Blóðmerahald er leyft á fjórum stöðum í heiminum: Kína, Argentínu, Úrúgvæ og Íslandi. Yfir átta vikna tímabil má vikulega taka fimm lítra af blóði úr fylfullum hryssum, samtals fjörutíu lítra. Úr blóðinu er unnið frjósemishormón sem er notað í dýraeldi.
Nýtt myndband svissnesk-þýskra dýraverndarsamtaka afhjúpar hræðilegt ofbeldi í íslensku blóðmerahaldi. Bændur sjást lemja dýrin, slá til þeirra með spýtum, sparka framan í þau, stinga 35 sinnum í leit að æð. Sambærilegt myndband var reyndar birt fyrir tveimur árum sem varð til þess að eftirlit með greininni var „aukið“. Afleiðingarnar virðast hins vegar ekki hafa orðið nokkrar.
Eftir að hafa lesið þessar fréttir og horft á myndbandið varð mér hugsað til ljóðs úr nýrri ljóðabók Gyrðis Elíassonar. Ljóðið heitir Heimspeki og hefst svona: „Descartes krufði lifandi dýr sér til / ánægju, og tróð vaxi í eyrun til að / heyra ekki vein þeirra“. Franski heimspekingurinn René Descartes trúði nefnilega ekki á þjáningu dýra. Hann taldi dýr vera vélræn. Öskur dýrs taldi hann sambærilegt ískri í vél sem þyrfti að smyrja. Það er napurlegt að hugsa til þess að sami heimspekingur sé oft kallaður „faðir nútímaheimspekinnar“, eða eins og Gyrðir yrkir: „Og þetta var maðurinn sem sagði: / „Ég hugsa, þess vegna er ég.“ / En hvað var hann eiginlega / að hugsa?“ Ljóðið spyr okkur þessarar áleitnu spurningar en vekur í leiðinni aðra spurningu: Hvað erum við að hugsa?
„Hvað erum við að hugsa?“
Í öllu falli er hollt að staldra stundum við og spyrja sig spurninga.
Ameríski rithöfundurinn og náttúruverndarsinninn Barry Lopez vildi reyndar meina að það væri eitt æðsta markmið menntunar: að fá nemendur til að líta í eigin barm og spyrja sig stórra spurninga. Hvað meina ég? Hvaða merkingu vil ég ljá lífi mínu?
Ég veit það ekki, en á meðan við sættum okkur við að einhver sparki framan í fylfulla hryssu, aftur og aftur, hljóma veinin í dýrunum eins og einlægasta svar okkar við þessum stóru spurningum.
Athugasemdir