Vinur minn er íslenskur ríkisborgari en á konu og þrjá litla stráka sem eru enn á Gaza. Hann bíður fjölskyldusameiningar. Búinn að bíða síðan í maí. Hefur ekki hitt fjölskylduna í fimm ár. Aldrei hitt yngsta strákinn sem er fimm ára.
Þau eru flúin til Suður-Gaza þar sem öryggið er ekkert. Ísraelski herinn breytti húsinu þeirra í ryk. Þau hafast við í húsi sem er ekki með gluggum eða hurðum. Þora ekki að kveikja á símanum af ótta við að ljósið sjáist og að næstu sprengju verði beint að þeim. Stundum heyrir vinur minn ekki frá fjölskyldu sinni í nokkra sólarhringa. Gerir alltaf ráð fyrir því versta.
Íslenskum ríkisborgurum í Ísrael var flogið heim um leið og átökin hófust, en þessir tilvonandi íslensku ríkisborgarar eru enn föst í útrýmingabúðunum Gaza. Útlendingastofnun segist ekkert geta gert.
Auschwitz. Bergen-Belsen. Dachau. Gaza.
Hvað gerðir þú á meðan heimsbyggðin horfði á þjóðarmorð?
Þegar konan mín þarf að fara út á kvöldin verður átta ára dóttir okkar stundum hrædd. Segist sakna mömmu þó hún sé rétt ný farin út. Ég hugga hana og segi að mamma verði komin þegar hún vaknar. Kyssi hana góða nótt, sest niður og horfi á myndband af átta ára palestínskri stúlku þegar hún sér lík móður sinnar. Uppgötvar að hún sé látin. Vill komast að líkinu. Faðma það. Er stöðvuð. Brotnar niður. Faðir hennar sest við hliðina á henni máttvana og grætur. „Mamma!“ orgar litla stelpan. „Ekki fara frá mér! Ég get ekki lifað án þín!“
„Átta ára sonur vinar míns frá Palestínu fer út á kvöldin til að safna eldivið svo fjölskyldan geti hitað sér mat. Hann hættir lífi sínu í þetta verkefni.“
Á kvöldin fer stundum ég með dóttur minni út í garð þar sem við kveikjum lítinn eld og hitum okkur sykurpúða. Hún verður svo spennt að ég þarf ítrekað að biðja hana að passa sig á eldinum þar sem hún valhoppar í kringum hann og svo brennir hún sig á tungunni því hún getur ekki beðið eftir því að sykurpúðarnir kólni. Átta ára sonur vinar míns frá Palestínu fer út á kvöldin til að safna eldivið svo fjölskyldan geti hitað sér mat. Hann hættir lífi sínu í þetta verkefni. Þetta þarf hann að gera vegna þess að búið er að loka fyrir rafmagn til Gaza. Og vatn. Og internet.
Á leiðinni ofan úr Mosfellsbæ sofnar fjögurra ára sonur minn í heitum bílnum eftir sundferð, langan dag og of mikinn ís hjá ömmu og afa. Þegar ég held á honum inn í rúm dangla handleggirnir máttvana meðfram litlum líkama hans. Ég klæði hann varlega úr, legg litla krullaða höfuðið hans á koddan og dreg sængina upp að höku. Í símanum stuttu seinna sé ég fullorðið fólk raða lífvana litlum líkömum í röð. Þeir eru þaktir blóði og ryki og máttvana hendur þeirra dangla þar til þau eru lögð á skítugt gólfið. Lak sem eitt sinn var hvítt er dregið yfir þau.
Hvar varst þú á meðan þjóðarmorðið var framið?
Hvað sagðir þú á meðan þjóðarmorðið var framið?
Hvað gerðir þú á meðan þjóðarmorðið var framið?
Á meðan palestínska þjóðin var þurrkuð af yfirborði jarðar?
Athugasemdir (2)