam, Eman, Aeshu og Mohammed, í þrjú ár sem þýðir að sá yngsti, Mohammed, hefur ekki séð pabba sinn síðan hann var tveggja ára. 

Börnin hans SamiAyah 12 ára, Islam 10 ára, Mohammed 4 ára, Eman 15 ára og Aesha 8 ára.

Allt í allt hefur ísraelski herinn rænt Sami 120 ættingjum, þar á meðal systur hans og fjórum börnum hennar. Þegar herinn sprengdi hús fjölskyldunnar í loft upp særðust bæði mamma hans og pabbi. Fjölskyldan hans bjó í Jabalia-flóttamannabúðunum, þeim sömu og voru sprengdar og Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra efaðist um að væri í raun árás. 

Abdalqader J. A. Albhaisi á fjögur börn á Gaza og það yngsta Ann er 5 ára. 

Ann AlbhaisiMyndin af Ann litlu var tekin nokkru áður en stríðið byrjaði. En fyrir pabba hennar var mikilvægt að börnin hans myndu birtast eins og þau voru áður en það byrjaði.

Þreyttur á að ljúga

Naji Assar á þrettán fjölskyldumeðlimi sem eru með dvalarleyfi á Íslandi en eru föst á Gaza, þar á meðal foreldra þriggja drengja sem eru á Íslandi með honum og hann sér um á meðan foreldrar þeirra komast ekki hingað. Naji segist vera orðinn þreyttur á því að ljúga að litla frænda sínum, Basem, sem er sex ára. Hann upplifir að í fimm ár, frá því hann flúði með hann tæplega tveggja ára í bakpoka frá Gaza, hafi hann logið að honum. „Ég er orðinn svo þreyttur á því að ljúga.“

„Ég biðla til stjórnvalda að horfa á Palestínumenn sem fólk.“

Logið að honum í Grikklandi í flóttamannabúðum að þeir kæmust þaðan fljótt, en sú varð ekki raunin, logið að honum að þeir væru alveg að komast í skjól þegar þeir lögðu leið sína til Íslands en ferðin var löng, logið að honum að þeir væru alveg að fara að fá kennitölu á meðan þeir biðu, logið að honum að mamma hans og pabbi væru alveg að fara að fá samþykkta fjölskyldusameiningu, en hann sótti um fyrir þau í október 2022 en fékk hana ekki samþykkta fyrr en stríðið byrjaði og svo þegar hann fékk hana loksins samþykkta lýgur hann að honum að mamma hans og pabbi séu alveg að koma. Basem hefur til dæmis tekið frá pláss í herberginu sínu fyrir dót sem hann hefur safnað handa litlu systur sinni sem er þriggja ára sem er föst á Gaza, veik í maganum og fær engin lyf. 

Naji er orðinn mjög þreyttur, enda búinn að standa á Austurvelli í fimmtíu daga núna að krefjast þess að fá fjölskyldur strákanna heim og að stjórnvöld hætti að brottvísa Palestínumönnum „í miðju þjóðarmorði“. Hann er þreyttur á að vera fyrst álitinn flóttamaður áður en hann er álitinn manneskja. Hann er þreyttur á því að

Sá minnsti AwniAwni er 11 mánaða.

íslensk stjórnvöld geri greinarmun á strákunum þremur sem hann annast og öðrum íslenskum börnum. Þreyttur á að hugsa til þess að alþingismenn geti farið heim til sín og borðað mat með börnunum sínum en líti fram hjá Basem litla. „Af hverju fær Basem ekki fjölskylduna sína? Hann fær ekki mömmu sína og pabba til sín. Pabbi hans, bróðir minn, við erum enn undir sama himni en við erum í

sundur. Það er ekki sanngjarnt. Það er ekki erfitt að fá hann hingað.“ Basem upplifir að sögn Naji mikla sorg. Hann biður Naji stundum um að koma heim og sofa þar en Naji útskýrir fyrir honum að hann „verði að berjast. Berjast fyrir mömmu hans og pabba. Ef ég kem heim, hver er þá að berjast fyrir þeim?“

„Ég þakka guði fyrir að fjölskyldan mín er enn á lífi. En ég veit ekki hvað gerist eftir tvær mínútur, hvort hún lifi næstu mínútur af,“ útskýrir hann þar sem hann situr og drekkur heitt súkkulaði til að ylja sér eftir að hafa staðið og mótmælt í

kuldanum. En hann segist vera með samviskubit yfir því að drekka yfir höfuð þegar fjölskyldan hans getur ekki einu sinni drukkið vatn. En hann vill ekki gefast upp, vill ekki gefast upp á mótmælum. „Við erum að reyna að hjálpa 128 manns, að koma þeim í burtu úr helvíti.“ 

Yngsta barnið sem er fast í þessu „helvíti“ sem Naji lýsir og er með dvalarleyfi á Íslandi er tíu mánaða og það næstyngsta 11 mánaða. Það er hann Awni Awad sem er fastur ásamt mömmu sinni á Gaza.  


Kjósa
41
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (3)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Guðrún Konný Pálmadóttir skrifaði
    Erfitt að lesa...
    3
  • Heiðar Kristinsson skrifaði
    Ömurleg lesning og ábyrð þeirra mikil sem þessu valda svo og þeirra sem geta hjálpað en gera það ekki.
    7
  • Edda Ögmundsdóttir skrifaði
    Aldrei lesið annan eins hrylling og blessuð saklausu börnin eru aðal fórnarlömbin.
    7
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Föst á Gaza

Sema segir engar mútur hafa verið greiddar – Ráðamenn reyni að sverta mannorð sjálfboðaliða
FréttirFöst á Gaza

Sema seg­ir eng­ar mút­ur hafa ver­ið greidd­ar – Ráða­menn reyni að sverta mann­orð sjálf­boða­liða

Stofn­andi og for­seti Solar­is, sem hef­ur unn­ið að því að koma dval­ar­leyf­is­höf­um frá Gaza til Ís­lands, seg­ir það „gjör­sam­lega sturl­að“ að fylgj­ast með ráð­herr­um í rík­is­stjórn Ís­lands, stofn­un­um og þing­fólki sem ýji ít­rek­að að því að hún og aðr­ir sjálf­boða­lið­ar séu að brjóta af sér „og jafn­vel fremja lög­brot í við­leitni okk­ar til að koma fólki und­an þjóð­ern­is­hreins­un­um.“
Dvalarleyfishafar senda kvörtun til umboðsmanns Alþingis
FréttirFöst á Gaza

Dval­ar­leyf­is­haf­ar senda kvört­un til um­boðs­manns Al­þing­is

Móð­ir og þrjú börn hafa feng­ið sam­þykkta fjöl­skyldusam­ein­ingu á Ís­landi en sitja enn föst á Gaza. Fjöl­skyldufað­ir­inn er dval­ar­leyf­is­hafi á Ís­landi. Lög­fræð­ing­ur fjöl­skyld­unn­ar hef­ur sent inn kvört­un til um­boðs­manns Al­þing­is. Er þar hald­ið fram að ís­lenska rík­ið fari á mis við laga­ákvæði og al­þjóð­leg­ar skuld­bind­ing­ar með að­gerða­leysi sínu við að forða fólki frá stríðs­hrjáð­um svæð­um á Gaza.
Ísraelar skoða listann sérstaklega því enginn íslenskur ríkisborgari er á honum
FréttirFöst á Gaza

Ísra­el­ar skoða list­ann sér­stak­lega því eng­inn ís­lensk­ur rík­is­borg­ari er á hon­um

Í til­kynn­ingu frá ut­an­rík­is­ráðu­neyt­inu seg­ir að tíma­lína mögu­legra fólks­flutn­inga dval­ar­leyf­is­hafa frá Gaza liggi ekki fyr­ir. Verk­efn­ið sé ein­stakt því eng­ir ís­lensk­ir rík­is­borg­ar­ar séu á lista stjórn­valda. Þetta hafi í för með sér að ísra­elsk stjórn­völd þurfi að skoða mál­ið sér­stak­lega.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár