Hraun er einstaklega einangrandi efni sem byrjar fljótt að storkna þegar það rennur upp úr iðrum jarðar og kemst í tæri við andrúmsloftið og önnur kaldari efni á yfirborði jarðar. Hins vegar er það aðeins ysta lag hraunsins sem storknar á meðan hraunið getur áfram verið rauðglóandi og fljótandi skammt fyrir neðan svart og sakleysislega útlítandi yfirborðið.
Þegar hraun er í fljótandi formi, rauðglóandi hvítt, gult eða appelsínugult, getur hitastig þess varað frá 700° til 1250° gráðum á Celsius. Þeim mun skærari litur, þeim mun heitara er hraunið. Á sama hátt má ætla að þeim mun svartara sem hraunið er, þeim mun kaldara.
Og að vissu leyti er það rétt. Hins vegar getur svart og að því er virðist kalt hraunið verið mun heitara en það lítur út fyrir að vera. Það sem meira er, storknað yfirborðshraunið getur hæglega falið brennheitt fljótandi hraun skammt innan við storknaða skorpuna sem heldur því í skefjum.
Vegna einangrandi eðlis hrauns og þess hve fljótt ysta lag þess storknar, getur fljótandi hraun oft flætt langar vegalengdir undir svörtu storknuðu yfirborðinu. Það er einmitt þannig sem hraunhellar verða til. Þegar eldgos heldur áfram, flæðir kvikan stöðugt upp á yfirborðið og heldur hraunrennslinu til streitu. Þannig heldur hraunið áfram að þrýsta á storknað yfirborðshraunið þar til þrýstingurinn brestur, skyndilega og fyrirvaralaust. Slíkt kallast undanhlaup.
Þetta getur gerst þar sem hraun safnast saman í hrauntjörnum þar sem yfirborðið brestur skyndilega og skærappelsínugulir hraunpollar myndast, stundum með dansandi hrauni sem hoppar og skoppar eins og í æsilegum leik. En þetta getur líka gerst við hraunjaðarinn, skyndilega og án fyrirvara, og hraunið gusast fram, hugsanlega með meiri hraða en svo að fólk, sem stendur of nærri, hafi ráðrúm til að taka til fóta sinna. og það getur verið varasamt svo ekki sé dýpra í árina tekið.
Flýtur, sekkur ekki
Bráðið hraun varhugavert í meira lagi. Hálfstorknað hraun gefur sakleysislegt yfirbragð sem veitir falskt öryggi fyrir hættunni sem stafað getur af rauðglóandi hrauninu undir niðri. En hvað gerist ef þú fellur í glóandi hraun?
Þær eru allnokkrar stórmyndirnar sem hafa notað gjósandi eldfjöll sem sviðsmynd fyrir dramatískum endalokum lykilsögupersóna. Terminator 2 er fyrirtaks dæmi en einnig Hringadróttinssaga þar sem hinn aumkunarverði Gollum fellur ásamt hringnum kæra í ómynni hraunsins og hverfur í glóandi djúpið.
Það er því ekki að undra að það sé það sem flestir haldi að gerist – ekki ólíkt því að stökkva ósyndur út í sundlaug fulla af brennheitu vatni og sökkva til botns án þess að geta rönd við reist. Það er hins vegar alrangt.
Hraun er nefnilega ansi þétt í sér, nánar tiltekið þrisvar sinnum þéttara en vatn, sem er ef til vill ekki svo undarlegt ef litið er til þess að bráðið hraun er ekkert annað en grjót í fljótandi formi.
Til samanburðar er saltvatnið í Dauðahafi með ca. 25% meiri þéttleika en vatn, sem gerir fólki auðvelt að fljóta um án mikillar fyrirhafnar. Með öðrum orðum; þéttleiki vökva hefur áhrif á það hve auðveldlega við sökkvum.
Ef þú myndir detta í hraunpoll er því nánast ómögulegt að þú myndir hverfa sökkvandi ofan í glóandi hraunið, ólíkt því sem kvikmyndirnar hafa talið þér trú um. Þú myndir öllu heldur fljóta ofan á þykkum vökvanum.
Dauðans alvara
En þó glóandi hraunið gleypi þig ekki með húð og hári er harla ólíklegt að þú sleppir frá því lifandi. Í stað þess að sökkva í hraunið kviknar einfaldlega í þér. Glóandi hraun er allt að 1250° heitt – meira en tíu sinnum heitara en sjóðandi vatn – og því munu vítiseldar umvefja þig á örskotsstundu með þeim afleiðingum að þú fuðrar upp. Það eina sem eftir stendur verður aska sem svo bráðnar og rennur saman við glóandi hraunið. Game over.
Boðskapurinn er því einfaldur: Engan fávitaskap. Berum tilhlýðilega virðingu fyrir móður jörð og höldum okkur í hæfilegri fjarlægð frá nýju hrauni.
Athugasemdir