Ég þori! Ég get! Ég vil!
Falleg og fróðleg bók sem fangar vel kraft og mikilvægi kvennasamstöðu og Kvennafríið 1975.
Kvennafrídagurinn 24. október 1975 markar tímamót í Íslandssögunni og þótt víðar væri leitað. Hér rifjar Linda Ólafsdóttir upp kvennafrídaginn með því að móðir segir dóttur sinni frá því þegar hún fór með sinni mömmu í bæinn þennan dag, segir frá aðdragandanum, deginum sjálfum og síðast en ekki síst frá orkunni og samstöðunni sem sveif yfir öllu. Bókinni lýkur á því að móðir og dóttir fara út að viðhalda þeim baráttuanda sem kvennasamstaðan skapaði árið 1975. Vel er við hæfi að bókin kom út hér á landi 24. október síðastliðinn, þegar kvennafrídagsins var minnst með stórkostlegu kvennaverkfalli sem verður lengi í minnum haft.
Ég þori! Ég get! Ég vil! er ætluð yngstu lesendunum og því er hlutfall texta mun minna en mynda, myndirnar segja í raun söguna með smá skýringum í orðaformi. Teiknistíllinn er sá sami og í fyrri verkum Lindu, Íslandsbók barnanna og Reykjavík barnanna, sem hún samdi með Margréti Tryggvadóttur, myndirnar eru fjölbreyttar og á hverri síðu er eitthvað að skoða og spjalla um sem er ekki í textanum, hvort sem það eru myndir á veggjum, kröfuspjöld, gamaldags strætó eða ráðvilltir pabbar að skúra gólf og skipta um bleyju árið 1975.
„Krakkar munu gleypa í sig þessa fallegu og kröftugu bók og verða margs vísari.“
Bókin er einföld og aðgengileg en samt stútfull af fróðleik, myndirnar fyndnar, fallegar og spennandi að skoða og aftast eru nánari skýringar, ljósmyndir og ítarlegri texti fyrir þau sem eru lengra komin í lestri en líka til að svara spurningum forvitinna barna sem vilja vita meira þegar lestri bókarinnar er lokið.
Krakkar sem kannski áttu erfitt með að skilja af hverju það var frí í leikskólanum 24. október eða fengu að koma með í bæinn og upplifa samstöðumáttinn á Arnarhóli þennan dag munu gleypa í sig þessa fallegu og kröftugu bók og verða margs vísari.
Athugasemdir