Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Barokkbandið Brák og Herdís Anna

„Mik­ið væri nú gam­an að fara að fá heila barokkóperu setta upp hér á landi, svo sann­ar­lega vant­ar ekki mann­skap­inn til þess.“ Tón­list­ar­gagn­rýn­and­inn Arn­dís Björk Ás­geirs­dótt­ir skellti sér í Norð­ur­ljósa­sal­inn í Hörpu og hlýddi á Her­dísi Önnu Jón­as­dótt­ur sópr­an með barokk­band­inu Brák.

Barokkbandið Brák og Herdís Anna
Herdís Anna og Brák. Ljósmynd: Arndís B. Ásgeirsdóttir.
Tónleikar

Brák og Anna

Niðurstaða:

Sígildir sunnudagar – Furie Terribili, Harpa Norðurljós 5. nóvemeber 2023, Herdís Anna Jónasdóttir sópran, Barokkbandið Brák.

Gefðu umsögn

Barokkbandið Brák er tæplega tíu ára gamall tónlistarhópur, sem frá upphafi hefur haft það að leiðarljósi að glæða lífi í barokktónlist á Íslandi og flytja hana á upprunahljóðfæri, enda hafa meðlimir Brákar allir sérhæft sig í flutningi á upprunahljóðfæri. Leiðari hópsins er Elfa Rún Kristinsdóttir fiðluleikari, sem veit nú sitthvað um flutning á barokktónlist en eins og margir muna þá bar hún sigur úr býtum í alþjóðlegu Bach-keppninni í Leipzig árið 2006.

Það má sannarlega segja að bandinu hafi tekist ætlunarverk sitt því Brák hefur haldið marga eftirminnilega tónleika með spennandi efnisskrám. Það er í stóra samhenginu ekki langur tími sem liðinn er frá því að hlustendur voru vanari því að heyra barokk og endurreisnartónlist flutta á nútíma hljóðfæri og þó það vissulega hafi tekið sinn tíma að venjast því er nú svo komið að flestir kjósa það yfir hitt með örfáum undantekningum þó. Í bland við barokkið hefur Brák svo einbeitt sér að flutningi nýrra íslenskra verka og hafa þó nokkur verk verið sérstaklega skrifuð fyrir hópinn.

Frábært vald Herdísar Önnu

Efnisskrá tónleikanna í Norðurljósum 5. nóvember sl. var því mjög í anda barokkbandsins því þar mátti finna kafla úr svítum og sónötum eftir barokktónskáld í bland við fjórar glæsiaríur úr óperum eftir Georg Friedrich Händel og verk eftir Báru Gísladóttur. Tónleikarnir hófust á Forleik að svítu í B dúr eftir Georg Philipp Telemann og var flutningur hennar alveg prýðilegur, hendingamótun skýr og flæðið fallegt. Herdís Anna Jónasdóttir hóf því næst upp raust sína í fyrstu aríu efnisskrárinnar, aríu Ginevru, Volate, amore úr óperunni Ariodante, sem byggð er á ljóðinu Orlando Furioso (brjálæði Orlandos) eftir Ludovico Ariosto.

Herdís Anna hefur lengi verið í fremstu röð íslenskra söngkvenna og sýndi með flutningi sínum á þessari aríu að það er hreint engin tilviljun. Fyrir utan raddhæðina hefur hún frábært vald á þeirri tækni sem þarf til að syngja þessa tónlist, með öllu sínu flúri, skreytingum, löngu frösum sem enda með því að gefið er í og þá er nú eins gott að hafa góðan þindarstuðning. Tveir kaflar úr tríósónötu eftir Johannes Schenk hljómuðu fallega eins og millispil fyrir næstu aríu Piangero, la sorte mia úr óperunni Giulio Cesare, einnig eftir Händel, þar sem Kleópatra drottning harmar hlutskipti sitt þar sem bróðir hennar hefur látið fangelsa hana og hún lætur sig dreyma um það hvernig hún muni ásækja hann ef hún deyr. Það var unun að hlýða á flutning þessarar aríu sem Herdís Anna og Brák fluttu af mikilli næmni. 

Uppbrot um miðja tónleika

Verk Báru Gísladóttur, Split thee, soul, to Splendid Bits (attn.: no eternal life/light this time around) kom eins og uppbrot um miðja tónleikana. Verkið var skrifað að beiðni tónlistarhópsins Nordic Affect árið 2018, sem líkt og Brák sérhæfir sig í upprunaflutningi og flutningi á nýjum verkum. Verkið skiptist í fimm kafla auk prelúdíu og millispils án hlés og er hver kafli tileinkaður persónu eða atburði sem sett eru í eins konar trúarlegan rússíbana fyrir trúleysingja, eða svo segir Bára um verk sitt. Þessar upplýsingar komu ekki fram í tónleikaskrá en tónleikagestir fengu eingöngu blað með titlum verkanna á efnisskránni. Ég veit ekki hvort það hefði bætt einhverju við upplifunina að hafa þessar upplýsingar fyrir fram en verkið kom rækilega á óvart, sérstaklega þó meðhöndlun sembalsins, en á hann var ekki slegin ein einasta nóta að mér sýndist, heldur lék Halldór Bjarki Arnarson á strengi hans, strauk þá með fingrum eða renndi strengjum eftir strengjum svo útkoman var langur syngjandi tónn, ólíkur þeim hljómi sem sembalinn gefur venjulega frá sér. Hann var í raun notaður sem fjórða strengjahljóðfærið. Hin strengjahljóðfærin, fiðla, víóla og selló, tókust á við alls kyns flaututóna, gliss og sarg (ekki illa meint) og andrúmsloftið var órætt.

Ég get ímyndað mér að það sé flókið að leika þetta verk eftir að hafa skoðað nótur af því sem ég fann á netinu en flutningur Brákar var mjög sannfærandi og eftirminnilegur. Sónatan í c-moll eftir Johann Georg Pisendel (samtímamann Bachs) hljómaði á sama hátt en þó allt annan, sannfærandi með dúnmjúkum strengjum og fallegri dýnamík. 

Væri gaman að fá heila barokkóperu

Aftur tókst flytjendum að koma tónleikagestum á óvart, því næsta verk á efnisskránni, arían Furie terribili úr óperunni Rinaldo eftir Händel, þangað sem tónleikarnir sóttu titil sinn, hófst með háværum þrumum frá upphengdri járnplötu sem komið hafði verið fyrir fyrir aftan tónleikagesti. Þetta slagverkshljóðfæri er vel þekkt og einmitt helst notað þegar þarf að búa til þrumuveður eins og í þessari aríu þar sem galdrakvendið Armida kemur af himni og kallar refsinornirnar til liðs við sig. Flutningur aríunnar litaðist því miður of mikið af þessum þrumum sem héldu áfram út verkið en það gerði það að verkum að tónlistin fór eiginlega fyrir ofan garð og neðan þar sem járnplatan var höfð allt of nálægt tónleikagestum og virkaði því frekar eins og háværar byggingaframkvæmdir. Betur hefði farið á að stilla því upp bak við skilrúm fjær tónleikagestum eða jafnvel baksviðs.

Sónata Händels í B dúr HWV 288, sem leikin var þvínæst var geysilega fallega flutt og átti Elfa Rún ekki síst þáttinn í því með stórkostlegum virtúósískum einleikskafla í lokaþættinum.

Lokaarían var Da tempeste, úr Giulio Cesare, þar sem sópraninn fær heldur betur efni að moða úr og stóð Herdís Anna sannarlega undir öllum þeim kröfum sem gerðar eru til einsöngvarans og var það afar glæsilegur endir á þessum fínu tónleikum. Mikið væri nú gaman að fara að fá heila barokkóperu setta upp hér á landi, svo sannarlega vantar ekki mannskapinn til þess og ég veit að margir myndu fagna því framtaki.

Kjósa
6
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Bannaður á leigubílastæðinu fyrir að leggja starfsfólk Isavia í einelti
2
Fréttir

Bann­að­ur á leigu­bíla­stæð­inu fyr­ir að leggja starfs­fólk Isa­via í einelti

Isa­via seg­ir leigu­bíl­stjóra, sér­stak­lega virk­an á sam­fé­lags­miðl­um, hafa lagt starfs­fólk flug­vall­ar­ins í einelti – með­al ann­ars með ásök­un­um í garð þess og nafn­birt­ing­um á net­inu. Hann hafi ver­ið sett­ur í ótíma­bund­ið bann vegna ógn­andi og óvið­eig­andi fram­komu. „Þetta er nátt­úr­lega óþægi­legt að mæta í vinn­una og verða svo fyr­ir áreiti,“ seg­ir einn starfs­mað­ur við Heim­ild­ina.

Mest lesið í mánuðinum

Hefði ekki dottið í hug að ráða sjálfan sig
2
Viðtal

Hefði ekki dott­ið í hug að ráða sjálf­an sig

Bogi Ág­ústs­son hef­ur birst lands­mönn­um á skján­um í yf­ir fjóra ára­tugi og flutt Ís­lend­ing­um frétt­ir í blíðu og stríðu. Hann seg­ir heim­inn hafa breyst ótrú­lega mik­ið til batn­að­ar á þess­um ár­um en því mið­ur halli á ógæfu­hlið­ina í rekstri fjöl­miðla á Ís­landi. Af öll­um þeim at­burð­um sem hann hef­ur sagt frétt­ir af lögð­ust snjóflóð­in fyr­ir vest­an ár­ið 1995 þyngst á hann. Enn þann dag í dag man hann hvernig var að þurfa að lesa upp nöfn þeirra sem dóu í flóð­inu á Flat­eyri.
„Ég var bara glæpamaður“
3
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Hver er Jón Óttar? - „Ég hef sjálfur fylgst með fólki mánuðum saman“
4
Fréttir

Hver er Jón Ótt­ar? - „Ég hef sjálf­ur fylgst með fólki mán­uð­um sam­an“

Jón Ótt­ar Ólafs­son, einn þeirra sem stund­aði njósn­ir fyr­ir Björgólf Thor Björgólfs­son ár­ið 2012, gaf út glæpa­sögu ári síð­ar þar sem að­al­sögu­hetj­an er lög­reglu­mað­ur sem stund­ar hler­an­ir. Jón Ótt­ar vann lengi fyr­ir Sam­herja, bæði á Ís­landi og í Namib­íu, en áð­ur hafi hann ver­ið kærð­ur af sér­stök­um sak­sókn­ara, sem hann starf­aði fyr­ir, vegna gruns um að stela gögn­um.
Bannaður á leigubílastæðinu fyrir að leggja starfsfólk Isavia í einelti
6
Fréttir

Bann­að­ur á leigu­bíla­stæð­inu fyr­ir að leggja starfs­fólk Isa­via í einelti

Isa­via seg­ir leigu­bíl­stjóra, sér­stak­lega virk­an á sam­fé­lags­miðl­um, hafa lagt starfs­fólk flug­vall­ar­ins í einelti – með­al ann­ars með ásök­un­um í garð þess og nafn­birt­ing­um á net­inu. Hann hafi ver­ið sett­ur í ótíma­bund­ið bann vegna ógn­andi og óvið­eig­andi fram­komu. „Þetta er nátt­úr­lega óþægi­legt að mæta í vinn­una og verða svo fyr­ir áreiti,“ seg­ir einn starfs­mað­ur við Heim­ild­ina.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu