Klukkan fjögur í nótt var birt tilkynning í Kauphöll Íslands um að Marel, næst verðmætasta félaginu í Kauphöll Íslands, hefði borist óskuldbindandi yfirlýsing varðandi mögulegt tilboð í öll hlutabréf í félaginu.
Í tilkynningunni kom ekki fram hver hafi sett fram þessa yfirlýsingu en þar sagði að henni fylgi „óafturkallanleg yfirlýsing Eyris Invest hf., eiganda 24,7 prósent hlutafjár í Marel, um samþykki Eyris Invest hf. verði tilboð lagt fram í tengslum við viljayfirlýsinguna.“ Eyrir Invest er langstæsti einstaki eigandi Marel.
Ekkert kemur fram um hvaða gengi hið óskuldbindandi yfirtökutilboð miðar við en markaðsvirði Marel í lok dags í gær var 264,5 milljarðar króna.
Í tilkynningunni sagði að Marel muni „fara yfir og meta framangreinda óskuldbindandi viljayfirlýsingu af kostgæfni með hliðsjón af langtímahagsmunum félagsins og allra hluthafa þess. Ekki liggur fyrir nein vissa um hvort umrædd yfirlýsing muni leiða til formlegs skuldbindandi yfirtökutilboðs, eða skilmála þess.“
Klukkan 10:20 birtist svo önnur tilkynning þar sem fram kemur að það sé John Bean Technologies Corporation (JBT), sem er stór alþjóðleg matvælaframleiðslusamstæða með höfuðstöðvar í Chicago í Bandaríkjunum, sem hafi lagt fram tilboðið. Þar kemur fram að um valfrjálst yfirtökutilboð sé að ræða sem „verði aðeins sent að undangenginni ásættanlegri niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og stjórnarsamþykki JBT.“
Þá kemur fram að mögulegt valfrjálst yfirtökutilboð JBT, þegar og ef það verður lagt fram, verði háð eftirfarandi fyrirvörum:
- Samþykki viðeigandi eftirlitsaðila
- Samþykki hluthafa JBT
- Að a.m.k. 90 prósent hluthafa Marel samþykki tilboðið
Dagslokagengi bréfa í Marel í gær var 350 krónur á hlut. Tilboð JBT er upp á 482 krónur á hlut, eða tæplega 38 prósent yfir dagslokagengi gærdagsins, fyrir allt útistandandi hlutafé í Marel. Tillaga JBT að verðmati er byggð á þeirri forsendu að útistandandi hlutir séu 754 milljónir og staða áhvílandi lána nemi 827 milljónum evra. Gengi bréfa í Marel hefur rokið upp í Kauphöllinni í morgun eftir tilkynningarnar, en sem stendur nemur hækkunin tæpum 29 prósentum.
Óskuldbindandi viljayfirlýsingin gerir ráð fyrir að 25 prósent af endurgjaldinu verði greitt með reiðufé og 75 prósent verði í formi hlutabréfa í JBT. „Það kemur jafnframt fram að hluthafar Marel muni eiga u.þ.b. 36 prósent af hlutum í JBT eftir möguleg viðskipti. Engar frekari upplýsingar koma fram eða liggja fyrir um gengi hluta í JBT eða hugsanlegt skiptigengi.“
Stríðið um Marel
Heimildin fjallaði ítarlega um stríðið sem geisar um yfirráð yfir Marel í síðustu viku. Þar kom meðal annars fram að feðgarnir Árni Oddur Þórðarson og Þórður Magnússon, sem eru stærstu eigendur Eyris Invest, teldu einn stærsta banka landsins, Arion banka, vera að reyna að tryggja Samherja og Stoðum yfirráð í Marel.
Liður í þeirri fléttu hefði verið að leysa til sín hluta af eign Árna Odds, sem er var forstjóri Marel í áratug en var knúinn til að segja af sér í byrjun mánaðar, í Eyri Invest. Ásakanir liggja fyrir gagnvart Arion banka þess efnis að bankinn hafi átt í samræðum við áðurnefnd fjárfestingarfélög um að kaupa þá hluti áður en gengið var frá veðkalli gagnvart Árna Oddi, en það var gert eftir að veðþekja lána hans fór undir 150 prósent. Arion banki hefur staðfastlega neitað því að hafa átt í slíkum samræðum, bæði fyrir og eftir að veðkallið var framkvæmt.
Þá hafa erlendir sjóðir verið að skoða það um tíma að taka yfir Marel. Ein þeirra leiða sem þeir hafa verið með til skoðunar er að reyna að kaupa hlut Eyris og annars stórs hluthafa og mynda með því yfirtökuskyldu í félaginu.
Þá hafði Árni Oddur átt í beinum viðræðum við stóran íslenskan aðila um aðkomu að Marel áður en að veðkallinu kom. Sá aðili er Samherja-samstæðan.
Við veðkallið fór hlutur feðganna í Eyri Invest – Þórður hafði lána hluta af sinni eign sem veð fyrir lánum Árna Odds – niður í 29 prósent en deilur standa um þau 9,3 prósent sem Arion banki segist halda á en hefur ekki gert upp við feðgana eins og lánasamningur og lög segja til um.
Sagði af sér og fór í greiðslustöðvun
Árni Oddur telur Arion banka ekki hafa hagað sér í góðri trú og telur sig hafa sett fram nægjanleg ný veð til að hafa staðið við þá lánasamninga sem bankinn ákvað að gjaldfella. Við það telur hann að veðþekjan hafi farið yfir 200 prósent, sem lánasamningurinn krafðist að hún yrði, og þar með gæti Arion banki ekki leyst til sín bréf hans. Bankinn var ósammála.
Í kjölfar veðkallsins sagði Árni Oddur af sér sem forstjóri Marel og bað um greiðslustöðvun. Í tilkynningu sagði Árni Oddur að greiðslustöðvunin væri vegna „þeirrar réttaróvissu sem skapast hefur vegna aðgerða Arion banka, sem leyst hefur til sín hluta hlutabréfa minna í Eyri Invest, leiðandi fjárfestis í Marel, þrátt fyrir að ákvæðum langtímalánasamnings við bankann hafi verið fullnægt.“
Greiðslustöðvun Árna Odds var fengin fram með dómsúrskurði. Hún var veitt til þriggja vikna og rennur því út 28. nóvember næstkomandi. Á þeim tíma verður kannað hvaða eignir séu til staðar hjá Árna Oddi og hvaða skuldir, og hvort eignirnar dugi fyrir skuldunum.
Athugasemdir