Þessi grein birtist fyrir meira en mánuði.

„Við ætlum okkur áfram til sigurs“

Fjöl­mennt var á bar­áttufundi kenn­ara í Há­skóla­bíói í lið­inni viku. Formað­ur Fé­lags kenn­ara Mennta­skól­ans í Reykja­vík seg­ir sam­stöð­una með­al kenn­ara mikla og er sann­færð­ur um að þeir muni ná fram kröf­um sín­um á end­an­um.

„Við ætlum okkur áfram til sigurs“
Baráttufundur Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambandsins, ávarpaði kennara á baráttufundi í Háskólabíó. Mikilvægast er að fjárfesta í kennurum eru hans helstu skilaboð. Mynd: Golli

Í vikunni héldu kennarar fjölmennan baráttufund í Háskólabíói.  Þar ályktaði Kennarasamband Íslands að því blöskraði afstaða viðsemjenda sinna í kjaradeilunni og að það tæki undir með áhyggjum foreldra og nemenda af stöðu mála. Þá var þess krafist að íslensk stjórnvöld tryggðu að laun félagsfólks stæðust samanburð við laun háskólamenntaðra sérfræðinga á almennum markaði. 

Enginn sé að leika sér

Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir í samtali við Heimildina að með fundinum sé reynt að ná fram sýnileika og samstöðu kennarastéttarinnar. „Ég held að það sé meginmarkmið hérna og reyna að koma skilaboðum á framfæri, sem formaður fer með í ræðu sinni.“

Hann kveðst ánægður með mætinguna. „Við erum þvílíkt stolt af þessu. Það er gleði og barátta í loftinu.“ Aðspurður segir Guðjón Hreinn viðbrögð samfélagsins við þeim verkföllum sem hófust í síðustu viku skiljanleg. „Þetta er eðli verkfalla. Þannig virka þau. Það er enginn að leika sér. Þetta er það sem við þurfum að gera.“ 

Verkföll hófust í níu skólum þann 29. október. Þá hafa verkföll verið boðuð í fjórum skólum til viðbótar síðar í þessum mánuði. Einn þeirra er Menntaskólinn í Reykjavík, sem mun fara í verkfall frá og með 18. nóvember.

Samstaðan sterkasta vopnið

„Það er rosaleg stemning. Samstaðan er algjör,“ segir Guðjón Ragnar Jónasson, formaður Félags kennara Menntaskólans í Reykjavík, í samtali við Heimildina. Hann segir að í MR standi kennararnir saman sem einn maður. „Við erum afskaplega stolt af okkar fólki. Við ætlum okkur áfram til sigurs.“

Þannig að það eru allir sáttir með framgang mála?

„Það er mikil samstaða í kennurum,“ segir Guðjón Ragnar. „Hún hefur aukist og það er vaxandi þungi. Við getum alveg búist við hörðum átökum – og þetta verður kannski tónninn næstu árin.“

Þegar talið berst að því hverju baráttufundurinn leitist við að ná fram segir Guðjón Ragnar að verkföll séu erfið og þess vegna sé mikilvægt að fólk standi þétt saman. „Það er erfitt að fara í verkfall, það er ekki einfalt. Það er víða sótt að okkur. Við þurfum að standa mjög fast í lappirnar og samstaðan er okkar sterkasta vopn.“

ValdhafiLítið var um valdhafa á fremsta bekk á baráttufundi kennara í Háskólabíó í vikunni. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, lét sig þó ekki vanta.

Léleg kjör ekki í genum íslenskra kennara

Spurður nánar út í hvaðan sótt sé að kennurum segir Guðjón Ragnar að hagsmunaaðilar líkt og Viðskiptaráð Íslands tali gegn þeim. „Það er svolítið eins og það eigi að vera í genamengi Íslendinga að kennarar eigi að hafa lágt kaup. En genamengi íslenskra kennara er ekki að sætta sig við léleg kjör.“

Honum þykja þó viðbrögð samfélagsins við verkföllunum sem hófust í síðustu viku sumpart jákvæðari en hann hefur upplifað áður. „Þetta er þriðja verkfallið sem ég er að fara í og mér finnst við eiga fleiri talsmenn núna, sérstaklega meðal ungs fólks. Ég finn víða fyrir stuðningi og við munum ekki gefast upp. Við eigum sterka verkfallssjóði og ég vænti þess að félagar okkar í nágrannalöndunum muni styrkja okkur líka.“

Guðjón Ragnar kveðst sannfærður um að kennarar muni ná fram kröfum sínum á endanum. „Það er kennaraskortur og þetta tekur tíma og við þurfum bara að standa saman sem einn maður. Ef við eigum að fá ungt fólk til að koma í kennslu þá skiptir það miklu máli. Þá skiptir það öllu máli.“

Heldurðu að þetta verði fyrsti og eini baráttufundurinn?

„Nei! Þeir verða mýmargir,“ segir Guðjón Ragnar og skellir upp úr. 

Kjósa
2
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár