15. desember síðastliðinn samþykkti Alþingi að tillögu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, að hækka skatta um 3000 lífeyrisþega með búsetu erlendis um ca. 2,4 milljarða króna. Þetta ákvað Alþingi með því að afnema persónuafslátt þessa tiltekna hóps, sem nú er ríflega 60 þúsund krónur á mánuði. Þetta var samþykkt athugasemdalaus. Að vísu tókst að fresta gildistökunni um eitt ár enda varla meðalhófs gætt með því að samþykkja álögurnar rétt fyrir jól og hefja skatttökuna 1. janúar.
Óskiljanlegur ráðherra
Gefum Þórdísi Kolbrúnu orðið á Alþingi 15. nóvember síðastliðinn á er hún mælti fyrir þessari mismunun skattgreiðenda: „Þá er einnig lögð til sú breyting að fella niður persónuafslátt í þeim tilfellum þegar erlendir lífeyrisþegar fá lífeyristekjur frá Íslandi en persónuafsláttur er almennt veittur í því ríki þar sem viðkomandi er heimilisfastur eða búsettur en auk þess geta lífeyrisþegar sem búsettir eru innan EES, Sviss eða í Færeyjum sótt um að vera skattlagðir hér á landi líkt og innlendir aðilar og fá þar með persónuafslátt ef þeir fá meiri hluta tekna sinna frá Íslandi.“
Hér ægir öllu saman og þessi langa setning verður fyrir vikið nánast óskiljanleg. Reynum samt að greina hana.
-
Hópur Íslendinga á eftirlaunum býr erlendis en hefur tekjur sínar á Íslandi þar sem þær eru skattlagðar.
-
Lagt er til að persónuafsláttur þessa hóps verði felldur niður. Enginn rökstuðningur fylgir.
-
Fullyrt er að persónuafsláttur sé almennt veittur í því ríki þar sem viðkomandi býr og á þetta líklega að hljóma sem röksemd fyrir því að afnema persónuafsláttinn hjá Íslendingum á eftirlaunum sem búa erlendis.
Við þetta er margt að athuga og sætir furðu að enginn þingmaður hafi brugðist við þessari vitleysu.
Mismunun og jafnrétti
Ég sit við borð með ungum Íslendingi sem þóknast að búa í Danmörku eins og ég. Hann, líkt og ég, hefur allar tekjur sínar á Íslandi (vinnur hjá íslensku fyrirtæki) og þar eru þær skattlagðar eins og mínar lífeyristekjur. Mánaðarlegar tekjur hans eru mun hærri en mínar.
Þórdís Kolbrún og Alþingi hyggst ekki afnema persónuafslátt þessa unga manns. Þetta er vitanlega frekleg og geðþóttaleg mismunun. Alþingi og Þórdís Kolbrún hefðu allt eins getað skilgreint 3000 manna hóp rauðhærðra karlmanna á aldrinum 25-45 ára og hækkað skattana hjá þeim hópi (afnumið persónuafsláttinn). Ég velti því fyrir mér hvort þessi mismunun standist ákvæði stjórnarskrár. „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti,“ segir þar orðrétt.
Er kannski stutt í að Þórdís Kolbrún láti Alþingi samþykkja mismunun á grundvelli kynferðis, trúarbragða o.s.frv. úr því að nú þegar er búið að samþykkja mismunun á grundvelli búsetu og aldurs?
Það eru auðvitað auðsæ sannindi að persónuafsláttur er veittur í ríkjum þar sem fólk býr. En með fullri virðingu: Af hvaða tekjum mínum og unga Íslendingsins hér í Danmörku eigum við að fá persónuafslátt? Tekjur okkar eru á Íslandi og þar eru þær skattlagðar og þar af leiðandi engar tekjur í búsetulandinu til að gefa eftir skatta t.d. með persónuafslætti.
Ríkið nýtur skatttekna minna en ber engan kostnað af mér
Hér í Danmörku nota ég hvorki íslenska heilbrigðiskerfið né aðra opinbera þjónustu sem greidd er úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Í því fælist þar af leiðandi ákveðin sanngirni að ég greiddi skatta mína í Danmörku en ekki á Íslandi. Ég hlýt því að sækja um að verða skattlagður í Danmörku og fá danska persónuafsláttinn eða annan þann afslátt sem danska ríkið veitir fólki á eftirlaunaaldri. Vill Þórdís Kolbrún og Alþingi að 3000 manna hópur á eftirlaunaaldri með búsetu utan Íslands hverfi alfarið með sínar skattgreiðslur til annarra landa? Eru það skilaboðin?
Skattareglur á Norðurlöndum um þá sem náð hafa lífeyrisaldri eru auðvitað mismunandi. Svíar lækka skatta fólks þegar það nær 66 ára aldri. Það gildir ekki aðeins um skattlagningu lífeyris heldur skattlagningu venjulegra tekna. Það er rétt að taka það fram við íslenska stjórnmálamenn að það er gert óháð búsetu, kyni, trú eða tekjum svo eitthvað sé nefnt.
Danska ríkið veitir fólki á eftirlaunum persónuafslátt upp á 600-700 þúsund íslenskra króna árlega og hefur ýmsar aðrar leiðir til að létta skattbyrði fólks á eftirlaunaaldri.
Á Íslandi er á hinn bóginn leitt í lög að hækka skatta Íslendinga á eftirlaunaaldri, sem búa erlendis, um 2-3 milljarða króna með því að afnema persónuafslátt þeirra. Þetta er kauðskt og fráleitt enda má til sanns vegar færa að íslenska ríkið græði á því að umræddur hópur á eftirlaunaaldri búi erlendis. Hví þetta ofbeldi?
Persónuafsláttur – úrræði fyrir fátæka
Það er eiginlega óskiljanlegt að þessi undarlega tillaga hafi orðið til í fjármálaráðuneyti Bjarna Benediktssonar og síðar fylgt eftir af Þórdísi Kolbrúnu eftir að hún tók við embætti hans. Vita þau og ráðgjafar þeirra ekkert um lög og rétt? Og svo þetta óskiljanlega bull sem borið er inn á Alþingi? Þau og ræðuskrifarar þeirra mættu rifja upp að persónuafsláttur er sérstakt úrræði til þess að verja fátæka fyrir ofsköttun. Maður með 200 þúsund króna tekjur á mánuði ætti lítið eftir ef hann yrði að borga 33 prósent af því í skatt. Fyrir hann er persónuafslátturinn því úrslitaatriði. Það stríðir gegn tilgangi persónuafsláttar að taka hann af tekjulágum. Þetta gæti haft umtalsverða þýðingu við mat á lögmæti þessara aðgerða og gert aðförina að umræddum hópi eftirlaunafólks í útlöndum líkast til ólöglega.
Jafnrétti gagnvart lögunum er grundvallarregla stjórnarskrár. Ef menn vilja láta sumt launafólk halda persónuafslætti en láta aðra missa hann verður að rökstyðja hvernig það samræmist jafnréttisreglunni. Engan slíkan rökstuðning er að finna í þokukenndri ræðu fjármálaráðherrans á Alþingi um málið.
Til embættis Umboðsmanns Alþingis var stofnað til þess að verja borgarana gegn ofríki, valdníðslu eða misbeitingu valds af hálfu ríkisvaldsins. Nú er ekkert annað að gera en að undirbúa formlega kvörtun til Umboðsmanns vegna þessa máls. Líklega hafa þó fleiri dómstólar áhuga á því, þar á meðal Mannréttindadómstóllinn.
Fetar Þórdís sömu slóð og Svandís í Hvalamálinu? Mun Mbl. krefjast afsagnar Þórdísar vegna stjórnarskrárbrots? Menn bíða spenntir eftir viðbrögðum Morgunblaðsmanna!