„Samtök atvinnulífsins og breiðfylking landssambanda og stærstu stéttarfélaga á almenna vinnumarkaðnum hafa tekið höndum saman um gerð langtímakjarasamninga sem auka fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu.“ Svona hefst sameiginleg yfirlýsing aðila vinnumarkaðarins sem Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, las upp fyrir fjölmiðlafólk að loknum fundi þeirra sem átti sér stað í morgun.
Í yfirlýsingunni segir enn fremur að samningsaðilar séu sammála um að eitt mikilvægasta verkefnið í komandi kjaraviðræðum sé að ná niður mikilli verðbólgu og háu vaxtastigi sem komið hafi hart niður á bæði heimilum og fyrirtækjum. „Til að það markmið náist verða allir aðilar vinnumarkaðarins, fyrirtæki landsins, ríki og sveitarfélög að leggjast á eitt og getur enginn skorast undan ábyrgð. Samningsaðilar skora á fyrirtæki landsins, ríki og sveitarfélög að styðja markmið kjarasamninganna um að ná niður verðbólgu og þar með vöxtum, með því að halda aftur af gjaldskrár- og verðhækkunum og launaskriði.“
Um var að ræða fyrsta formlega fund breiðfylkingarinnar, sem fer með samningsumboð fyrir 93 prósent alls launafólks innan Alþýðusambands Íslands, með Samtökum atvinnulífsins eftir að hún var mynduð fyrr í þessum mánuði.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, sagði að fundi loknum að það væri alveg ljóst að það eigi að takast að ná niður verðbólgu og vöxtum hratt og vel þá verði allir að spila með í þeirri vegferð. „Við höfum lagt fram okkar hugmyndir um það hvernig við viljum nálgast þetta verkefni. Núna er boltinn hjá samfélaginu í heild sinni.“
Hann sagði það gríðarlega sterkt að sameiginleg yfirlýsing hafi verið gefin út og sýnir þann sameiginlega vilja sem sé til staðar.
Næsti fundur samningsaðila hefur verið settur á 3. janúar 2024 og Vilhjálmur býst við því að það verði fundað á hverjum degi eftir það þar til niðurstaða fæst.
Verðmiðinn 20 til 25 milljarðar króna
Heimildin greindi frá því á jóladag að sú heildstæða nálgun sem breiðfylkingin hefur mótað fyrir komandi kjarasamningsviðræður, og var kynnt Samtökum atvinnulífsins á fundinum í dag, eigi að vera forsenda fyrir nýrri þjóðarsátt. Sú áætlun gerir ráð fyrir umtalsverðri aðkomu ríkissjóðs að sáttinni. Samkvæmt grein sem Stefán Ólafsson, prófessor emiritus sem starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu, skrifaði og birtist í Heimildinni þennan saman dag þá þarf þjóðarsáttin að snúast um að ná verðlagi og vöxtum hratt niður með hóflegum launahækkunum í samningi til þriggja ára og samstilltu átaki allra, ekki síst fyrirtækja. „Þetta verði gert mögulegt með endurreisn tilfærslukerfa heimilanna, sem skili sér í auknum greiðslum til barnabóta og húsnæðisstuðnings, sem nemi um 30-50 þúsund krónum til heimila í lægri og milli tekjuhópum. Þetta myndi kosta ríkið um 20-25 milljarða aukalega á ári.“
Í greininni sagði að slík aðgerð myndi færa tilfærslukerfin í átt að því sem var á þeim tíma sem þjóðarsáttin 1990 var gerð. „Þetta er því lykilforsenda fyrir því að hægt sé að una við hóflegar launahækkanir nú til að ná verðlagi og vöxtum hratt niður á næstu misserum.“
Formaður Eflingar, sem Stefán starfar fyrir, er Sólveig Anna Jónsdóttir. Í samtali við Heimildina á föstudag boðaði hún það sama og Stefán gerir í grein sinni, án þess að setja verðmiða á kostnaðinn. Þá sagði hún að það sem stjórnvöld þurfi að gera til að það verði hægt að undirrita kjarasamninga hratt og örugglega og án átaka, sé að leiðrétta tilfærslu kerfin. „Það hefur verið unnin mikil og góð vinna á vettvangi hreyfingarinnar sem við byggjum á. Uppleggið er að tilfærslukerfin verði löguð með þeim hætti að þau fari aftur á þann stað sem þau voru árið 2013. Og jafnframt verður farið fram með kröfur um úrbætur í húsnæðismálum.“
Ekki er útilokað að kröfur verði gerðar um enn meiri útgjöld úr ríkissjóði til þess að hægt verði að ná kjarasamningum til lengri tíma. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður stærsta stéttarfélags landsins VR, sagði við Heimildina fyrir helgi að húsnæðismál yrðu stærsta málið sem yrði á borðinu í komandi kjaraviðræðum. „Það þarf að teikna upp trúverðugt plan sem muni raunverulega mæta þeirri gríðarlegu húsnæðisþörf sem er búin að byggjast upp síðustu áratugi.“
Athugasemdir