Ég held að gildi forsetatíðar Guðna muni í framtíðinni helst liggja í því hve staðráðinn hann var greinilega í að afsnobbvæða embættið og hve vel honum tókst það. Bæði í tíð Ólafs Ragnars og Vigdísar (einkum undir lokin) var kominn keisarabragur á þetta undarlega djobb – samanber hið mystíska handaband þegar Ólafur Ragnar „afsalaði sér forsetavaldinu“ til „handhafanna“ við brottför frá landinu eða ýmsar þær seremóníur sem flugfélög þurftu að viðhafa þegar Vigdís flaug til eða frá landinu hin síðari ár sín í embætti.
Og ég ætla sannarlega að vona að næsti forseti haldi ekki aftur inn á keisarabrautina.
En hvað á sá forseti að gera sem við kjósum í sumar? Og er einhver raunverulegur tilgangur með þessu starfi?
„Það þarf ekki gervigreind til að reikna út röð þeirra sem fá stjórnarmyndunarumboð eftir hverjar kosningar. Meðalgreind dugar alveg.“
Hvað er hlutverk húsvarðarins?
Sum telja að hlutverk forseta eigi fyrst og fremst að vera stimpill fyrir framkvæmdavaldið, skrifa undir lög svo þau öðlist gildi og útdeila stjórnarmyndunarumboði eftir kosningar. En ég sé ekki annað en það sé alveg ónauðsynlegt að halda úti heilum starfsmanni til að sjá um þetta.
Húsvörðurinn í stjórnarráðinu getur sem hægast séð um að stimpla lögin og hlutverk forseta við stjórnarmyndun er mjög ofmetið.
Eftir hverjar kosningar fer í gang heilmikið drama í fjölmiðlum um hverjum forseti ætlar að fela stjórnarmyndunarumboð rétt eins og það „umboð“ sé eitthvað annað en orðið eitt – kannski einhvers konar Star Wars-sverð sem enginn megi beita nema sá sem forseti hefur veitt til þess helgan rétt. Sannleikurinn er auðvitað sá að leiðtogar stjórnmálaflokka geta rætt um og myndað ríkisstjórnir algjörlega án þessa blessaða umboðs.
Úr ráðherrabílnum
Sum kynnu að segja að viðræður samkvæmt stjórnarmyndunarumboði frá forseta séu hentugt skipulag sem flýti fyrir myndun ríkisstjórnar, en getur ekki verið að hið gagnstæða sé einmitt raunin? Að þessi áhersla á hver hafi hið ginnhelga stjórnarmyndunarumboð sé hreinlega til trafala og tefji fyrir raunverulegum viðræðum?
Hvað veit ég? En hitt veit ég að það þarf ekki gervigreind til að reikna út röð þeirra sem fá stjórnarmyndunarumboð eftir hverjar kosningar.
Meðalgreind dugar alveg.
Og forseti Alþingis gæti sem hægast annast þessa umboðssýslu og sinnt henni úr aftursæti ráðherrabílsins síns.
Svíar hafa þennan hátt á, ef ég man rétt, og enginn hefur kvartað.
Sniðugir forsetar?
Ég veit að þess eru dæmi í sögunni að forsetar hafa haft afgerandi áhrif á stjórnarmyndun bak við tjöldin en í stað þess að um þau dæmi eigi að fjalla sem sneddí brellur sem sýni hve sniðugir viðkomandi forsetar hafi verið (aðallega Ásgeir og Ólafur Ragnar), þá ætti að fordæma slíkt afdráttarlaust, enda um að ræða forkastanleg afskipti forseta af því sem honum á ekki að koma við.
En hlutverk forseta við að synja vondum eða mjög óvinsælum lögum staðfestingar? Jú, þar er efinn, vissulega. Einhvers konar hemil á afar vonda lagasetningu er gott að hafa, en ég held nú að einn forseti sitjandi á Bessastöðum sé ekki endilega heppilegasta verkfærið til þess.
Hentistefna
Ólafur Ragnar fékk mikið lof fyrir að senda fjölmiðla- og Icesave-lög í þjóðaratkvæðagreiðslu og andstæðingar þeirra laga voru vitanlega mjög ánægðir með hann. En 2013 þorði hann ekki að vísa mjög óvinsælum lögum um veiðigjald til þjóðarinnar, því þá var við sjálfa sægreifana að eiga – og hver vill fá þá upp á móti sér, til dæmis þegar maður er að koma á koppinn heimskautaráðstefnu sem á að halda nafni manns á lofti?
Núverandi tilhögun býður sem sé upp á hentistefnu og tækifærismennsku og persónulega duttlunga og viljum við það virkilega?
En eigum við þá að kjósa forseta án þess að vita nákvæmlega hvaða pólisíu hún eða hann hefur í hverju einasta hugsanlegu átakamáli og hvaða stefnu þau eru líkleg til að taka?
Eða eigum við bara að slá þessu upp í kæruleysi?
Á náttfötunum
Sum virðast nefnilega helst á því að hlutverk forseta eigi fyrst og fremst að vera að flytja viturlegt ávarp um land, þjóð og tungu upp úr hádegi á nýársdag meðan menntastéttin maular randalínu með þeyttum rjóma. En þótt það geti verið notalegt að sitja á náttfötunum og hlýða á eitthvað spekingslegt, þá er ekki víst að það þurfi að vera manneskja í vinnu heilt ár og fá bæði kost og lóssí við að semja slíkt ávarp handa menntastéttinni.
Það mætti hreinlega auglýsa í byrjun desember eftir einhverjum sem langar að halda tölu yfir þjóðinni á nýársdag.
Athugasemdir