„Vandamálin byrja ekki fyrr en eftir hádegi,“ sagði Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur og ritstjóri Bliku.is í samtali við Heimildina snemma í morgun. Þetta eru vandamál af stærri gerðinni; ófært gæti orðið innanbæjar á höfuðborgarsvæðinu. Reykjanesbrautin gæti sömuleiðis orðið illfær eða ófær og það sama á við um vegi á borð við Mosfellsheiði og Hellisheiði. Það verður blint, vart mun sjást á milli húsa, og best væri að allir sem mögulega geta bíði af sér veðrið. Fari ekki af stað.
Vestanstrengur stefnir á suðvestanvert landið og lætur til sín taka víða á því svæði frá því um hádegisbil. „Þetta er í raun og veru mjög dýpkandi lægð fyrir austan landið sem er í aðalhlutverki,“ segir Einar. Skömmin sú mun draga til sín gamla háloftalægð úr norðanverðu Grænlandshafi og „um leið og það gerist þá brestur á þessi stutti vestanstormur“. Lægðin mun gera vart við sig að ráði á Suðurnesjum, þá á höfuðborgarsvæðinu og loks á Suðurlandi.
Vegagerðin hefur lýst yfir óvissustigi sem þýðir að vegir geta teppst því allt hennar viðbragð nægir ekki til að halda þeim opnum. Hér getur þú fundið nánari upplýsingar um mögulegar lokanir vega.
Ekkert skyggni og skaflar á götum
„Við hefðum nú yfirleitt ekki gert mikið veður út af þessu,“ segir Einar um vindinn, þessa um og yfir 20 metra á sekúndu, sem fylgja líklegast lægðinni, „nema vegna þess að það er svo mikil lausamjöll yfir“. Það er hún, þessi hvíta notalega voð sem hylur nú að morgni 31. janúar jörð á Suðvesturlandi, sem verður ekki til friðs þegar vindar taka að blása. Skafrenningur og blinda mun skapa vandamál: Skyggni mun spillast verulega, „og ekkert sjást á milli húsa þegar verst lætur,“ varar Einar við. Þá munu skaflar fljótt myndast á vegum og spilla færð verulega. Líkur eru á að ófært verði um tíma. „Það sem ýtir undir það eru að það eru snjóruðningar fyrir, jafnt innan bæjar sem utan, og það mun setjast á milli ruðninga á gangstéttir og götur. Þannig að það er hætta á að götur verði fljótar að teppast, ekki síst húsagötur.“
Það er erfitt að ímynda sér í vetrarkyrrð morgunsins að fljótlega muni fólk ekki sjá út úr augum. „Það verður mjög fallegt veður á leið allra til vinnu og skóla,“ segir Einar. „Vandamálin byrja ekki fyrr en eftir hádegi. Það er í raun og veru ekkert annað að gera en að bíða af sér veðrið. Ef fólk er ekki búið að gera það sem það ætlar sér að gera áður en veðrið skellur á þá verður það að bíða þetta af sér. Það er alveg hægt að gera það, en við gerum okkur alveg grein fyrir því að það þarf að sækja börn og þar fram eftir götunum. Það er hætt við því að alls konar skutl sem tilheyrir síðdeginu og útréttingar verði í uppnámi og breytist. Maður er voðalega hræddur um það að það verði fastir bílar út um allan bæ. Að þetta verði svoleiðis dagur.“
Frá Suðurnesjum til Suðurlands
Uppúr hádegi byrjar ballið á Suðurnesjum og áhrifa þess munu gæta m.a. á Reykjanesbrautinni. Um kl. 14-15 mun lægðin dansa af krafti um höfuðborgarsvæðið. Vart mun þýða að ryðja götur, nema helstu stofnleiðir, á meðan það ástand varir því skaflar munu einfaldlega koma í skafla stað. „Það gæti vel orðið ófært innan hverfa og svo tekur tíma að hreinsa þegar þetta er yfirstaðið.“
Góðu fréttirnar eru að sögn Einars að veðrið mun líklega aðeins standa í 2-3 tíma á hverjum stað. Slæmu fréttirnar eru hins vegar að það er alveg nógu langur tími til að allt fari á hliðina í samgöngum á þessu þéttbýlasta svæði landsins. Bílum hefur fjölgað þar verulega síðustu ár og umferðin aukist samhliða því, fleiri eru á ferðinni og margir fara um lengri veg en áður. Þess vegna þarf að sögn Einars lítið útaf að bregða svo að allt fari á verri veg, að umferðin stöðvist hreinlega alveg, þegar skot eins og þetta á fari yfir.
„Veðrið núna á sér greinilegt upphaf og greinilega endi“
Sumir séu farnir að gera þær kröfur að komast alltaf leiðar sinnar, sama hvernig viðrar. En nú þarf þetta sama fólk að anda ofan í kviðinn eða bíta í það súra epli að í nokkra klukkutíma er líklegra en ekki að miklar samgöngutruflanir verði.
Í ofanálag mun svo mögulega snjóa með lægðinni. Það gæti, að sögn Einars, komið hryðjubakkar af hafi yfir borgina og nágrenni hennar. „Það mun ekki auðvelda okkur lífið,“ segir hann, „því þá verður enn meiri blinda“.
En gætum við átt von á sambærilegum samgöngutruflunum og urðu í lok árs 2022, þegar Reykjanesbrautin var ófær í lengri tíma? „Nei, því veðrið núna á sér greinilegt upphaf og greinilegan endi,“ svarar Einar. Það vill hins vegar svo óheppilega til að veðrið verður verst á tíma sem fólk er almennt mikið á ferðinni. Einar ítrekar því þær ráðleggingar sínar að fara ekki út í blinduna, heldur bíða af sér veðrið.
Athugasemdir