Hafiði komið til Krítar? Skoðað völundarhúsið í Knossos? Virt fyrir ykkur hinar stórkostlegu myndir af unga fólkinu sem gerir sér leik að því að fara á handahlaupum um bakið á tröllauknu nauti? Og hafiði velt fyrir ykkur með trega örlögum þeirrar mínósku menningar á Krít sem eyddist í einu vetfangi fyrir 3.600 árum þegar eldfjall á nálægri eyju bókstaflega sprakk í loft upp og gróf Knossos í gosösku eftir að ógnarleg flóðbylgja hafði fyrst brotið hallirnar og völundarhúsið í spón?
Já, þetta grunaði mig. Þótt víst hafi ekki allir komið í holdinu til Krítar hljóta allir að hafa hugleitt og harmað hin sviplegu örlög þeirra ótrúlegu menningar sem þar þreifst. Og hvort hin ótrúlega menning Forn-Grikkja hefði máske risið þúsund árum fyrr en ella ef ekkert eldgos hefði orðið og íbúar Krítar ekki allir dáið eða hrakist örsnauðir lúbarðir burt frá hrundum föllnum heimkynnum.
Og sagan öll orðið allt öðruvísi …
Athugasemdir (1)