Þegar venesúelski blaðamaðurinn og hælisleitandinn Isaac Rodríguez vaknaði á Íslandi í morgun var síminn hans fullur af skilaboðum. 180 af samlöndum hans hafði verið flogið úr landi og til Venesúela.
Á vellinum segir fólkið að lögreglan hafi tekið á móti þeim og að þau hafi verið færð í húsnæði þar sem þeim er gert að dvelja næstu tvo daga. Fólk úr hópnum hefur verið yfirheyrt ítrekað og þeim gert að skrifa undir fjölmörg skjöl án lögfræðiaðstoðar, samkvæmt upplýsingum sem Heimildin hefur fengið frá fólki á staðnum.
„Þau eru sökuð um að vera föðurlandssvikarar vegna þess að þau komu til Íslands og báðu um vernd,“ segir Isaac sem er sjálfur enn á Íslandi.
Væri skelfingu lostinn
Mál hans er á borði kærunefndar útlendingamála og því fór hann ekki úr landi í gær. En hann segist mjög áhyggjufullur eftir að hafa fengið fréttir af móttökum Venesúelabúa í heimalandinu í gær.
„Þetta er eins og martröð sem tekur engan enda,“ segir Isaac. „Lögreglumennirnir eru illir, það er eina lýsingin sem ég hef um þá. Ég væri skelfingu lostinn ef ég væri þarna yfir því sem þeir geta gert þér, sérstaklega ef þú ert hluti af viðkvæmum hópi og ert til dæmis samkynhneigður.“
„Ef allt fer á versta veg finnst mér ég alla vega hafa reynt að segja mína sögu“
Isaac er sjálfur samkynhneigður og vinur hans sem fór með vélinni í gær er einnig hluti af hinsegin samfélaginu.
Í nýlegum úrskurði kærunefndar útlendingamála segir að þrátt fyrir að stjórnarskrá Venesúela leggi bann við mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar verði hinsegin fólk fyrir mismunun á atvinnu- og leigumarkaði og í mennta- og heilbrigðiskerfinu. Jafnframt veigri fólk sem verður fyrir ofbeldi vegna kynhneigðar sinnar sér við því að leita sér aðstoðar vegna vantrausts í garð lögregluyfirvalda.
Hefur engu að tapa
Í nokkur ár veittu íslensk stjórnvöld nánast öllum þeim Venesúelabúum sem sóttu hér um hæli viðbótarvernd vegna slæmra aðstæðna í Venesúela. Fyrr á þessu ári staðfesti kærunefnd útlendingamála nokkra neikvæða úrskurði Útlendingastofnunar í málum Venesúelabúa.
Þessu hafa Venesúelabúar mótmælt harðlega enda eru aðstæðurnar í Venesúela enn mjög slæmar, glæpatíðnin þar er ein sú hæsta í heimi, fáir hafa aðgengi að heilbrigðisþjónustu og flestir almennir borgarar eiga erfitt með að mæta grunnþörfum sínum.
Fjöldi hælisumsókna venesúelskra ríkisborgara hér á landi hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum – þær fóru úr 14 árið 2018 í 1.209 í fyrra en frá janúar til september á þessu ári voru þær enn fleiri: 1.318. Eftir að kærunefnd útlendingamála staðfesti neikvæða úrskurði Útlendingastofnunar fór umsóknunum að fækka.
Venesúelsk stjórnvöld hafa á síðustu árum ofsótt pólitíska andstæðinga sína og fólk sem talað hefur gegn þeim.
Hvers vegna talar þú opinberlega um þetta?
„Það er góð spurning,“ segir Isaac. „Ég held að ég hafi engu að tapa. Ég er búinn að ganga í gegnum svo margt um ævina. Ef allt fer á versta veg finnst mér ég alla vega hafa reynt að segja mína sögu. Ég reyndi í það minnsta.“
Athugasemdir (1)