„Það var þessi köllun,“ sagði Páll Þorbjörnsson, Grindvíkingur og fasteignasali, í samtali við blaðamann Heimildarinnar. Hann fór seinasta laugardagsmorgun til Grindavíkur og sótti verðmæti í húsið sitt eftir að hafa fundið það á sér að hann ætti að gera sér ferð til Grindavíkur. Húsið hans er í Austurhóp í ytri Grindavík, um 300 metra frá ný runnu hrauni. „Ég vaknaði mjög snemma á laugardagsmorguninn og var lagður af stað upp úr átta leytinu til Grindavíkur.“
„Mér leið eins og ég væri að kveðja húsið. Það var svo mikill söknuður en við félagarnir erum að fara í sitthvora áttina,“ sagði Páll um húsið sitt. Páll fór víða um bæinn í ferð sinni til Grindavíkur á föstudag. „Ég keyrði út um allt en bærinn var auðvitað mjög sjúskaður. Það var svona, ég ætla ekki að segja vonleysi og það var ekki depurð, en ég man rosalega vel eftir því þegar ég fór. Það var eins og ég hefði fengið tengingu til að kveðja, en vonandi er hún röng.“
Alltaf vitað að hann myndi upplifa gos
Páll flutti til Grindavíkur fyrir tuttugu árum síðan, þá vegna vinnu. Hann hafði það sterklega á tilfinningunni að hann myndi upplifa gos á sinni ævi, ekki hvar sem er heldur nálægt sér. „Ég sá það alltaf fyrir norð-austan megin við Grindavík. Svo komu Fagradals eldarnir.“ Hann sagði það gos ekki hafa passað alveg inn í þá sýn sem hann hafði á gosinu. Þegar gosið við Grindavík hófst í nóvember fékk hann mörg skilaboð og símtöl frá fólki sem sagði „Palli þetta er allt sem þú hefur verið að tala um.“
Litu svo á að þau væru á leiðinni heim
„Eins og staðan er í dag þarf auðvitað að halda rosalega vel um Grindvíkinga. Nú er ástandið allt annað heldur en það var á föstudaginn, þegar við litum svo á að við værum að fara heim,“ sagði Páll.
Páll sagði að plönin hjá fjölskyldu hans voru ekki að flytja aftur til Grindavíkur á næstunni. „Ég er með allt í húsinu mínu fyrir utan rúmin. Allt annað er í húsinu mínu og okkur datt ekki í hug að taka það út því við fengum íbúð með húsgögnum.“
Páll og fjölskylda hans leigja núna íbúð á höfuðborgarsvæðinu. „Við erum búin að búa í sumarbústað, hótelherbergi, fjórum öðrum eignum áður en við fengum þetta húsnæði.“ Fjölskyldan keypti húsið í Grindavík fyrir fjórum árum síðan og hafa lagt mikið í að gera það að sínu.
„Það sem situr í manni er að ég veit ekki hvar mig langar að vera ef að Grindavík er ekki staðurinn.“
„Það er mikil óvissa hjá fólki“
„Stjórnvöld hafa alveg gert ákveðna hluti en meðal fjölskylda er að punga út núna 300-500 þúsund krónum að lágmark á mánuði meira heldur en hún var að gera áður. Við erum að tala um laun annars makans í útborgun. Þannig fólk er bara að sökkva meira og meira,“ sagði Páll. Lánastofnanir gáfu Grindvíkingum þann kost að fara í greiðsluskjól en það mun renna út í febrúar. „Það er mikil óvissa hjá fólki og nú er bærinn mikið verr farinn. Sprungur gliðnuðu aftur og það er komið hraun inn í bæinn.“
Gríðarleg óvissa
„Við sjáum auðvitað ekkert fram í tímann en við vorum öll búin að sjá fyrir okkur að við værum að fara heim og við myndum taka næsta sumar heima og það væri búið að græja bæinn. En í dag erum við auðvitað í gríðarlegri óvissu og spurningin er bara er bærinn byggilegur eftir þetta?“
Athugasemdir