Seinustu hraunspýjur komu upp úr nyrðri sprungunni nálægt Grindavík rétt upp úr klukkan eitt í nótt. Síðan þá hefur engin sjáanleg virkni verið í gossprungunum kemur fram í tilkynningu Veðurstofu Íslands. Sprungur halda áfram að koma í ljós innan Grindavíkur.
Jarðskjálftavirkni dregst áfram saman og hafa um 200 smáskjálftar mælst í kvikuganginum frá miðnætti. Bendir það til þess að það sé kvika á hreyfingu og svæðið að jafna sig. Það er of snemmt að lýsa yfir goslokum en mesta skjálftavirknin er við Hagafell, nálægt fyrri gossprungunni sem opnaðist á sunnudaginn.
Sprungur suðvestanvert við Grindavík sem áður höfðu verið kortlagaðar hafa stækkað töluvert. Var það skoðað með hitamyndum úr dróna í nótt. Drónar hafa verið notaðir til að meta aðstæður í Grindavík. Það er áfram mikil hætta á svæðinu.
Veðurstofan varaði við því að nýjar sprungur og gosop myndist í eða við Grindavík í gær. Jafnt og þétt hafði dregist úr krafti eldgossins við Grindavík. Þrátt fyrir vísbendingar um að gosinu fari senn að ljúka hafa náttúruvársérfræðingar Veðurstofu Íslands lagt áherslu á að svæðið er enn skilgreint sem hættusvæði og óvissan um hvað gerist næst er enn mikil. Varað er við mögulegri opnun nýrra gossprungna á svæðinu.
Athugasemdir