Þróun íslenska hagkerfisins á liðinni öld var skrykkjótt. Framan af voru meginstoðir atvinnustarfseminnar vinna annars vegar en náttúruauðlindir hins vegar. Fjármagninu var stýrt. Atvinnulífið var vinnuaflsfrekt. Þegar stóru gengisfellingarnar á sjöunda áratugnum voru gerðar var landið efnahagslega lokað og fjármagnsflutningar milli landa leyfisþurfi. Það er ekki fyrr en undir lok viðreisnartímans 1970 sem aðildin að EFTA er samþykkt. Undir fyrrnefndum kringumstæðum höfðu gengisfellingar því ekki samskonar efnahagsáhrif og síðar meir eftir að hagkerfið hafði verið opnað fyrir hindrunarlitlum erlendum viðskiptum. En innanlands voru afleiðingar gengisfellinganna 1968 fljótlega sýnilegar. Verðlag hækkaði og kaupmáttur rýrnaði. Kauphækkana var krafist. Hringekjan fór af stað.
Lífskjarasátt
Örðugt var að stöðva víxlverkanir launa og verðlags sem risu hvor af annarri. Lífskjarasamningarnir 1986 voru fyrsta tilraunin til gagnaðgerða, sem þó runnu fljótlega út í sandinn. Meiri samstaða um samþættar aðgerðir var þegar Þjóðarsáttin varð að veruleika 1990. EES samningarnir sem tóku gildi 1994 urðu þessi miklu samfélagslegu vatnaskil, þegar landið er opnað fyrir 500 milljón manna markaði og fjármagnsflutningar landa milli að mestu leyti gefnir frjálsir. Þar með varð íslenska krónan að mikilvægasta möndli hagkerfisins; mælieining skiptihlutfalla milli gjaldmiðla og vörslulykill stöðugleika. Á árunum fyrir Hrun varð krónan þó auðveld bráð gráðugra fjárbraskara sem lúsiðnir stunduðu handverk sitt fram á síðasta klukkutíma. Íslenska krónan var bæði verkfærið sem beitt var og fórnarlambið. Stöðugleika hlutverk hennar hvarf eins og dögg fyrir sólu.
Hnoss eða helsi ?
Veikleikar krónunnar raungerðust aldrei skírar en í Hruninu. Gengi hennar gagnvart erlendum gjaldmiðlum snarféll. Fall hennar teygði anga sína og áhrif út um allt samfélagið, sem varð í reynd gjaldþrota. Vöruverð hækkaði að sama skapi. Af þessum sökum hafði fjármálakreppan hvergi jafn víðtækar samfélagslegar afleiðingar og hér. Hefði íslenski gjaldmiðillinn verið evra hefði gengi hennar ekki hreyfst mikið, þrátt fyrir mikil umsvif íslensku bankanna á erlendum fjármálamörkuðum.
Íslenska krónan er of veikburða til að geta þolað álag sem nauðsynleg fjármálaumsvif stórra fyrirtækja hafa í för með sér. Enda hafa flest stærri fyrirtækja landsins (alls liðlega 230) yfirgefið krónuna sem sinn gjaldmiðil. Hún er þeim þar að auki of dýr. Skiptikostnaður hennar hár.
Öll hagkerfi sem vaxa og dafna þurfa kjölfestuafl sem sjálfvirkt dregur úr jaðarsókn eigin innri afla. Sterkir gjaldmiðlar hindra eða hægja á ójafnvægi og öfgum efnahagslífs, sem gírað er inná hagvöxt. Þetta sjálfvirka afl þarf að vera öflugt ef það á að koma að gagni. Þessi mikilvæga ballest er gjaldmiðillinn. Það er þessi kjölfesta svo sem evran, sem veigaminni þjóðir álfunnar sóttust eftir að fá í stað þess að vera á eilífum gengisflótta undan eigin ákvörðunum, því þjóðargjaldmiðlar þeirra veittu enga mótstöðu.
Í hagkerfi án gengiskjölfestu gefur röng hagræn eða pólitísk ákvörðun villandi og til lengdar skaðleg áhrif út um allt hagkerfið.
Svo kom fullyrðingin um að krónan hefði bjargað okkur til viðsnúnings eftir Hrunið ! Já, hún leiðrétti gagnvart ferðamönnum og gjaldeyriseigendum að hluta þá hækkun framfærslukostnaðar sem hrunkrónunnar hafði orsakað. Stöðugur gjaldmiðill hefði ekki þurft að leiðrétta neitt. Við sem hér áttum heima sátum hins vegar uppi með stórhækkaðan framfærslukostnað sem tók okkur á annan áratug að vinna að mestu úr. Erfiðust var afleiðingin fyrir láglaunafólk .
Gengi og velferð
Margt veldur því að jafnan er tuttugu til þrjátíu ára tímatöf frá því að nýjungar á sviði efnahagsmála í kjarnalöndum álfunnar kasta landfestum í útjaðri hennar. Landið var lengi hálflokað fyrir erlend viðskipti og vöruskipti tíðkuð lengur en hjá nágrönnum okkar.
Hér var enn millifærslukerfi fimmtán árum eftir lok heimsstyrjaldarinnar. En markaðskerfið þá löngu orðið virkt í vestur hluta meginlands álfunnar. Aldalöng einangrun, einokunarverslun, vistarband og þrálátur heimóttarskapur mótuðu hugarfar drógu úr kjarki, lömuðu vilja, brengluðu útsýnið. Við komum gjarnan of seint til leiks ef við mættum yfirleitt. Með Viðreisnarstjórninni breyttist ýmislegt. Hún opnari viðskipti við EFTA-löndin og gerði gengisfellingu að hagstjórnartæki. Þjóðinni var talin trú um að gengisfelling væri einu réttu viðbrögðin þegar við yrðum fyrir miklum ytri búsifjum. Fyrir því voru færð handhæg rök. Sama röksemdafærsla var seinna yfirfærð á sérhvert misgengi launa og verðlags, þótt engin utanaðkomandi áföll dyndu yfir.
Við beitum gengi krónunnar til að hækka tekjur útflutningsgreinar. Í stað þess að aðlaga reksturinn að hærri kostnaði er mælieiningunni breytt. Gengið er fellt eða leyft að síga. Stór hluti þjóðarinnar hefur trúað því að kostirnir við sjálfstæðan lítinn gjaldmiðil væri sveigjanleiki hans. Hann drægi úr afleiðingum sveiflna og kæmi atvinnulífinu strax á lappir. Þetta væru forréttindi sem of fáar þjóðir nytu. Því bæri að varðveita „sjálfstæða" íslenska krónu sem hverjar aðrar fornminjar.
Því miður er samhengi gengisrýrnunar (fellingar) og góðæris ekki svona einfalt. Gengisfelling veldur allsherjar verðhækkunum innanlands. Hún hækkar einnig aðföng þeirra atvinnugreina sem ekki stunda útflutning. Þær greinar þurfa því að hækka sitt verð til að geta haldið áfram. Verðhækkanir þessara fyrirtækja rýra kaupmátt strax. Rúllettan fer af stað á ný. Verðhækkanir af völdum gengisfellinga hlaðast upp í síhækkandi verðlagi. Hér er að finna rót þess háa verðlags sem við nú búum við.
Ný gengisfelling vekur upp ný tilefni til verð- og kauphækkana, veldur þannig skaða til frambúðar og grefur sjálfri sér gröf. Hún verður að eins konar pertetuum mobile – sjálfvirku sívirku hreyfiafli.
Háir stýrivextir eru fastur fylgifiskur krónunnar. Þeim fylgja enn hærri bankavextir. Hún kallar á stöðuga opinbera varðstöðu svo hún fari sér ekki að voða. Krónan þarf bæði þykkt leðurbelti og breið axlabönd.
Hvað er til úrræða?
Reynt hefur verið að koma böndum á krónuna með því að styrkja hana með kaupmáttaraðgerðum frá ríki og sveitarfélögum. Slíkt linar þörf á vaxta- og kauphækkunum - í bráð. Það kostar hins vegar all mikla peninga og eykur skuldir ríkis og sveitarfélaga, því ólíklegt er að borgað verði með nýjum sköttum þeirra herðabreiðu og jafnframt dregið úr eftirspurn. Þetta er hluti kostnaðarins við að halda í krónuna sem gjaldmiðil. Því hlýtur sú spurning að vakna til hvers er allt þetta brambolt? Hver er skynsemin í að hlaða upp miklum krónu-styrktar- útgjöldum sem almenningur mun sjálfur þurfa að borga fyrr en síðar.
Aukin skuldsetning ríkissjóðs leiðir ýmist til samdráttar í samneyslu, með aukinni fátækt í kjölfarið, eða til hærri almennra skatta, nema hvort tveggja verði. Þar sem aukin ríkisútgjöld verða ekki greidd með tekjuafgangi,það er þegar halli á rekstri ríkissjóðs, munu vaxtagreiðslur ríkissjóðs hækka. Það mun draga dilk á eftir sér. Í þessu samhengi má ekki gleyma að á ríkissjóð munu óhjákvæmilega einnig bætast há útgjöld vegna hamfaranna í Grindavík. Þessa blöndu stóraukinna ríkisútgjalda verður örðugt að leysa farsællega. Við þurfum á sama tíma að glíma við háa vexti, mikla verðbólgu, stór aukin ríkisútgjöld og slæma afkomu ríkissjóðs með hækkandi skuldastöðu. Væri hér alvöru gjaldmiðil myndu bæði vaxtakjör og verðbólga vera viðráðanleg.
Meinið alvarlega
Meinið í íslensku efnahagslífi er krónan. Við getum leikið okkur með alls konar aðgerðir; sett slaufu á þetta eða hitt; hækkað almenna skatta til að létta á ríkissjóði og halda aftur af eftirspurn; hækkað álögur hér og þar. Þegar upp er staðið þá er verið að plástra vanhæfan gjaldmiðil sem heldur niðri kaupmætti og rýrir þar með kjör. Hann virkar eins og gömul verðtryggð stríðsskuld sem borga verður af hvernig sem viðrar. Við núverandi aðstæður verða allar aðgerðir dýrar. Og við munum aftur lenda í klípu ef ekki verður hafist handa við að losa þjóðina úr klóm krónunnar og hefja samninga um upptöku evrunnar og inngöngu í ESB. Það verður alls ekki sársaukalaust frekar en aðrar alvöru aðgerðir. Við EES samningana þurfti mikla einbeitni, klókindi og samstöðu vinaþjóða sem nú er ekki í boði með sama hætti og þá.
Samningarnir verða eflaust harðir. Við munum trauðla fá allt fyrir ekkert, eins og aðal samningamaður ESB sagði um EES samninginn.
Agafælni og bábilja
Íslendingar tókum um miðbik liðinnar aldar þann pól í hæðina að reyna eftir megni að forðast agasemi og sneiða hjá aðgerðum sem gætu valdið sársauka. Agi og reglusemi urðu samheiti fyrir hörku og tillitsleysi. Við tömdum okkur agafælni og forðuðumst allt sem gæti valdið skrámum, átökum. Reglur voru litnar hornauga. Þetta birtist á mörgum sviðum þjóðlífsins. Í stað þess að taka slaginn og setja mörk, taka til, var tekin upp sú aðferð að breyta viðmiðuninni. Mælistokknum var breytt og hann aðlagaður að getu slaklegra nemenda sem kæmust þannig í háskóla. Krónan var aðlöguð meintum þörfum atvinnulífsins. Ekki öfugt því það var vandasamari og flóknari aðgerð. Í stað þess að semja um launahækkanir sem samræmdust framleiðnistöðu hagkerfisins voru settar fram óskakröfur og þeim eftir atvikum fylgt með verkföllum. Síðan var krónan notuð sem refsivöndur til að sópa upp það sem útaf stóð og vel það. Þetta fannst mörgum þjóðráð. Sjónleikurinn sýndi krónuna í hlutverki bjargvættar sem réð niðurlögum ófétisins.
En þetta var og er því miður varhugaverð blekking. Þessi sveigjanleiki gjaldmiðilsins er bölvun en ekki bjargræði. Hann lokar okkur inni í hringrás landlægra verðhækkana sem hækka verðlagið og gerir það ósamkeppnishæft við verðlag og vexti annarra grannþjóða.
Í stað þess að fara í megrun og halda kjörþyngd var slakað á buxnastrengnum og næst keyptar nýjar víðari buxur. Þegar upp er staðið og til lengdar er óhjákvæmilegt að taka til, aðlaga eigin þyngd æskilegri mælieiningu í stað þess að aðlaga mælieininguna ofþyngdinni. Það er þetta sem við höfum hafst að gagnvart krónunni. Við stærum gagnsemi hennar fyrir hagkerfið vegna hæfileika hennar til að aðlaga sig. Sveigjanleikinn er hennar mesti galli.
Reynsla annarra
Að vísu höfðu suður evrópskar þjóðir villst inn á keimlíka aðferð og við en lent þar í návígi við þýska markið, sem olli þeim stöðugum útflutningserfiðleikum. Þessu var mætt með gengisfellingum. Þegar Þjóðverjar þurftu á samþykki Frakka að halda til að fá að sameinast (1990), þá varð evran samþykkt. Þótt sumar þessara þjóða hafi þurft nokkuð strangt og strembið aðlögunarferli, þá varð evran fljótt að akkeri efnahagslífsins sem engin þjóð vildi án vera. Þjóðverjar höfðu lært af dapurri reynslu. Þeir gerðu markið að viðmiðuninni sem atvinnulífið þurfti að aðlagast. Samkeppnishæfni þeirra varð mikil því þeir þurftu stöðugt að taka til í rekstrinum, genginu varð ekki breytt. Félagsmálapakkar voru álitnir vera viðfangsefni Sambandsþings þeirra - ekki kjarasamninga.
Því fyrr sem við mönnum okkur upp og kveðjum bábiljuna í kútinn þeim mun heilbrigðari verður lífsbaráttan hérlendis og atvinnulífið fær traustari grundvöll til að starfa á. Kjarasamningar verða þá byggðir á raunstærðum ekki á gervitölum og opinberum útgjöldum, sem tekin eru að láni oftast erlendis. Það heitir að lifa um efni fram og hætt er við að það komi til baka eins og búmerang í einhverri mynd.
Hugarfarsbreyting er aðkallandi við þær krefjandi aðstæður sem að okkur steðja. Versta blekkingin er sú að vilja standa á eigin fótum, berjast við sjálfan sig og falla sem sigurvegari. En sá er löngum háttur á þegar óskhyggjan ræður fangbrögðum.
Athugasemdir (7)