Það er alltaf frekar ógeðfellt að verða vitni að aðförum að fólki vegna starfs þeirra.
Ein slík aðför á sér nú stað gagnvart blaðamanni sem fjallaði um kergju innan Landspítalans, sem hlýtur að teljast sjálfgefin afleiðing af plastbarkamálinu. Óháð efninu fjallaði Þóra Tómasdóttir í Þetta helst á Rás 1 um stöðu okkar frægasta hjartaskurðlæknis sem flæktist eða flækti sig inn í lygavef læknisins Paolo Macchiarinis, með alvarlegum afleiðingum, nánar tiltekið kvalarfullum dauðdaga manns sem var látinn undirgangast misráðna tilraunaaðgerð á grundvelli falsana.
Mikil vinna virðist hafa verið lögð í umfjöllunina, en vafalaust var hún ekki alfullkomin og má eflaust gagnrýna eitt og annað, enda er áskorun að lýsa því sem gerist að tjaldabaki, nokkuð sem sumir eru í prinsippinu á móti. Það má gagnrýna einstaka hluta vinnu fólks, en það er vinsælt að leggja lykkju á leið sína til að ráðast sérstaklega að persónu blaðamanna.
„Meinfýsni“, var úrskurðarorð almannatengils, stjórnanda Fjölmiðlanörda á Facebook, um blaðamanninn. Gagnrýnandi vinnubragða blaðamansins valdi að setja þetta orð í fyrirsögn við hlið nafns blaðamannsins og birta á Vísi.is. Hvernig sannleiksleit hans og -ást undirbyggði slíkan sálfræðilegan úrskurð um persónu blaðamanns er ráðgáta, en líklega getum við gefið okkur að hann sé að álykta af rammleik eigin rökhugsunar og dreifa þeirri ályktun vegna tiltekinna hvata sem hann býr þá sjálfur yfir. Ljóst er þó að hann gerir minni kröfur til eigin ályktunarhæfni og færir fram alvarlegri ásakanir en birtist í umfjöllunum blaðamannsins sem hann gagnrýnir. Hann lýkur grein sinni á áskorun um að starfið verði haft af blaðamanninum, að „staða hennar og framtíð innan RÚV hljóti að vera til skoðunar hjá æðstu stjórnendum stofnunarinnar vegna þeirra óvönduðu vinnubragða sem hún stundar í viðleitni sinni til að hafa æruna af [lækninum] Tómasi Guðbjartssyni“.
Í dag eru tvær greinar á Mest lesið lista umræðuhluta Vísis með nafni blaðamannsins í fyrirsögn. Hin greinin er önnur grein lögmanns um sama efni. Lögmaðurinn, sem af skrifum hans að dæma kennir heilbrigðisstarfsfólki lögfræði, birtir síðan aðra grein á Vísi þar sem hann líkir eftir, í gríni eða alvöru, heimildarvinnu blaðamanns og lætur eins og hann hafi rannsakað mál Þóru Tómasdóttur innan Ríkisútvarpsins. „Hermt er að mikil ólga sé innan RUV vegna umfjöllunar Þóru Tómasdóttur í þættinum „Þetta helst“ á RUV um Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlækni,“ skrifar hann og bætir við: „Jafnvel svo að henni sé ekki sætt sem starfsmanni fjölmiðilsins“. Aftur er ekki ljóst hvort lögmanninum sé alvara, að hann telji sig hafa gert það sama og blaðamaðurinn í sinni heimildarvinnu, þegar rætt var við níu lækna, eða að hann sé í kaldhæðni að sýna fram á að hann geti sagt hvað sem er með því að vitna í ónafngreinda heimildarmenn.
Maður lést kvalarfullum dauðdaga eftir að brotið var á réttindum hans í heilbrigðiskerfinu með misráðinni tilraunaaðgerð. Mál hans hefur réttilega hlotið heimsathygli og forsvarsmenn Landspítalans viðurkennt að málið hafi ekki verið tekið nægilega alvarlega. Það væri merki um veikt og óheilbrigt samfélag ef hérlendis væri ekki farið vel í gegnum hlut okkar helstu heilbrigðisstofnunar og afleiðinga innan hennar, jafnvel þótt við höfum lækninn í hávegum. Nú á að kenna reyndum blaðamanni lexíu fyrir að fjalla um málið út frá óvinsælli hlið, eða eins og vinsælustu ummæli undir grein stjórnanda Fjölmiðlanörda kveða á um, að „þessi stelpa“ hafi orðið sér, RÚV og sjálfum útvarpsstjóra „til skammar“ „þegar hún byrjaði að mala af illgirni um lækninn“.
Eins og gengur og gerist með íslenska vefmiðla í dag er síðan helstu ósönnuðu dylgjum lögmannsins og stjórnanda Fjölmiðlanörda dreift í fyrirsögnum, jafnvel þeir hlutar sem virðast hafa verið kaldhæðni. Þar undir segir síðan um blaðamanninn: „Óþverra kerling og drullusokkur“. „Illa inrætt og hefnigjörn tík.“ „Eitur í okkar þjóðfélagi“.
Lögmaðurinn endaði aðra grein sína á aðvörunum um að neikvæðar umfjallanir fjölmiðla geti fælt fólk frá því að starfa í heilbrigðisgeiranum. En hver á að vilja vera blaðamaður þegar þau sjá svona aðfarir að blaðamanni og læra að aðrir í sama geira ýmist þegja eða lyfta hæst heygöfflunum? Þessi aðför að blaðamanni ryður veginn fyrir gömlu íþróttinni að skjóta sendiboðann og áður en yfir lýkur er enginn eftir til að greina sjálfstætt og greina frá óvinsælum fréttum. Það er ekki fyrr en löngu seinna sem við skiljum að við vildum ekki heyra bara það sem við viljum heyra. Til allrar óhamingju er þessu fólki að verða kápan úr því klæðinu, þar sem starfandi blaðamönnum – sem ekki vinna fyrir hagsmunaaðila við að segja fréttirnar eins og þeim hentar – fækkar stöðugt. Nánar tiltekið fækkaði starfandi fjölmiðlafólki um helming á sex árum samkvæmt nýjustu tölum. En Arion banki er að auglýsa eftir ritstjóra.
Athugasemdir (3)