Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, skaut föstum skotum að Bjarna Benediktssyni utanríkisráðherra á þingfundi í dag. Vísaði hann í viðbrögð Bjarna við umfjöllun Kveiks um íslensku krónuna sem sýnd var á RÚV í gærkvöldi.
Í þættinum var fjallað um að sum fyrirtæki fái að losna undan kostnaðarsömum sveiflum á krónunni en heimilin súpi ítrekað seyðið af óstöðugleika hennar. Þar kom einnig fram að beinn kostnaður við krónuna væri um 300 milljarðar á ári.
Bjarni gagnrýndi þáttinn harðlega
Bjarni tjáði sig um þáttinn í Facebook-færslu í gærkvöld. Þar sagði hann þáttinn vera samfelldan áróður gegn íslensku krónunni. En krónuna segir hann vera einn grunninn að miklum hagvexti undanfarinn áratug. Sagði hann þáttinn hneyksli sem sliti margt úr eðlilegu samhengi og varpaði röngu ljósi á heildarmyndina.
„Í heildina skorti í þennan þátt allt jafnvægi, alla fagmennsku og yfirvegun í efnahagslega samhenginu. Það er hálf sorglegt að boðið sé upp á svona efni á Ríkisútvarpinu,“ sagði fyrrverandi fjármálaráðherrann á Facebook.
Hneyksli að ásaka fjölmiðil um áróður
Á þingfundi sagði Sigmar það vera hneyksli að ásaka fjölmiðil um áróður fyrir að vinna vinnuna sína. Sagði hann Bjarna ekki hafa bent á staðreyndarvillur í umfjöllun Kveiks og Bjarna bera mikla ábyrgð á „vaxtarbrjálæðinu sem núna er allt að drepa.“
Vísaði Sigmar til þess að í kjölfar efnahagshrunsins 2008 hefði Bjarni sjálfur haldið því fram að krónan hefði þá skuggahlið að vera sveifluvaldandi. Það gæti, að sögn Bjarna, ýtt undir óstöðugleika í hagkerfinu sem drægi úr trausti á því.
„Þegar nákvæmlega sömu sjónarmið og hans árið 2008 eru viðruð í gær af virtum hagfræðingum þá heitir það hneyksli og áróður gegn krónunni. Nýi Bjarni er sem sagt að gagnrýna gamla Bjarna fyrir áróður og er hneykslaður,“ sagði Sigmar.
Hann sagði Bjarna enn fremur viljandi gleyma að minnast á okurvexti og verðbólgu sem „alltaf er miklu hærri á Íslandi en annars staðar.“ Enn fremur gleymi Bjarni að nefna hagstjórnarmistök Sjálfstæðisflokksins sem felist í útgjaldaaukningunni.
„Það er ekki Kveiksþátturinn sem er hneyksli. Það er ábyrgðarflótti Sjálfstæðisflokksins sem er hneyksli,“ sagði Sigmar.
Athugasemdir (1)