Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,16 prósent milli mánaða. Tólf mánaða verðbólga mælist nú 6,7 prósent en hún mældist 7,7 prósent í síðasta mánuði. Hún hefur ekki mælst minni síðan í mars 2022 en hæst fór verðbólgan í tveggja stafa tölu í febrúar í fyrra.
Staðan er því þannig að þrátt fyrir að verðbólga sé að hækka milli mánaða er tólf mánaða verðbólgan að lækka skarpt. Ástæða þess liggur í því að verðbólga mældist mjög há í lok árs 2022 og byrjun árs 2023 og þeir mánuðir eru nú að detta út úr tólf mánaða verðbólgutölunum.
Í tilkynningu á vef Hagstofunnar segir að kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hafi hækkað um 0,9 prósent milli mánaða og að sú hækkun hafi haft mest áhrif á aukna verðbólgu milli mánaða. Kostnaður vegna rafmagns og hita hækkaði um 3,7 prósent milli mánaða en á móti toguðu vetrarútsölur þar sem föt og skór lækkuðu um 9,2 prósent frá því í fyrri mánuði. Húsgögn og heimilisbúnaður lækkuðu sömuleiðis um fimm prósent og flugfargjöld til útlanda um heil 11,4 prósent. „Athygli skal vakin á þeirri breytingu að í stað þess að taka inn verðbreytingar á „044 Annað vegna húsnæðis“ nú í janúar verður það gert í febrúar þegar fyrsta greiðsla skv. nýjum gjaldskrám fer yfirleitt fram. Undir þennan lið fellur sorphreinsun, holræsi og kalt vatn.“
Niðurfelling á virðisaukaskattsívilnun af rafbílum hafði áhrif til hækkunar á verði þeirra en tekið var tillit til rafbílastyrkja Orkusjóðs við útreikninga.
Athugasemdir