DJ Bambi
Kómík hversdagsleikans skín í gegnum fallegan og látlausan texta skrifaðan af hlýju og samkennd.
Auður Ava er með þekktari höfundum þjóðarinnar. Söguhetja níundu skáldsögu hennar er Logn, 61 árs gömul trans kona. Við hittum hana í Reykjavík þar sem hún býr og starfar en fáum að heyra af uppvaxtarárum hennar fyrir vestan og vegferð hennar hingað til, allt frá móðurkviði til kvenhormóna og biðinni löngu eftir leiðréttandi kynfæraaðgerð. Bókin hefst á könnunarferðum hennar meðfram strandlengju höfuðborgarinnar þar sem hún leitar að heppilegum stað til að ganga í sjóinn. Ákvörðunin er hversdagsleg og kómísk í því hvernig hún vill ekki að rúskinnskápa hennar skemmist. Logn vill samt ekki deyja fyrr en hún hefur leiðrétt „stærsta misskilning lífs“ síns, að hafa fæðst sem drengur. Hún finnur fyrir mikilli vanlíðan og kynama meðan hún bíður eftir aðgerðinni sem hún hefur beðið eftir í sex ár.
Ung að árum tekur Logn ákvörðun um að gefast upp á því að vera hún og verða bara strákur. Hún lærir fyrir það eins og leikari fyrir hlutverk eða nemandi fyrir próf. Les bækur, hermir eftir hegðun stráka og lærir allt um fótboltalið fyrir „strákaferð“ á fótboltaleik í Manchester, varð sérfræðingur í því að vera karlmaður. Hún finnur aðferðir til að lifa af.
DJ Bambi er nafnið sem Logn notaði þegar hún vann sem plötusnúður á hommabar meðfram háskólanámi, áður en hún kynntist Sonju, fyrrum eiginkonu sinni og barnsmóður. Upptök nafnsins koma frá Guðríði, móðurömmu Logns, sem kallaði hana það og Trausti tvíburabróðir hennar tók upp þráðinn þegar amma þeirra lést. Þau og Lovísa, kona Trausta, eru jafnframt þau einu sem virðast viðurkenna Logn, sem stendur annars utan fjölskyldunnar. Henni er ítrekað ekki boðið á fjölskyldusamkomur, sonur hennar vill ekki kalla hana mömmu, hún fær ekki að passa barnabarnið sitt. „Listi yfir þau sem hafa snúið baki við mér eftir að ég ákvað að standa með sjálfri mér: Systur mínar tvær. Mágar mínir. Frændfólk og hálfsystur fyrir vestan. Afkomendur Guðríðar ömmu. Tveir samstarfsmenn mínir sem kalla mig enn V.“
Auður hefur sagst skrifa gegn myrkrinu, hver bók sé eins og eldspýta til höfuðs þess. Hún vilji gefa þeim rödd sem hafi ekki rödd sjálfir til þess að leiðrétta einhverja skekkju í heiminum. Hér gefur hún Logni í vindasömum heimi orðið og heldur áfram rannsókn sinni á kynjaðri veröld. Í fjórðu skáldsögu Auðar, Undantekningunni, fer Flóki frá Maríu því hann er samkynhneigður. Hér fer Logn frá Sonju því hún er trans kona. Bæði áttu þau börn fyrir. Auður Ava skoðar mismunandi fjölskyldumynstur nútímans og skrifar nýjan hversdagsleika. Skrif hennar beina sjónum að samskiptum fólks og samskiptaleysi og í þeim má finna eins konar ferðasögur fólks sem leitar einna helst að sjálfu sér. Þannig snúast þau ekki í kringum stóra atburði, heldur er ljósinu beint að hinu hversdagslega og smáa og fegurð þess. Það er til að mynda fallegt að sjá hvernig Trausti passar upp á Logn og reynir að tjá að hann standi með henni, bæði því hann er maður fárra orða en líka því hann er 61 árs gamall maður að læra á raunveruleika sem hann reynir að laga sig að. „Ég hélt að bróðir minn væri hommi en ég hafði rangt fyrir mér [...] ég vissi ekki að þú vildir vera stelpa. Síðan þá hefur hann mátað ýmsar viðbætur þar til hann sagði loks, ég gerði mér ekki grein fyrir því að þú hefðir alltaf verið stelpa, Bambi.“ Auður Ava skrifar samband tvíburanna af raunverulegri hlýju og samkennd.
Í kaflanum „Hinn langi tími biðarinnar“ er sjónum beint að því hversu langt og óaðgengilegt kynleiðréttingarferlið er og í ljósi þess er mjög trúverðugt að við hittum söguhetjuna á heljarþröm. Fyrir utan biðina er áreitið sem trans einstaklingar verða fyrir gífurlegt. Hér gengur eldri maður upp að Logni og spyr hvort hún sé búin að „skera hann af“. Áreitið getur tekið á sig ýmsar myndir, eins og þegar formaður húsfélagsins spyr Logn hvort hún sé kona og segir að ekki allir í blokkinni hafi verið á sama máli um það. Logn minnist einnig á í framhjáhlaupi að það sé nokkuð langt síðan hún „lenti í því að vera lamin“.
Blaðakonan Auður T hefur samband því hún vill ræða við Logn „hvernig sé að vera elsta trans konan á landinu að bíða eftir aðgerð“. Það er skemmtilegt að Auður nefni blaðakonuna Auði T. Þar er þá á ferðinni eins konar Auður tvö, sem reynir að skrifa inni í bók Auðar Övu. Auðarnar tvær eru því með sama viðmælandann, eini munurinn er að Logn heldur hlutum frá Auði T. Eins og mannætublómið Auður tvö úr Litlu hryllingsbúðinni vill Auður T sífellt meira. Fyrst vill hún taka viðtal við Logn, því næst skrifa bók. Auður býður henni í ísbíltúra, smjaðrar fyrir henni og tekur jafnvel upp á því að mæta heim til hennar. Blaðamenn eru hliðverðir upplýsinga hins almenna borgara og Logn er tortryggin á hana. Spennan sem samband þeirra skapar innra með söguhetjunni skilaði sér ekki alltaf til mín, ég upplifði samskipti þeirra á milli frekar sem leið til þess að ýta sögunni áfram.
Bækur Auðar eru djúpur sjór að veiða úr. Þær eru barmafullar af tilvísunum, táknum, myndum og mennsku. Hér, líkt og í öðrum skáldsögum Auðar, er sterk tenging við náttúruna, dýr og þá sérstaklega fugla. Mávaplága sækir á borgina en mávarnir trufla einnig sjálfsvígsplön söguhetjunnar. Stór ljósgrár mávur eltir Logn á röndum og kemur daglega á opnar svalir hennar. Mávastellið, erfðagripur og stöðutákn íslenskra kvenna í gegnum árin, kemur einnig við sögu. Auður kemur inn á alls kyns málefni sem eru ofarlega á baugi, svo sem stríð, bankamenn sem misnota aðstöðu sína, efnahagsástandið og áhrif þess á íbúðarverð. Hún hendir inn gagnrýni á olíuframleiðendur og áhrif hlýnunar jarðar á máva. Auður nær að lauma upplýsingum og gagnrýni til lesenda í gegnum fallegan og hversdagslegan en líka húmorískan texta. Sagan er að mörgu leyti látlaus en efni hennar vegur þungt þar sem við höktum með Logni í biðinni. Bókin er skrifuð á mikilvægum tíma þar sem mikið bakslag er í viðhorfi til lgbtq+ fólks. Gelt er á fólk á götum úti og ofbeldisglæpir orðnir daglegt brauð og ekki bara í útlöndum.
Athugasemdir