Þegar hún kemur inn í blóðtökubásinn, einu leiðina sem henni er fært að fara, er hurð á honum framanverðum ólæst. Hún ýtir við henni og opnar. Kemst samt hvergi því spýta hindrar útgöngu. Hún fer að stappa niður fótunum. Hrædd. Þá kemur hann að, maðurinn sem er að taka blóðsýnin, og sparkar í snoppuna á henni. Við höggið slær hún höfðinu upp í timburbita sem er ofan við hana í básnum.
Hún er líklega fylfull, í hópi svokallaðra blóðmera, og á þá væntanlega einnig stálpað folald sem lengir eftir móður sinni enda orðið viðskila við hana í aðgerð þeirri sem nú fer fram. Þetta er hennar hlutskipti í lífinu: Að vera rekin ásamt stóði annarra yfirleitt ótaminna mera og folalda inn í gerði og þaðan á þröngan bás. Að vera stungin í hálsinn, jafnvel margsinnis, af ónærgætni og lítilli ef nokkurri fagmennsku. Stundum með lítilli nál. Til að taka sýni. …
Athugasemdir (3)