„Guð má vita hvar
við höldum næstu jól“
Jólakveðjur óma í útvarpsútsendingunni í tölvunni til skiptis við lög með Sigurði Guðmundssyni, Þremur á palli og öðru góðu fólki. Ananasfrómasinn er tilbúinn samkvæmt uppskrift tengdaömmu, síðustu jólagjöfunum hefur verið pakkað inn þegar börnin eru loksins sofnuð, náttfötin frá Kertasníki bíða þess að öruggt sé fyrir hann að koma þeim fyrir í skónum í gluggakistum dætranna og íbúðin er eins vel þrifin og við höfum orku til og nennum. Gjafirnar liggja undir trénu, jólaskreytingunum hefur verið dreift um íbúðina alla og, eins og fyrir lítið jólakraftaverk, snjóar rólega stórum flygsum – svo þetta verða hvít jól þrátt fyrir allt.
Að mestu leyti er lítill munur á þessu Þorláksmessukvöldi okkar hér í Svíþjóð og þeim Þorláksmessukvöldum sem ég ímynda mér að við ættum ef við byggjum á Íslandi; vissulega enginn pakkarúntur eða rölt um Laugaveg, en innan veggja heimilisins væru hlutirnir líklegast svipaðir. Ég held þó að ég muni aldrei hætta að sakna friðargöngunnar á Þorláksmessu. Það er engin minning jólalegri í heiminum en af mannsöfnuði sem tók feimnislega undir með Hamrahlíðarkórnum í Heims um ból og maður:
(…) heyrði lágt
hljóð sem steig
upp í loftið blátt…
í fyrstu veikt…
síðan voldugt og hátt…
Á eldhúsborðinu fyrir framan mig liggur blaðsíða 48D úr Mogganum frá laugardeginum 30. nóvember 2002. Tengdamamma sendi okkur sérblað Moggans ásamt ýmsu öðru fyrir fyrstu jólin okkar erlendis og þessi úrklippa er tekin fram á hverju ári þegar við erum í eldhúsinu „eitthvað að fást við mat“. Efst á síðunni stendur „Haldið fast í jólahefðirnar“ en á henni má finna stuttar uppskriftir að þessum klassísku réttum sem tengjast íslenskum jólum. Til dæmis: „Hefðbundnar rjúpur“, „Hefðbundinn hamborgarhryggur“, hangikjöt, heimalagaðan rjómaís og „Rauðvíns-sérrí-soðnar perur“ út á Ris á la Malta.
Fyrirsögn síðunnar „Haldið fast í jólahefðirnar“ má lesa á tvenna vegu. Annars vegar sem lýsingu á því sem fólk gerir – að halda fast í jólahefðirnar (gegnum matinn). Á hinn bóginn má lesa fyrirsögnina í boðhætti, sem einskonar normatíva hvatningu til fólks að viðhalda matarhefðum sem í raun eru samblanda gamalla íslenskra hefða og gamalla danskra uppskriftabóka.
Þegar maður er búsettur erlendis er viðhaldi hefðanna hinsvegar sett mörk á ýmsa vegu, bæði hvað varðar venjur og mat. Mest af öllu og lengst af saknaði ég laufabrauðsgerðarinnar hjá ömmum mínum. Frændfólkið safnaðist saman og skar kökur með vasahnífum í listaverk sem hvöttu okkur yngri kynslóðina til að nostra við okkar kökur eins vel og hægt var. Ógurlegu magni af kökum var svo safnað saman á lak inni á stofusófanum og spilamennska hafin meðan steikingarvinnan átti sér stað. Aðfangadagur og áramót í faðmi fjölskyldunnar, sem og spilamennska jóladags og nýársdags eru venjur sem við söknum líka.
Jólamat mæðra okkar var auðvitað ómögulegt að fá sendan, svo við verðum okkur að verða okkur út um hangikjötsflís og verslum reykta og saltaða jólaskinku sem dugar sem hamborgarhryggur ef maður lokar augunum og hefur nóg af sósu. Að klúðra karamelliseringu kartaflanna er svo okkar eigin hefð. Tvenn jól hef ég meira að segja setið með vísifingur í ísköldu vatni því ég hafði athugað hvort sykurinn væri orðinn nógu heitur – atvik sem ég tel oft upp sem sönnun fyrir því að maður þurfi ekki að vera neitt voðalega klár til að næla sér í doktorsgráðu.
Jólahefðirnar eru oftast markaðar minningum æskunnar. Við hjónin erum bæði svo heppin að eiga ljúfar jólaminningar ef foreldrum sem settu upplifun barnanna í forgrunn. Tónlist, samvera, jólaskraut, samstarf, gjafir, jólabíómyndir, bakstur og sælgæti, pakkarúntar, heimsóknir og allur þessi matur. Róleg aðfangadagskvöld með þeim nánustu, vakað fram á nætur kvöld eftir kvöld, spenna, gjafmildi og þakklæti. Það er ekki öllum gefið að geta hugsað til jóla barnæskunnar með hlýju, hvað þá á þann háttinn að þau vilji tína úr þeim minningar og hefðir til að viðhalda á sínum fullorðinsárum. Í okkar tilfelli hafa minningarnar dugað okkur allt lífið og móta okkur enn.
Við fórum ekki til Íslands um jól né áramót fyrstu átta árin okkar í Svíþjóð, við vorum of upptekin við að aðlaga gamlar hefðir að nýju lífi sem og af því að smíða eigin hefðir. Svo eignuðumst við börn og þá fórum við að „fara heim“, oftast yfir annað hvort áramót eða jól en einstöku sinnum bæði. Muninum á heimfararjólum og jólum heima má best lýsa með að við þurfum oft viku til að jafna okkur eftir jól á Íslandi. Þeytingurinn og samskiptin við stóra hópa af mismunandi fólki er lýjandi til lengdar þótt það sé indælt, sérstaklega eftir að við urðum vön því að halda jólin algerlega á okkar forsendum úti. Samtímis virðist það nauðsynlegt að fara til Íslands, ekki síst barnanna vegna, að gefa þeim tækifæri til að skapa minningar um jól á Íslandi með ömmum og öfum, langömmum og langöfum, frænkum og frændum.
Og núna snúast jólin fyrst og fremst um börnin og ekki okkur foreldrin. Fyrir vikið eru jólin ekki lengur á okkar forsendum þótt við höfum ýmislegt um þau að segja. Við sköpum hefðir og viðhöldum þeim með dætrunum og fyrir dæturnar. Við fleygjum gömlum hefðum eða skiptum út, reynum að viðhalda afslappaðri stemningu þótt síðasti klukkutíminn fyrir mat sé alltaf eins og allsherjar brunaæfing (brunaæfing með brosi). Jólasveinarnir gera sér ferð milli landa og gefa ekki bara okkar börnum í skóinn heldur gauka líka smáræði að nánustu vinum þeirra. Aðfangadagur er með sænsku ívafi því við horfum á „Kalle Anka“ í sjónvarpinu klukkan 15 eftir að kveikt er á kertinu og áhorfendum óskað gleðilegra jóla og svo eru klukkurnar látnar glymja í hljómtækjunum klukkan 19.00 að okkar tíma svo við setjumst niður til kvöldverðar á svipuðum tíma og okkar fólk á Íslandi. Þessi trúlausa fjölskylda hlustar svo á messuna meðan borðað er, eins og vera ber.
Við höldum fast í jólahefðirnar eins og Mogginn hvatti okkur til fyrir rúmum 20 jólum síðan, sumar þeirra að minnsta kosti. Restina smíðum við fjölskyldan saman með markmiðið að skapa minningar sem duga tveimur ungum manneskjum heila lífstíð.
Minningar um jól í tveimur löndum,
því guð má vita hvar við höldum næstu jól.
Athugasemdir