Allir þrír drengir Eddu Bjarkar Arnardóttur eru komnir í leitirnar. Þeirra hefur verið leitað frá því að móðir þeirra var handtekin í lok nóvember. Drengirnir eru nú á leið til Keflavíkur þar sem faðir drengjanna bíður þeirra, þar sem förinni er heitið til Noregs. Þetta kemur fram á Nútímanum.
Fyrr í dag sáust tvíburasynir Eddu Bjarkar og barnsföður hennar á kaffihúsi í Garðabænum með systur Eddu Bjarkar, Ragnheiði Arnardóttir. Óeinkennisklæddur lögreglumaður stöðvaði bíl Ragnheiðar um tíuleytið í morgun og handtók hana. Drengirnir hafa verið færðir í umsjá barnaverndar ásamt dóttur Ragnheiðar sem var með í för.
Sagði Ragnheiður í viðtali við Heimildina í byrjun mánaðarins að hún vissi ekki hvar drengirnir væru niðurkomnir.
Edda er með tvo íslenska lögmenn. Nútíminn greinir frá því að annar þeirra, Hildur Sólveig Pétursdóttur, lögmaður Eddu Bjarkar í forsjámálinu hér á landi, hafi verið handtekin vegna málsins. Hinn lögmaðurinn, Jóhannes Karl Sveinsson, verjandi Eddu í sakamálinu hér á landi, segir í samtali við Vísi að hann hafi ekki verið handtekin.
Edda verður áfram í gæsluvarðhaldi í Noregi fram yfir áramót, þegar mál hennar verður tekið fyrir í byrjun janúar. Aðalmeðferð í málinu lauk í vikunni.
Málið var rakið í þaula í nýjasta tölublaði Heimildarinnar.
Athugasemdir