„Þetta gekk rosalega vel fyrir sig,“ segir Sólveig Jónsdóttir, íbúi á Þorkötlustöðum 3 í Grindavík, ein þeirra sem fékk að fara á heimilið sitt í nokkrar mínútur í dag í fylgd björgunarsveitarfólks til að sækja nauðsynjar.
Hún hefur í tvo áratugi búið í þessu húsi, ásamt eiginkonu sinni Önnu Sigríði Sigurjónsdóttur. Íbúar Þorkötlustaðahverfis voru þeir einu sem fengu að fara heim í dag, en heimilin þar eru innan við tuttugu.
Íbúar keyrðu inn á söfnunarsvæði við bílastæðið við Fagradalsfjall. Þar fékk fólk far með björgunarsveitarbílum inn í hverfið og fékk fylgd inn á heimili sitt. Miðað var við að ein manneskja frá hverju húsi færi inn með björgunarsveitarstarfsfólki og væri ekki lengur inni en í fimm mínútur.
Samhliða þessu var sérstök aðgerð í gangi til að sækja alla hesta í hestahverfinu norðan við Austurver. Á vettvangi mátti sjá jeppa með hestakerrur aka inn í hverfið í fylgd björgunarsveita og lögreglu. Sérsveitin var einnig á vettvangi.
Hræðileg reynsla
Sólveig segir þær Önnu í raun búa á besta stað þegar kemur að jarðhræringunum og yfirvofandi eldgosi, Þórkötlustaðir eru yst í bænum, alveg niður við sjó. „Ég hef mikla samúð með fólkinu sem býr í hverfinu þar sem sprungan er,“ segir hún og vísar til stórrar og langrar sprungu sem hefur myndast í Grindavík vegna kvikuinnskotsins. Þórkötlustaðahverfi er aðeins utan við bæinn, eins konar þorp í þorpinu.
„Ég hef aldrei upplifað annað eins"
Þrátt fyrir að vera utan við mestu jarðhræringarnar var þeim hjónum afar brugðið á föstudag þegar stóru skjálftarnir byrjuðu að koma. „Ég hef aldrei upplifað annað eins. Enginn sem ekki var þarna getur sett sig í þessi spor. Þetta var hræðilegt,“ segir Sólveig.
Þær Anna byrjuðu strax að pakka; settu í bílinn útilegugræjur, hlýjar úlpur, skíði. „Svolítið eins og við værum að fara í frí. Ég reyndi að elda en það lék allt á reiðiskjálfi. Ég gubbaði bara,“ segir hún um þessa erfiðu reynslu.
Sólveig er leiðsögumaður, strætóbílstjóri og ljósmyndari, og lagði hún áherslu á að taka ljósmyndirnar sínar með sér. „Ég tók einn kassa af myndum frá því í gamla daga, eitthvað frá mömmu, eitthvað frá ömmu, nokkra minnislykla. Ég fann þá samt ekki alla. Við vorum nýbúnar að pakka öllum skóm í kassa því við vorum að fá okkur hvolp, og í staðinn fyrir að gramsa í kassanum tókum við hann bara með.“
Samstaða og hlýja meðal bæjarbúa
Mikil samstaða og mikil samskipti erum milli þeirra sem búa í Grindavík, ekki síst nú á þessum erfiðu tímum. Sólveig segist á föstudag hafa hringt í 88 ára nágrannakonu sína og boðið henni far en þá hafi barnabarn hennar verið búið að segjast ætla að sækja hana. „Við kíkjum alltaf á hana annað slagið,“ segir Sólveig.
Þær Anna horfðu á sjónvarpsfréttatímann klukkan sjö og voru lagðar af stað til Kópavogs klukkan hálf átta, þar sem æskuvinkona Sólveigar, sem hún raunar kallar systur sína, tók á móti þeim. Til að forðast grjóthrun fóru þær Reykjaneshringinn.
Anna er í Björgunarsveitinni Þorbirni og sneri hún því síðan til baka til að hjálpa til við rýminguna en þá voru flestir farnir. Hvolpurinn þeirra hafði farið með þeim í fyrstu ferð en Anna fann síðan köttinn þeirra þegar hún kom aftur og fór með hann í Kópavog. Öll dýrin þeirra eru því komin í skjól.
„Aumingja maðurinn sem var með mér í bíl. Við vorum að leita að kettinum hans en hann fannst ekki"
Samferða þeim í bílnum i dag til að sækja nauðsynjar var eldri nágranni. „Aumingja maðurinn sem var með mér í bíl. Við vorum að leita að kettinum hans en hann fannst ekki,“ segir hún en fjölmörg gæludýr og húsdýr eru enn á svæðinu.
Ekki liggur fyrir hvort eða hvenær mögulegt verður að fara í samskonar leiðangra í önnur hverfi.
Athugasemdir