Árið 2023 hefur verið viðburðaríkt. Þegar horft er til heimsins alls verður árið það heitasta síðan mælingar hófust. Loftslagshlýnun af mannavöldum hefur æ meiri áhrif á daglegt líf fólks víða um heim. Jafnframt er sums staðar ófriður og fjöldi flóttafólks sjaldan verið meiri. Við lifum á áhugaverðum tímum. Ef við lítum okkur nær, þá fer árið 2023 í annála vegna eldgosa og jarðhræringa. Gosið norðan Grindavíkur nú í desember er það fjórða á Reykjanesskaga á tæpum þremur árum. Grindavík var rýmd fyrir sex vikum og óljóst hvenær fólk getur flutt til baka. Eins og stundum áður eru náttúruöflin í aðalhlutverki á Íslandi.
Aðrir atburðir ársins fölna í samanburði við umbrotin við Grindavík. Við stöndum frammi fyrir sömu stöðu og fyrir 50 árum í Vestmannaeyjum.
Aðrir atburðir ársins fölna í samanburði við umbrotin við Grindavík. Við stöndum frammi fyrir sömu stöðu og fyrir 50 árum í Vestmannaeyjum. Fólkið í Grindavík þurfti að yfirgefa heimili sín í flýti og enginn veit hvenær hægt verður að flytja heim aftur. Erfiðleikarnir sem þessu fylgja fyrir Grindvíkinga eru miklir. Á svæðinu sem undir er í þessum atburðum eru líka innviðir sem skipta miklu máli fyrir atvinnustarfsemina og allt það fólk sem býr á Suðurnesjum.
Hvernig búum við okkur undir áföll af þessu tagi?
Reykjanesskaginn er vaknaður eftir um átta alda svefn. Eldgosin sem verða á Skaganum eru ekki stór eða öflug á sama hátt og t.d. stór gos í Heklu eða Kötlu. Hraunin sem verða til eru yfirleitt lítil eða meðalstór og þættu ekki í frásögur færandi ef gosstöðvarnar væru uppi á hálendi. En á skaganum býr fjöldi fólks, þar er blómlegt atvinnulíf og mikil umsvif. Keflavíkurflugvöllur liggur utan hættusvæða, en ef rafmagn og hiti detta út gæti það truflað mjög starfsemina. Kannski er stærsta spurningin fyrir samfélagið hvernig við búum okkur undir áföll af þessu tagi. Hvernig lágmörkum við skaðann?
Á eldvirkninni eru tvær hliðar. Annars vegar eru eldgos hættuleg og geta valdið miklum skaða. Á hinn bóginn þá njótum við góðs af eldinum í iðrum jarðar. Langflest hús á Íslandi eru hituð upp með jarðhita. Jarðhitinn er að stærstum hluta tilkominn vegna eldvirkninnar, kviku sem storknar og kólnar í jarðskorpunni. Með skynsamlegri nýtingu jarðhita og vatnsafls spörum við stórar fúlgur í kaupum á jarðefnaeldsneyti og minnkum samhliða kolefnisspor okkar. En með nýtingu jarðhitasvæðanna og uppbyggingu í nágrenni þeirra eru meiri líkur á að eldgos á sömu svæðum valdi tjóni.
Þarf að styrkja þol samfélagsins við náttúruvá
Góðar áætlanir eru til um hvernig skuli koma fólki undan þegar hætta steðjar að. En meira þarf að gera til að byggja upp þol samfélagsins. Fyrir Reykjanesskagann þarf að tengja saman svæði; ef eitt orkuver dettur út þá taki annað við. Þannig væri aðgangur að hita og rafmagni tryggður. Áfall á einum stað myndi þá ekki stöðva hjól atvinnulífsins annars staðar. Með slíkri tengingu ættu jarðhitasvæðin nærri Reykjavík að geta tekið við detti Svartsengi út. Sama á við um rafmagnið. Jafnframt þarf að skoða hvernig hægt er að verja sem mest byggðina í Grindavík.
Til að lifa í sátt við landið og nýta okkur kosti þess og auðlindir þarf að styrkja þol samfélagsins við náttúruvá, ekki síst eldgosum. Það kostar, en væri mjög arðbær fjárfesting til framtíðar. Sennilegt er að sú atburðarás sem fór af stað 2021 haldi áfram í nokkurn tíma. Við þurfum að vera við því búin að fleiri gos verði á næstu mánuðum og árum.
Athugasemdir