Almenn stök fargjöld í vagna Strætó á höfuðborgarsvæðinu munu kosta 630 kr. frá 8. janúar og árskort fullorðinna hækkar þann sama dag úr 93 þúsund krónum upp í 104 þúsund krónur. Gjaldskráin er að hækka um 11 prósent að meðaltali.
Alexandra Briem, varaformaður stjórnar Strætó og borgarfulltrúi í Reykjavík, segir í samtali við Heimildina að hún sé hundfúl yfir þessu, en staðan hjá Strætó sé „bara mjög skelfileg“.
„Ég var búin að taka töluverðan slag fyrir því að við þyrftum ekki að fara í gjaldskrárhækkanir umfram verðlag. En við gátum ekki fengið meiri peninga inn og á endanum þurftum við að velja á milli þess og að fara í töluverða þjónustuskerðingu. Þetta var illskárri kosturinn,“ segir Alexandra.
Spurð um hve hátt hún telji að gjaldið fyrir stakan strætómiða megi verða, áður en það fari að bitna merkjanlega á notkun vagna hjá þeim hópi sem notar strætó ekki nógu oft til að réttlæta kaup á mánaðar- eða árskortum, segist Alexandra ekki vita það, og andvarpar.
„Það var náttúrlega það sem ég sagði þegar ég var að hvetja til þess að við myndum reyna að brúa bilið meira með hærri aukaframlögum til Strætó, en það náðist ekki samstaða um það í eigendahópnum, nema að litlu leyti,“ segir Alexandra og bætir við að hún telji að gjaldið hefði ekki mátt hækka meira en það gerir nú.
Sem fyrr segir hún þó að verðhækkun sé betri kostur en það að draga úr þjónustunni. „Þetta er alls ekki góður hlutur til að gera þegar maður vill auka notkun og bæta nýtingu, en ég held það myndi hafa meiri áhrif á nýtinguna ef fleiri leiðir þyrftu að hætta fyrr á daginn eða keyra sjaldnar,“ segir Alexandra Briem.
Athugasemdir (1)