Ég vil byrja á því að taka það fram að þessari grein er ekki ætlað að vera ritstjórnarefni, heldur yfirlits- og skoðanagrein sem ég skrifa í eigin nafni, en ekki sem ritstjóri eða blaðamaður Kjarnans.
Ástæðan fyrir því að sú óvenjulega leið er valin, að birta greinina í raun sem aðsenda grein á miðli sem ég stýri, eru þær aðstæður sem skapaðar hafa verið með virkri lögreglurannsókn, sem beinist meðal annars að mér persónulega, og snýst um umfjöllun Kjarnans og Stundarinnar um hina svokölluðu „Skæruliðadeild Samherja“. Þær aðstæður skapa ýmsan vafa um hæfi.
Tilefni greinarinnar er að fyrir nokkrum dögum síðan fengum ég og lögmaður minn afhent öll gögn máls vegna umræddrar rannsóknar. Gögnin eru umfangsmikil og afar fréttnæm, í þeim eru upplýsingar sem eiga mikið erindi við almenning og varpa skýru ljósi á það sem átt hefur sér stað.
Geta þess miðils sem ég stýri til að fjalla um efnið eftir hefðbundnum leiðum, og fylgja á sama tíma bæði skrifuðum siða- og starfsreglum sem óskrifuðum, er flókin, og sennilega ómöguleg. Ég get ekki sjálfur fjallað um efnið í fréttaskrifum, enda andlag umfjöllunarinnar. Sama gildir um Arnar Þór Ingólfsson, blaðamann á Kjarnanum. Við skoðuðum þann möguleika að setja upp farveg sem útilokaði okkur frá aðkomu að meðferð gagnanna, með því að færa ritstjórnarvald yfir þessu eina máli til fréttastjóra/framkvæmdastjóra og vinnslu til þeirra blaðamanna sem eiga ekki hlut að máli. Það skapar samt sem áður þá stöðu að biðja blaðamenn að fjalla um mál sem tengist nánum samstarfsmönnum.
Að sama skapi er ekki hægt að birta gögnin í heild sinni, þar sem í þeim eru viðkvæmar persónuupplýsingar um nafngreint fólk sem gætu valdið því fólki óþörfum skaða.
Önnur leið væri að bjóða öðrum fjölmiðli eða sjálfstætt starfandi blaðamanni gögnin til umfjöllunar og setja ritstjórnarlegt vald í hans hendur. Þar verður þó að taka með í reikninginn að í gögnunum eru skjáskot af kynlífsmyndböndum, sem ég hafði aldrei séð áður, en lögreglan á Norðurlandi eystra hefur nú dreift til mín. Miðað við fyrirliggjandi lagatúlkun þess lögregluembættis væri ég að brjóta lög með því að deila efninu með öðrum, líkt og lögreglan gerði með mér.
Á endanum varð það niðurstaða mín að besta leiðin til að greina frá helstu málavöxtum sé með birtingu þessarar greinar. Hún er lýsing mín á því ferli sem staðið hefur yfir frá því í maí á síðasta ári, og sérstaklega því sem átt hefur sér stað frá því um miðjan febrúar 2022. Hún byggir á gögnum og styðst við staðreyndir til að rekja makalausa frásögn sem ég tel gríðarlega alvarlega. Greinin er ítarleg, og fyrir vikið löng. Ég biðst fyrirfram afsökunar á því.
Samhliða birtingu þessarar greinar hef ég afhent Blaðamannafélagi Íslands öll gögn málsins, enda varðar það störf, starfsaðstæður og frelsi allra blaðamanna. Það er gert svo fagfélag stéttarinnar geti metið sjálfstætt að hér sé ekkert slitið úr samhengi. Verði ákveðið að fara á eftir mér fyrir að deila þeim gögnum með fagfélagi blaðamanna, þá verður einfaldlega að hafa það.
Boðun og Bjarni
Þann 14. febrúar 2022 fékk ég símtal frá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Ég var boðaður í skýrslutöku fyrir að hafa móttekið gögn og skrifað fréttir upp úr þeim hluta þeirra sem ég og samstarfsmenn mínir töldum fréttnæma og ættu erindi við almenning. Umræddar fréttir birtust í maí 2021 í umfjöllun sem kennd hefur verið við „Skæruliðadeild Samherja“. Með þessu var ljóst að ég hafði stöðu sakbornings í málinu. Þrír aðrir blaðamenn fengu einnig stöðu sakbornings við rannsókn málsins, þeirra á meðal Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður á Kjarnanum.
Ekkert í umfjölluninni hefur verið hrakið og viðbrögð við henni voru nær öll á þann veg að það atferli sem lýst var, og byggði á umræddum gögnum, var fordæmt. Samherji baðst í kjölfarið afsökunar á viðbrögðum sínum við fréttaumfjöllun um meint lögbrot fyrirtækisins, þar sem það réðst með offorsi gegn nafngreindum blaðamönnum.
Degi eftir boðun okkar til skýrslutöku birti Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins til næstum 14 ára og fjármála- og efnahagsráðherra, langa færslu á Facebook þar sem hann varði og studdi þessar aðgerðir lögreglunnar gagnvart blaðamönnum, en lögreglustjórinn sem ber ábyrgð á þeim, Páley Bergþórsdóttir, var áður bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum um margra ára skeið og um tíma formaður bæjarráðs sem fulltrúi flokksins.
Færsla Bjarna var fordæmalaus og grafalvarleg, enda öllu skynsömu fólki ljóst að þar var valdamikill stjórnmálamaður að skipta sér af lögreglurannsókn á blaðamönnum og koma vilja sínum um framgang hennar skýrt til skila.
Í færslunni sagði Bjarni að engar fréttir hefðu verið fluttar af því sem mestu máli skipti varðandi þetta mál og flesta þyrsti að vita hvað lögreglan kunni að hafa undir höndum sem gefi tilefni til rannsóknar. „Þeir sem stjórnað hafa þeirri umræðu eru þeir hinir sömu og nú eru til rannsóknar. Það eina sem þeir hafa fram að færa hins vegar eru getgátur um það hvað lögreglan muni mögulega vilja spyrja þá um og álit þeirra á eigin getgátum um það. Þeir segja okkur að þeim sé gefið að sök að hafa nýtt gögn til að skrifa fréttir. En hvað vita þeir svo sem um það á þessu stigi máls?“
Við vissum
Það sem ég vissi á þessu stigi máls, um miðjan febrúar og degi eftir að okkur var tilkynnt um sakborningastöðu, var hvað mér var gefið að hafa gert. Það er að brjóta gegn 228. og 229. greinum almennra hegningarlaga sem snúast um friðhelgi einkalífs. Þetta staðfesti lögregla við mig við fyrstu hringingu og einnig að ég væri ekki til rannsóknar vegna nokkurra annarra brota. Sömu sögu er að segja um hina þrjá blaðamennina sem settir voru á sakamannabekk. Þetta var allt fram komið í opinberri umræðu áður en Bjarni birti færslu sína. Ekkert okkar er grunað um að hafa tekið síma ófrjálsri hendi eða fyrir að hafa eitrað fyrir Páli Steingrímssyni, skipstjóra hjá Samherja, líkt og haldið hefur verið fram í opinberri umræðu og sumum fjölmiðlum.
Það sem okkur var gefið að hafa gert er að taka við gögnum, beita hefðbundnum starfsaðferðum og viðmiðum blaðamennsku, innan ramma þeirra siðareglna og laga sem okkur er gefið að starfa, leggja mat á fréttagildi hluta þeirra og skrifa upp úr þeim fréttir.
Þegar fyrsti hluti umfjöllunar Kjarnans um „Skæruliðadeild Samherja“ var birtur 21. maí 2021 var eftirfarandi tekið fram:
„Ábyrgðarmenn Kjarnans vilja taka fram að umrædd gögn sem eru grundvöllur umfjöllunar miðilsins bárust frá þriðja aðila. Starfsfólk Kjarnans hefur engin lögbrot framið og fjöldi fordæma eru fyrir því hérlendis sem erlendis að fjölmiðlar birti gögn sem eiga erindi við almenning án þess að hafa upplýsingar um hvernig þeirra var aflað. Það var skýr niðurstaða ábyrgðarmanna Kjarnans að hluti gagnanna ætti sterkt erindi og því eru almannahagsmunir af því að fjalla um þau með ábyrgum hætti.“
Aldrei var gerð tilraun til að fela að í þessu tilviki, líkt og svo mörgum öðrum á okkar ferli, þá bárust okkur gögn sem voru sennilega illa fengin, en innihéldu mikilvægar og fréttnæmar upplýsingar um skipulega aðför stórfyrirtækis gegn frjálsri fjölmiðlun og lýðræðislegri umræðu. Í öllum vestrænum lýðræðisríkjum er fullur skilningur á að blaðamenn geti unnið úr slíkum gögnum án þess að vera ofsóttir af lögreglu og stjórnmálamönnum, og þannig sinnt aðhaldshlutverki sínu. Annars hefðu ekki verið neinar opinberanir um bankahrunið, engin Panamaskjöl, ekkert Namibíumál. Og svo framvegis.
Refsileysi innbyggt í lögin
Ákvæðin sem mér og kollegum mínum er gefið að hafa brotið gegn komu inn í íslensk lög í fyrra og samhliða var bætt við sérstöku refsileysi fyrir blaðamenn svo þeir geti áfram sem áður tekið við gögnum og fjallað um þau, telji þeir að gögnin eigi erindi. Í lögskýringu segir orðrétt að ákvæðin eigi ekki við „þegar háttsemin er réttlætanleg með vísan til almanna- eða einkahagsmuna. Er hér m.a. litið til þess að ákvæðið hamli ekki störfum og tjáningarfrelsi fjölmiðla, m.a. í þeim tilvikum þegar þeir fá aðgang að gögnum eða forritum sem hefur verið aflað í heimildarleysi og geti varðað almannahagsmuni.“
Færsla Bjarna Benediktssonar gaf aðgerðum lögreglu aukið réttmæti og stuðningsmenn hans notuðu hana sem staðfestingu fyrir því að hér væri um eðlilega rannsókn að ræða. Bjarni, einn þeirra sem kaus með ofangreindum lagabreytingum sem innihéldu refsileysi blaðamanna, hafði enda sagt það upphátt. „Eru fjölmiðlamenn of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu?“
Brynjari Níelssyni, aðstoðarmanni æðsta yfirmanns lögreglu í landinu, fannst líka fullt tilefni til að tjá sig opinberlega um málið. Á samfélagsmiðlum gerði hann grín að blaðamönnum, sakborningum í máli í virkri rannsókn, fyrir að bera hönd fyrir höfuð sér. Síðar bætti hann við að vegið væri að störfum lögreglu með því að gagnrýna þau og setti sjálfan sig í hlutverk lögreglumanns í útvarpsþætti þegar hann krafðist þess að fá upplýsingar um gögn og heimildarmenn frá framkvæmdastjóra Stundarinnar. Samkvæmt lögum um fjölmiðla er ólöglegt að gefa upp heimildarmenn óski þeir eftir nafnleynd. Aðstoðarmaður æðsta yfirmanns lögreglumála í landinu hvatti því stjórnanda á fjölmiðli til að brjóta lög, í beinni útsendingu í útvarpi.
Þegar yfirmaður Brynjars, Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra úr Sjálfstæðisflokknum, var spurður um þetta atferli síns pólitíska ráðgjafa var svarið það að ráðherrann teldi það ekki ganga gegn því grundvallar sjónarmiði að meðferð sakamála eigi ekki að lúta pólitískum afskiptum valdhafa á hverjum tíma.
Með öðrum orðum þá lagði hann blessun sína yfir afskipti aðstoðarmanns síns af virkri lögreglurannsókn og sagði með því takmarkalaust tjáningarfrelsi hans sem varaþingmanns standa ofar því að traust ríki um eðlilegheit virkrar lögreglurannsóknar.
Málað eftir númerum á Akureyri
Einn kollega minna í blaðamannastétt, Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður á Stundinni, lét reyna á fyrir dómstólum hvort lögreglan mætti yfirhöfuð rannsaka blaðamenn fyrir brot á ákvæði sem þeim er tryggt refsileysi gagnvart. Hver er enda tilgangur slíkrar lögregluaðgerðar ef fyrir liggur að aldrei verður hægt að dæma blaðamenn fyrir brot sem lög heimila ekki að dæma þá fyrir? Mannréttindadómstóll Evrópu hefur auk þess skýrt tekið fram að í því að gefa blaðamönnum stöðu sakborninga felist skýr kæling og hefur varað sérstaklega við því.
Þessi ákvörðun Aðalsteins, sem var fullkomlega réttmæt enda málið með öllu fordæmalaust, skilaði því að við, sakborningarnir, fengum aðeins meiri innsýn inn í málið, meðal annars með því að fá aðgang að greinargerð aðstoðarsaksóknara lögreglunnar á Norðurlandi eystra, Eyþórs Þorbergssonar.
Sú greinargerð er að uppistöðu samansafn ályktana, gildisdóma og aðdróttana sem haldið er fram að séu staðreyndir en eiga flestar það sameiginlegt að eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Í henni málar Eyþór að öllu leyti eftir númerum sem einn hinna ætluðu brotaþola, Páll Steingrímsson, hefur látið honum og samstarfsmönnum hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra í té.
Þeir sem eiga bara að vera í blómaskreytingum
Í greinargerðinni heldur aðstoðarsaksóknarinn því meðal annars fram að fjölmiðlar hafi hagnýtt sér viðkvæma stöðu heimildarmanns, einstaklings sem er nákominn Páli Steingrímssyni, sem hann veit þó ekkert um hvort sé heimildarmaður blaðamanna sem hann hefur raðað á sakamannabekk. „Í stað þess að staldra aðeins við og veita X [umræddur nákominn einstaklingur] stuðning og hjálp, virðast fjölmiðlar fara strax í að nýta sé augljóst brot hans sér í hag, bæði faglega og fjárhagslega. Þeir huga ekki að því að þarna er einstaklingur í viðkvæmri stöðu og sýna af sér algjört skeytingarleysi um líðan hans og líf,“ skrifaði Eyþór.
Hlutverk fjölmiðla er að segja fréttir, veita aðhald og upplýsa almenning, í samræmi við lög, starfs- og siðareglur. Fjölmiðlar hafa ekkert lögbundið sáluhjálparhlutverk. Þeir starfa hins vegar eftir siðareglum sem gera þeim að forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu. Í því felst meðal annars að fara faglega yfir gögn og nýta einungis þau sem hafa skýrt fréttnæmi í umfjöllun, en undanskilja önnur persónugreinanleg gögn.
Fullyrðing aðstoðarsaksóknarans um að fjölmiðlar hafi nýtt sér brot til að hagnast „faglega og fjárhagslega“ er ekki rökstudd með neinum hætti í greinargerðinni. Hún ber þess þó skýrt merki að Eyþór býr yfir miklu óþoli gagnvart blaðamönnum og þeirra störfum.
Sú tilfinning fékkst staðfest þegar héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu, eftir efnislega umfjöllun, að framferði lögreglunnar gagnvart blaðamönnum væri ólögmætt. Í samtali við Vísi sagði hann: „Ef þú þolir ekki gagnrýni um sjálfan sig, og það má segja það um blaðamenn líka, eiga menn bara að vera í blómaskreytingum.“
Það er nýtt fyrir mér að aðstoðarsaksóknarar eigi að nýta greinargerðir sem skilað er inn til dómstóla og fjölmiðlaviðtöl sem þeir veita sem vettvang til að gagnrýna blaðamenn sem honum er illa við.
Vegferð til að kæla fjölmiðla og takmarka tjáningarfrelsi þeirra
Í síðari greinargerð Eyþórs, sem lögð var fram við meðferð Landsréttar á málinu, sagði meðal annars: „Tjáningarfrelsi er óumdeilanlega ein af undirstöðum lýðræðisþjóðfélags, en á sama tíma er það meðal vandmeðförnustu mannréttinda enda ekki hægt að njóta þess án ábyrgðar og því getur verið nauðsynlegt að setja þessu frelsi ýmsar skorður vegna tillits til hagsmuna einstaklinga. Þannig er friðhelgi einkalífs einstaklinga til þess fallin að takmarka tjáningarfrelsi bæði annarra einstaklinga og fjölmiðlanna – einhversstaðar liggja mörkin og það er dómstóla að fjalla um það. Þess vegna er mikilvægt að lögregla rannsaki mál þar sem reynir á þessi mörk þannig að dómstólum verði gert fært að fjalla efnislega um þessi mörk með hliðsjón af öllum þeim gögnum sem aflað hefur verið við rannsókn málsins.“
Í þessari málsgrein felst kjarni þeirrar vegferðar sem lögreglan á Norðurlandi eystra er í gagnvart fjórum blaðamönnum að sunnan. Hún telur það sitt hlutverk að beita afli sínu til að reyna að takmarka tjáningarfrelsi fjölmiðla, sem þó eru að starfa eftir settum lögum og reglum í landinu. Til þess að ná fram þessu markmiði sínu er umrætt lögregluembætti að beita ákvæði laga sem er með innbyggt refsileysi gagnvart blaðamönnum.
Síðar lét Þóra Arnórsdóttir, annar kollega minna sem skipað var á sakamannabekk, á það reyna hvort Eyþór og samstarfsfólk hans væri vanhæft til að fara með rannsókn málsins vegna gildisdóma sem fram voru settir í greinargerðum hans fyrir dómstólum, og ummælum hans um blómaskreytingar í fjölmiðlum í kjölfarið.
Þetta var túlkað af ýmsum sem tilraunir blaðamanna til að reyna að komast hjá því að mæta í skýrslutöku. Þar skipti örugglega máli að valdamesti maður landsins hafði formað málið í opinberri yfirlýsingu daginn eftir að lögregla hafði samband við meinta sakborninga og spurt hvort fjölmiðlamenn væru „of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu?“.
32 mínútur af tilraunum lögreglu til að kalla fram lögbrot
Ég hef aldrei nokkurn tímann neitað að mæta til skýrslutöku eða að svara þeim spurningum lögreglu sem ég get svarað án þess að brjóta lög og trúnað við heimildarmenn. Í slíka skýrslutöku mætti ég 11. ágúst síðastliðinn.
Skýrslutaka yfir mér tók 32 mínútur, að meðtöldum formlegheitum eins og að spyrja mig um nafn, starf, heimilisfang og að kynna mér réttarstöðu. Tveir lögreglumenn frá Akureyri komu til Reykjavíkur til að framkvæma hana. Spurningar þeirra snerust nær einvörðungu um hvernig fjölmiðillinn Kjarninn aflaði gagna til að skrifa umfjöllun og hverjir mögulegir heimildarmenn hans gætu verið. Með spurningum sínum var lögreglan meðal annars að hvetja mig til að brjóta gegn lögum um vernd heimildarmanna. Það geri ég ekki. Lögmaður minn lagði fram bókun í upphafi skýrslutöku sem ég vísaði í þegar tilefni var til. Hún var eftirfarandi:
„Undirritaður starfar sem blaðamaður og sakarefni þessa máls lýtur að fréttaskrifum mínum.
Í því ljósi vil ég árétta, áður en skýrslutakan hefst, að vernd heimildarmanna er tryggð í 25. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011, sem leggur bann við því að ég upplýsi um heimildarmenn mína.
Þessi regla hefur ítrekað verið áréttuð í niðurstöðum dómstóla, m.a. Mannréttindadómstóls Evrópu. Í dómaframkvæmd hefur verið rík áhersla lögð á að vernd trúnaðarsambands fjölmiðlafólks og heimildarmanna sé nauðsynlegur þáttur í tjáningarfrelsi fjölmiðla og grundvallarskilyrði fyrir því að þeir geti sinnt lýðræðislegu hlutverki sínu og sækir reglan stoð í bæði 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem festur hefur verið í lög hér á landi með lögum nr. 62/1994. Eingöngu er unnt að aflétta þeirri vernd með ákvörðun dómara til samræmis við 3. mgr. 119. gr. laga um meðferð sakamála og er ljóst að það á ekki við í þessu máli.
Ég mun því engum spurningum svara sem á nokkurn hátt geta gefið minnstu vísbendingu um hvort ég hafi heimildarmenn, hvers eðlis þeir séu eða hvort, hvenær eða hvernig ég hef fengið upplýsingar um atriði sem leitt hafa til frétta sem ég hef skrifað. Sé einhver vafi á því hvort svör mín við einstökum spurningum kunni að gefa vísbendingu um eitthvað af þessu mun ég túlka þann vafa í þágu verndar heimildarmanna og neita að svara. Af ofangreindu leiðir einnig að ég mun engum spurningum svara um það hvaða huglægu afstöðu ég hef á tilteknum atriðum varðandi þætti sem rannsókn þessa máls lýtur að.
Réttur minn til að svara ekki spurningum lögreglu er ótvíræður, sbr. framangreind lagaákvæði og 2. mgr. 64. gr. laga nr. 88/2008. Þögn mín skýrist í öllum tilvikum af ákvæði 25. gr. fjölmiðlalaga og starfi mínu sem blaðamaður og verður aldrei metin mér í óhag.“
Að lokum var spurt út í það hver beri ábyrgð á birtu efni á Kjarnanum og hvernig ákvarðanir séu teknar inni á ritstjórn um fréttnæmi eða erindi til almennings þegar um gögn er að ræða. Þ.e. hvar ég teldi að mörk tjáningarfrelsis fjölmiðla liggi. Ég taldi upp lög um fjölmiðla, siðareglur Blaðamannafélagsins, reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði og innri starfsreglur sem tryggja eiga faglega umfjöllun fyrir lögreglumönnunum. Og benti þeim á að það væri ekki hægt að svara spurningunni almennt. Svarið væri alltaf sértækt og byggt á því efni sem er undir hverju sinni. Í tilfelli umfjöllunar um „Skæruliðadeild Samherja“ hafi á endanum ekki verið neinn vafi í mínum huga um að hluti þeirra gagna sem við vorum með undir höndum væri afar fréttnæmur.
Ekkert var spurt um kynlífsmyndbönd eða dreifingu á þeim. Ekkert var spurt um þjófnað á símtæki. Ekkert var spurt um byrlun eða eitrun. Allt eru þetta samt sem áður ásakanir sem haldið hefur verið á lofti að séu grundvöllur rannsóknar á okkur.
Gögn málsins eftir næstum 16 mánaða rannsókn
Í kjölfar skýrslutöku fengum við aðgang að gögnum málsins. Um er að ræða 374 blaðsíður af meðal annars samantektum úr skýrslutökum, afritum af rannsóknargögnum sem safnað hefur verið, læknaskýrslum, yfirlitum yfir tölvupósts- og símasamskipti, mati réttarmeinafræðings, greinargerðum lögreglu og einhliða upplýsingum um atburðarás sem meintur brotaþoli, Páll Steingrímsson, hefur komið til lögreglumanna.
Ekkert er um það í gögnunum að blaðamenn hafi komið að því að stela síma. Ekkert er í þeim um að blaðamenn hafi afritað síma í heilu lagi. Ekkert er um að hlustað hafi verið á símtöl blaðamanna. Ekkert er um samskipti milli blaðamanna. Ekkert er þar að finna um notkun staðsetningarbúnaðar sem eigi að sýna fram á einhverja aðkomu blaðamanna að glæpum sem þeir eru ekki ásakaðir um að hafa framið. Ekkert er um að rakningarapp vegna kórónuveirufaraldurs hafi verið misnotað gróflega, og í andstöðu við lög og allar opinberar yfirlýsingar um hver notkun þess átti að vera, til að opinbera blaðamenn sem harðsvíraða glæpamenn. Ef einhverjar af þessum leiðum hefðu verið notaðar við rannsókn á símastuldi hefði það enda sennilegast orðið heimsfrétt.
Gögnin sýna hins vegar líka margt merkilegt sem varpar ljósi á þessa furðulegu, en alvarlegu, vegferð sem lögreglan á Norðurlandi eystra hefur verið á frá því maí 2021, eða í um 16 mánuði. Hér að neðan er dregið saman það helsta.
1. Ekkert liggur fyrir um að eitrað hafi verið fyrir Páli Steingrímssyni
Páll Steingrímsson hefur haldið því fram að fyrir honum hafi verið eitrað með þeim afleiðingum að hann hafi misst meðvitund og verið fluttur á sjúkrahús í Reykjavík með sjúkraflugi. Farið hefur verið með þessa staðhæfingu sem staðreynd víða í þjóðmálaumræðunni síðustu mánuði, eða allt frá því að mbl.is birti mynd af Páli í sjúkrarúmi 25. maí 2021.
Við skýrslutöku sagði Páll að hann teldi að honum hefði verið byrlað svefnlyfinu Imovane. Páll hélt því fram að lyfinu hafi verið blandað í bjór sem honum var færður. Hann sagðist auk þess þekkja lyfið vel þar sem „hann var vanur að nota það tengt vinnu.“
Gögn málsins sýna sannarlega að Páll veiktist snemma í maí í fyrra og að hann hafi verið í krítísku ásigkomulagi. Þau sýna að hann hafi verið fluttur til Reykjavíkur frá Akureyri vegna ástands síns. En þau sýna líka svart á hvítu að ekkert liggur fyrir um að eitrað hafi verið fyrir manninum. Í þeim eru hins vegar ýmsar aðrar mögulegar ástæður fyrir ástandi hans viðraðar af mun meiri alvöru.
Í fyrsta lagi liggur ekki fyrir játning þess aðila sem hann sakar um að hafa byrlað sér. Þvert á móti neitar sá aðili því staðfastlega, tvívegis, við skýrslutöku að hafa eitrað fyrir Páli. Í öðru lagi liggja fyrir sjúkraskýrslur, bæði frá Akureyri og Reykjavík, þar sem skýrt kemur fram að ekkert bendi til þess að eitrað hafi verið fyrir honum.
Á sjúkrahúsinu á Akureyri, þann 4. maí 2021, voru framkvæmdar fjölmargar rannsóknir á Páli en engin ástæða fannst fyrir meðvitundarskerðingu hans. Svokallað tox-screen fyrir eiturefnum var neikvætt. Það fannst ekkert í blóði hans. Í greinargerð til lögreglu stendur: „Við fundum ekki neinar prufur sem bentu til eitrunar.“ Páll brást heldur ekki við því þegar honum voru gefin mótefni fyrir morfín- eða róandi lyfjum á borð við Imovane.
Í réttarfræðilegri matsgerð réttarmeinafræðings, sem lögreglan á Norðurlandi eystra keypti fyrir 113.570 krónur, kemur fram að hægt sé að gera eiturefnamælingu á höfuðhári. Það krefst þess að minnst 4-6 vikur séu liðnar frá atburðinum áður en hársýni er tekið og að viðkomandi hafi ekki farið í litun/aflitun á hári né meiriháttar klippingu. Í matsgerðinni segir: „Í þessu tilviki upplýsti lögreglan að maðurinn, sem var mjög þunnhærður, hafði farið a.m.k. 3 sinnum í klippingu og var mjög stuttklipptur. Lögreglan mat það svo að það væri mjög langsótt að hægt væri að fá nothæft sýni frá manninum, og var fallið frá því að láta á það reyna.“
Niðurstaða réttarmeinarfræðingsins er skýr: „Ekki er hægt að komast að frekari niðurstöðu hvað olli ástandi mannsins að svo stöddu. Í fyrirliggjandi gögnum fundust engar handfastar vísbendingar um að reynt hafi verið að eitra fyrir honum.“
Þessari niðurstöðu var skilað inn til lögreglu 15. september 2021.
Þrátt fyrir þetta lét aðstoðarsaksóknari hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra að því liggja í greinargerð sem hann skilaði inn til Landsréttar 2. mars 2022 að einstaklingur nákominn Páli hefði byrlað honum með þeim afleiðingum að hann hefði veikst. Í greinargerðinni er einnig látið að því liggja að viðkomandi væri andlega vanheill og að fjölmiðlafólk hefði nýtt sér ástand hans, án þess að aðstoðarsaksóknarinn hefði nokkuð annað en orð Páls Steingrímssonar fyrir þessu. Þegar fjölmiðlar héldu því fram að játning lægi fyrir um byrlun, og vísuðu í umrædda greinargerð, þá gerði lögreglan enga tilraun til að leiðrétta þann fréttaflutning. Það gerðist síðast í gær, þegar sagt var í frétt á vef Fréttablaðsins að það liggi „fyrir játning um að eitrað hafi verið fyrir honum með svefnlyfjum“ og talað er um aðilann „sem játaði byrlunina“.
Þessi sama lögregla sá hins vegar tilefni til að birta yfirlýsingu á heimasíðu sinni um rannsókn sína á blaðamönnum og birta sérstaka frétt með hlekk á úrskurð Landsréttar þegar reynt var á rétt hennar til að rannsaka blaðamenn.
2. Margsaga Páll er með mikið aðgengi að lögreglu
Á meðal gagna sem ég og lögmaður minn fengum afhend var tímalína sem Páll Steingrímsson hafði gert um atburði máls og skilað inn til lögreglu. Sú tímalína sem okkur barst var nokkuð takmörkuð, sérstaklega þegar hún er borin saman við uppfærða tímalínu Páls – sem hann uppfærði í nóvember 2021 – og fylgdi með gögnum sem lögð voru inn í Landsrétt fyrr á þessu ári. Engin skýring var gefin á því af hverju við fengum takmörkuðu tímalínuna, en ekki þá fyllri sem lögreglan hefur sannarlega undir höndum og er hluti af gögnum málsins.
Það sem vantar í tímalínuna sem við fengum, en er í tímalínunni sem lögð var inn í Landsrétt, er meðal annars yfirlit yfir það mikla aðgengi sem Páll Steingrímsson hefur að lögreglumönnum á Akureyri og gríðarlegt magn einhliða upplýsinga sem Páll veitti lögreglu. Þær upplýsingar áttu að sýna fram á að einstaklingur sem stendur honum nærri og hann átti í erjum við væri andlega vanheill. Um sama einstakling er að ræða og gengist hefur við því að taka síma Páls í maí í fyrra.
Samkvæmt gögnum málsins fékk Páll fjórum sinnum að gefa skýrslu um meint sakarefni. Fyrst 14. maí 2021 þegar hann lagði fram kæru. Svo aftur 20. og 21. maí sama ár. Og loks 22. nóvember. Reynslumiklir lögmenn sem ég hef rætt við segja þetta afar óvenjulegt. Sérstaklega í ljósi þess að í hvert sinn sem Páll gaf skýrslu þá breyttist saga hans og í kjölfarið breyttist rannsókn lögreglunnar í sama takti. Það er ekki fyrr en í þriðju skýrslutöku sem hann kærir einstakling nákominn sér fyrir að hafa eitrað fyrir sér, tekið símann sinn og afhent hann fjölmiðlamönnum.
Grunaði fyrst Jón Óttar
Degi áður en Páll lagði fyrst fram kæru, 13. maí 2021, hringdi hann persónulega í rannsóknarlögreglumanninn Jónas Halldór Sigurðsson og sagði honum frá grunsemdum sínum. Sá hvatti Pál til að fara á lögreglustöðina á Akureyri og leggja fram kæru. Páll hringdi beint í þennan rannsóknarlögreglumann, sem bendir til þess að þeir þekkist. Sami rannsóknarlögreglumaður var viðstaddur, og tók þátt í, skýrslutöku yfir mér í ágúst 2022.
Í fyrstu skýrslutöku sinni, þann 14. maí, sagði Páll, samkvæmt samantekt lögreglu, að í síma sínum hafi verið „gögn sem tengdust Samherja og Namibíu, trúnaðargögn og því hafi verið um að ræða mjög viðkvæm gögn sem ættu ekki erindi við almenning, eins og hann orðaði það.“ Hann vissi heldur ekki hvar fartölva sín væri niðurkomin.
Aðspurður um hvort hann hefði einhvern grunaðan um verknaðinn nefndi hann „á nafn Jón Óttar Ólafsson sem er samstarfsmaður hans hjá Samherja. Páll nefndi að hann hefði sést á Akureyri þessa sömu helgi og hann hefði skyndilega veikst sem og fyrir utan íbúð sem Páll á í [...]. Páli fannst þetta skrítið þar sem Jón Óttar er búsettur í [...] sem er í talsverðri fjarlægð frá [...]. Páll hafði ekkert fyrir sér í þessum efnum en vildi að þetta kæmi fram. Páll gerði kröfu um að þeim sem stal fartölvu hans og fór inn á aðganga hans á internetinu yrði gerð refsing lögum samkvæmt.“
Vildi ekki lögreglumann sem var tengdur honum
Önnur skýrslutakan yfir Páli fór fram 20. maí 2021. Það er sami dagur og Kjarninn hafði samband við Pál til að leita viðbragða við umfjöllun um „Skæruliðadeild Samherja“ sem birtist daginn eftir. Skýrslutakan stóð í 15 mínútur. Í þetta sinn vildi Páll leggja fram kæru á hendur óþekktum aðila sem hann taldi að hefði komist í síma hans og fartölvu, tekið þaðan gögn og komið þeim til fjölmiðla. Í tímalínu Páls, þeirri sem skilað var inn til Landsréttar en ekki þeirri sem sakborningar fengu afhenta, segir: „Þennan sama dag fer ég upp á lögreglustöð [...] Þá kemur Valur Magnússon rannsóknarlögreglumaður inn, en þar sem hann er vinur minn bað ég hann um að fara því hann væri tengdur mér og ég teldi það ekki rétt að hann kæmi að þessari rannsókn. Sama gilti um Guðmund St. Svanlaugsson rannsóknarlögreglumann en vegna vinskapar hans og Örnu [McClure, lögmanns hjá Samherja, sem er hinn meinti brotaþolinn í málinu] vildi ég ekki að hann kæmi nálægt rannsókninni.“
Þann 21. maí, daginn sem umfjöllunin birtist, kom Páll aftur á lögreglustöðina með nýjar grunsemdir og afhendir lögreglunni síma sinn. Nú taldi hann að einstaklingur náinn honum hefði eitrað fyrir honum, lekið gögnum til fjölmiðla og sent skilaboð úr farsíma sínum á Örnu McClure. Hann ræddi við Örnu þennan sama dag símleiðis og hringdi í Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, og sagði honum frá grunsemdum sínum.
Í skýrslutökunni 21. maí greindi Páll frá því að hann hafi legið á sjúkrahúsi í hátt í viku eftir það sem hann taldi hafa verið eitrun og að umræddur nákominn einstaklingur bæri ábyrgð á ástandi hans og stuldi á síma.
Nú krafðist hann þess að sakamál yrði höfðað á hendur umræddum nákomnum einstaklingi „sem og öðrum sem að máli þessu hafa komið“ fyrir þjófnað á síma sínum og „hugsanlega fyrir að hafa eitrað fyrir sér.“
Geðmat vegna stolins síma?
Þegar Páll mætti enn og aftur í skýrslutöku 22. nóvember var framburður hans á ný frábrugðinn því sem hann hafði sett fram í maí. Hann sagðist hafa „haft rangar upplýsingar þá sem hann veit betur núna.“ Þær upplýsingar snerust að uppistöðu um að sá nákomni einstaklingur sem játaði að hafa stolið síma Páls væri andlega vanheill. Þrátt fyrir að ekkert annað liggi fyrir um ástand viðkomandi en einhliða upplýsingagjöf Páls, og að viðkomandi einstaklingur sé einungis búinn að játa að hafa tekið síma af öðrum innan fjölskyldu, þá spurði lögreglan einstaklinginn í skýrslutöku í janúar á þessu ári hvort viðkomandi væri tilbúinn að gangast undir geðmat „í því skyni að kanna andlega heilsu“ hans.
Í gögnum málsins er ekki skýrt af hverju fólk ætti að gangast undir geðmat vegna rannsóknar sem snýst að uppistöðu um stuld á símtæki, sem svo var skilað til rétts eiganda. Og mér er til efs að fordæmi séu fyrir því að lögregla í rannsókn á símastuldi hafi spurt sakborning slíkrar spurningar áður.
Fundir með Páleyju til að ræða málið
Páll Steingrímsson hefur, samkvæmt tímalínu sinni, verið í ítrekuðum samskiptum við Ingu Maríu Warén, lögreglufulltrúa við rannsóknardeild lögreglunnar á Norðurlandi eystra sem fer með rannsókn málsins, og Eyþór Þorbergsson aðstoðarsaksóknara. Taka skal fram að vera má að þau séu einhliða og til marks um ýtni Páls og tilætlunarsemi.
Í tímalínu hans sem fylgdi þeim gögnum sem lögð voru fyrir Landsrétt kemur einnig fram að 30. ágúst 2021 hafi Páll átt „spjall við Páleyju, lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, samtal sem ég hafði beðið eftir í 3 vikur. Í samtalinu ræddum við málið“.
Í tímalínunni skrifar Páll að föstudaginn 12. nóvember hafi Páley hringt í sig og að hann verði að „muna að setja inn minnispunkta vegna samtalsins“. Þeir minnispunktar eru ekki hluti af gögnum málsins.
3. Hlutverk Páls Vilhjálmssonar
Páll Steingrímsson rekur í tímalínu sinni að Páll Vilhjálmsson, sem titlar sig sem blaðamann og kennara, hafi byrjað að skrifa um mál sitt á bloggsíðu sína 2. nóvember 2021. Páll Vilhjálmsson hefur síðan linnulaust skrifað um þetta mál og skrifað tugi færslna þar sem hann hefur haldið fram stórkostlegum rangfærslum sem eru ærumeiðandi fyrir mig og aðra sem þær snúa að. Í þeim hefur hann líka ítrekað haldið á lofti málflutningi um að einstaklingurinn sem er nákominn Páli Steingrímssyni, sem játað hefur að hafa tekið síma hans ófrjálsri hendi, sé andlega vanheill á sama tíma og viðkomandi standi í flóknum persónulegum og fjárhagslegum erjum við Pál Steingrímsson.
Sem dæmi skrifaði Páll Vilhjálmsson 41 færslur um þessi mál frá byrjun ágúst til 16. september 2022. Téðum Páli Vilhjálmssyni hefur einnig verið boðið í Dagmál á mbl.is og Bítið á Bylgjunni þar sem hann hefur fengið að rekja þessar rætnu og ærumeiðandi aðdróttanir í löngu máli sem staðreyndir og óáreittur. Með því hafa þær fengið á sig mynd eðlilegrar þjóðfélagsumræðu. Þá birtist blogg hans reglulega á forsíðu mbl.is, næst mest lesna vefs landsins. Auk þess endurbirtir Fréttin.is, vefsíða sem er skráður fjölmiðill hjá Fjölmiðlanefnd, flestar færslur Páls og fréttavefirnir Mannlíf, Hringbraut og DV hafa sömuleiðis einnig gert sér mat úr þeim og sett fram sem fréttir.
Ljóst er að Páll Vilhjálmsson hefur fengið aðgengi að ýmsum gögnum málsins til að leggja út af á þessu tímabili. Nú síðast af þeim gögnum sem þeim blaðamönnum sem gefin hefur verið staða sakbornings var afhent eftir að tekin var af þeim skýrsla. Það sem honum virðist hafa þótt merkilegast í þeim gögnum, sem alls eru 374 blaðsíður, er að ég hafi sagt í langri reifun á skrifum Kjarnans um „Skæruliðadeild Samherja“ að við hefðum á endanum fengið Blaðamannaverðlaun Íslands fyrir umfjöllunina. Fyrsta færsla hans upp úr gögnunum fjallaði um það. Þær sem hafa síðan fylgt sýna vonbrigði hans með raunveruleikann sem gögnin teikna upp, og einkennast fyrst og síðast af súrrealískri túlkun manns sem er með veikum hætti að reyna að barna eigin samsæriskenningar og fullyrðingum um að lögreglan haldi enn helstu rannsóknargögnum frá meintum sakborningum.
Við lestur á gögnum málsins kemur enda fram að þau hrekja alla þvæluna sem Páll Vilhjálmsson hefur borið fyrir lesendur sína síðasta tæpa árið, og ýmsir fjölmiðlar hafa étið upp eftir honum. Þvælu sem nýtt hefur verið til að smíða hliðarveruleika orðræðunnar hjá þeim sem sjá sér hag í því.
Bloggari fær gögn málsins
Nú liggur fyrir að Páll Vilhjálmsson er ekki aðili máls og hefur því ekki rétt á að fá rannsóknargögn afhend. Sæmileg dómgreind segir manni að engar líkur séu á að þeim sem skipað hefur verið á sakamannabekk í þessum farsa hafi afhent honum þessi gögn.
Einn möguleikinn er að Páll Vilhjálmsson hafi fengið gögnin hjá lögreglu, sem væri afar alvarlegt mál og ætti að hafa miklar afleiðingar fyrir þann lögreglumann sem lét þau af hendi. Það verður þó að teljast ósennilegt. Líklegast er staðan sú að lögreglan hefur afhent meintum brotaþolum í þessu máli gögnin, og annar þeirra, eða lögmenn á þeirra vegum, hafi látið Pál Vilhjálmsson fá þau.
Brotaþolarnir eru, líkt og áður sagði, tveir: Páll Steingrímsson og Arna McClure, starfsmenn Samherja.
Lögmaður Örnu með gögn áður en hringt var í blaðamenn
Í gögnum málsins er að finna bréf frá lögmanni Örnu, Halldóri Brynjari Halldórssyni, sem er dagsett 11. janúar 2022, eða rúmum mánuði áður en lögreglan boðaði fjóra blaðamenn í yfirheyrslur og tilkynnti þeim að þeir hefðu stöðu sakbornings í rannsókn hennar. Í beiðninni fólst að lögmaðurinn vildi að Arna fengi stöðu brotaþola í yfirstandandi rannsókn á opinberri umfjöllun á skilaboðum milli þeirra sem kölluðu sig „Skæruliðadeild Samherja“.
Arna hafði þá þegar stöðu brotaþola í öðru sakamáli. Í því hafði hún kært sama einstakling og hefur játað að hafa stolið síma Páls Steingrímssonar fyrir brot á 232. grein almennra hegningarlaga. Vegna þess hafði lögmaður hennar „nýverið [verið] veittur aðgangur að gögnum þess máls“. Þar hafi meðal annars verið að finna endurrit af skýrslutöku yfir umræddum einstaklingi, þess efnis að viðkomandi hefði lesið samskipti milli Örnu og Páls Steingrímssonar. Á þeim grundvelli vildi lögmaðurinn að Arna fengi stöðu brotaþola í rannsókninni á opinberri umfjöllun um hina svokölluðu „Skæruliðadeild.“
Páll fékk stærri pakkann
Páli Steingrímssyni var formlega skipaður réttargæslumaður í síðasta mánuði. Í gögnum málsins er að finna beiðni frá honum um að Garðar G. Gíslason, lögmaður sem starfar fyrst og síðast fyrir Samherja eða stjórnendur þess fyrirtækis og hefur meðal annars komið fram í áróðursmyndböndum Samherja gagnvart nafngreindum blaðamönnum, yrði skipaður í þá stöðu. Garðar hefur einnig aðstoðað Pál í skilnaði sem hann stendur í, samkvæmt gögnum málsins. Þá var hann viðmælandi í frétt mbl.is sem birtist 25. maí 2021. Í þeirri frétt talaði hann máli Páls Steingrímssonar og „staðfesti“ að síma Páls hafi verið stolið á meðan að hann lá „milli heims og helju“. Garðar sagði þetta ekki, hann „staðfesti“ það. Og blaðamaðurinn tók þá staðhæfingu góða og gilda.
Réttargæslumenn eða lögmenn eiga rétt á gögnum „er varða beint þeirra skjólstæðing“ sem er yfirleitt þynnri útgáfa en fer til verjenda. Í þessu tilfelli, miðað við að Páll Vilhjálmsson hefur talað um tæplega 400 blaðsíðna pakka, virðist þó ljóst að lögreglan á Norðurlandi eystra hefur afhent brotaþolunum tveimur öll gögnin sem meintir sakborningar fengu.
Það er óvenjulegt en mér að meinalausu, í ljósi þess að gögnin staðfesta endanlega hversu fjarstæðukennt þetta mál er.
4. Engin gögn liggja fyrir um að blaðamenn hafi framið stafrænt kynferðisbrot
Á einum tímapunkti var látið eins og að blaðamenn hefðu framið stafrænt kynferðisbrot. Það er gefið til kynna í greinargerð Eyþórs Þorbergssonar án þess þó að lögregla hafi borið það upp á okkur. Lögreglan hefur engin sönnunargögn um að fjölmiðlafólk hafi móttekið né dreift myndböndum af Páli Steingrímssyni að stunda kynlíf með ónafngreindum konum. Lögreglan veit ekki með neinni vissu hvaða gögn fjölmiðlar eru með undir höndum utan þeirra gagna sem fjallað var um í fréttum þeirra.
Enginn fjölmiðill hefur fjallað um kynlífsmyndbönd af Páli eða birt, enda ekkert tilefni til. Ekkert liggur fyrir um að slík myndbönd hafi farið í neina almenna dreifingu. Eina sem liggur fyrir, samkvæmt rannsóknargögnum málsins, er að einstaklingur nákominn Páli sendi myndbönd úr tölvupóstfangi hans á sjálfan sig. Ekkert liggur fyrir hvort sá einstaklingur hafi dreift myndböndunum á nokkurn annan.
Ég hef persónulega aldrei séð slík myndbönd. Ég hef hins vegar nú, eftir að lögreglan á Norðurlandi eystra sendi gögn málsins, séð skjáskot af þessum myndböndum þar sem sést bersýnilega að um kynlífsathafnir er að ræða, þótt þær séu ekki persónugreinanlegar. Þar með dreifði lögreglan stafrænt myndum af kynlífi meints brotaþola til fjölmiðlamanns. Ég bað aldrei um að fá þessar myndir sendar. Og hefði sannarlega viljað sleppa því að hafa yfir höfuð séð þær.
Annarlegar hvatir
Lögmenn sem ég hef rætt við, og eru með áralanga reynslu af sakamálum, virðast flestir á einu máli að sú vegferð sem lögreglan á Norðurlandi eystra er á sé drifin áfram af einhverju öðru en eðlilegum forsendum. Að hún sé drifin áfram af annarlegum hvötum.
Hér sé ekki verið að rannsaka mál til sektar eða sýknu heldur helgi tilgangurinn meðalið. Álagi sé velt á fjölmiðlamenn og efasemdum um heilindi þeirra sáð í samfélagið. Við búumst sem stendur við því að stöðu okkar sem sakborningum verði haldið lifandi í einhvern tíma enn, þrátt fyrir að bókstaflega ekkert tilefni sé til. Í ljósi þess hversu makalausir þessir kælingartilburðir hafa verið hingað til kæmi manni ekki einu sinni á óvart að þau myndu ákæra okkur í fyrirfram fullkomlega töpuðu máli, þrátt fyrir að lög segi að það eigi að fella niður mál ef meiri líkur en minni séu á sýknu. Það er enda ómögulegt að sakfella blaðamann fyrir brot á lögum sem hann nýtur refsileysis gagnvart. Hvað þá án nokkurra sönnunargagna.
Ærumeiðingar og hótanir
Við Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður Kjarnans, höfum neyðst til að stefna Páli Vilhjálmssyni fyrir ærumeiðingar vegna staðhæfinga sem eru að öllu leyti ósannar og settar voru fram á bloggsíðu hans. Hann hefur fullyrt að við berum, beina eða óbeina, ábyrgð á byrlun Páls Steingrímssonar og stuldi á síma hans. Páll Vilhjálmsson getur ekki sýnt fram á þetta með nokkrum hætti. Hvorugur okkar hefur nokkru sinni hitt Pál Steingrímsson né séð símtæki hans og hvað þá handleikið það. Þá liggur fyrir, líkt og rakið er að ofan, að ekki er hægt að sýna fram á að Páli Steingrímssyni hafi verið byrlað.
Áður en Páli Vilhjálmssyni var stefnt var honum boðið að draga staðhæfingar sínar til baka án þess að nokkur kostnaður myndi hljótast af fyrir hann. Páll Vilhjálmsson hafnaði því. Við töldum okkur þar af leiðandi ekki eiga annarra kosta völ, enda felur tjáningarfrelsið ekki í sér rétt til að segja hvað sem er um hvern sem er án afleiðinga.
Hér er einnig hægt að greina frá því að ég, og fleiri fjölmiðlamenn, höfum kært Pál Steingrímsson fyrir hótun í okkar garð sem barst í tölvupósti í júlí 2022. Sú kæra hefur verið undirrituð og móttekin hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og er nú til rannsóknar þar.
Full ástæða var talin til að efast stórlega um dómgreind mannsins þegar kemur að okkur og þar af leiðandi varð að taka hótunina alvarlega. Var þar meðal annars horft til þess að fyrir liggur að Páll Steingrímsson hefur gefið það til kynna á samfélagsmiðlum að hann sé ekki fráhverfur því að nota skotvopn á blaðamenn.
Þá er það í samræmi við starfsreglur Kjarnans að kæra beinar hótanir við aðstæður sem þessar.
Að lokum
Í niðurlagi greinargerðar Eyþórs Þorbergssonar aðstoðarsaksóknara fyrir Landsrétti segir: „Það er ekki einfalt að rannsaka sakamál sem rekið er í fjölmiðlum af jafn miklu offorsi og raun ber vitni. [...] Fjölmiðlaumfjöllun þar sem leynt og ljóst er reynt að hafa áhrif á rannsókn lögreglu, á ákæruvaldið og niðurstöður er ekki sæmandi réttarríki.“
Þar telur gerandi sig vera þolanda.
Það sem er ekki sæmandi réttarríki er sú aðför að frjálsi fjölmiðlun sem átt hefur sér stað á Íslandi á undanförnum árum af hendi eins stærsta fyrirtækis landsins, sem beitt hefur fjármagni og áhrifum til að reyna að hafa æruna og lífsviðurværið af blaðamönnum sem opinberuðu möguleg lögbrot þess.
Um er að ræða aðför að fólki fyrir að vinna vinnuna sína eða nýta stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi sitt. Vegna þess varð fólk skotspónn ofsókna alþjóðlegs stórfyrirtækis og fótgönguliða þess, sem að uppistöðu virðist vera fólk með afar lágan siðferðisþröskuld, enga virðingu fyrir samfélagssáttmálanum og litla mannlega reisn.
Umfjöllun okkar um hina svokölluðu „Skæruliðadeild Samherja“ opinberaði skýrt að stjórnendur, starfsmenn og ráðgjafar Samherja voru saman í þessari vegferð við að skapa ótta hjá öðrum blaðamönnum, og eftir atvikum öðru fólki með skoðanir á samfélagsmálum, sem settir voru í skotlínu „Skæruliðadeildar“ fyrirtækisins svo þeir hræðist að fjalla um fyrirtækið. Allt er þetta gert eftir samþykkt „mannanna“, æðstu stjórnenda Samherja, og til að þóknast þeim.
Ljóst hefur verið frá upphafi að umfjöllunin byggði á ýmsum gögnum sem voru ekki afhent með vitund og vilja þeirra sem áttu þau. Frá því var greint skilmerkilega.
Þrátt fyrir að fyrirtækið Samherji hafi beðist opinberlega afsökunar á að hafa „gengið of langt“ í aðgerðum sínum gagnvart blaðamönnum sýna gögn málsins, og staðfest atferli fólks á þess vegum á undanförnum mánuðum, að lítil meining var á bakvið þá afsökunarbeiðni. Enn er unnið skipulega að því að grafa undan blaðamönnum og reynt að skapa aðstæður sem gera þá vanhæfa til að fjalla frekar um málefni fyrirtækisins.
Það sem er ekki sæmandi réttarríki eru kælingartilburðir lögreglunnar í heimabæ Samherja gagnvart sömu blaðamönnum, sem virðast hafa sama markmið og til þess gerðir að senda skýr skilaboð um að þeir skuli passa sig á hvað þeir skrifi um í framtíðinni.
Sá tími og orka sem farið hefur í þennan farsa skapar auk þess gríðarlegt álag sem dregur úr getu til að sinna daglegum störfum af fullum krafti. Það er íþyngjandi, jafnt faglega sem persónulega, að sitja undir fjarstæðukenndum ásökunum mánuðum saman og ég get vel viðurkennt að það hefur fengið mig til að hugsa um hvort það sé á sjálfan mig, fjölskyldu og samstarfsfélaga leggjandi að stunda þá blaðamennsku sem Kjarninn hefur einbeitt sér að frá stofnun fyrir níu árum. Svarið er enn sem komið er áfram já.
En í mínum huga er það sem er minnst sæmandi réttarríki aðkoma háttsettra stjórnmálamanna að þessari vegferð. Með henni erum við komin á slóðir sem Ísland gefur sig ekki út fyrir að vera á. Þar er eitt að valdamesti stjórnmálamaður landsins leggist á vogaskálarnar með þeim hætti sem hann gerði, og að aðstoðarmaður yfirmanns löggæslumála í landinu hafi fylgt í kjölfarið með blessun yfirmanns síns. En annað og þungbærara er dugleysi þeirra sem veita þeim vald. Áhrifafólk sem maður taldi að myndi standa upp fyrir lýðræðinu og frjálsri fjölmiðlun, en hefur setið sem fastast.
Með þögn sinni og aðgerðarleysi hafa þau veitt vegferðinni falskt réttmæti.
Skömm þess fólks er mikil.
Höfundur er með stöðu sakbornings, blaðamaður og ritstjóri Kjarnans.
Leiðrétt kl 12:51:
Í upprunalegri útgáfu stóð að lögmaður Örnu McClure hefði haft aðgang að rannsóknargögnum í tengdu máli að minnsta kosti mánuði áður en ákvörðun var tekin um að gefa blaðamönnum formlega stöðu sakbornings og þeir upplýstir um rannsóknina. Þetta er ekki rétt. Um var að ræða gögn í öðru, en tengdu, sakamáli. Þetta hefur verið leiðrétt í greininni.
Athugasemdir