Oriana Dasira Agudelo Pineda er 29 ára gömul. Hún hefur búið hér í tvö ár og er farin að tala svolitla íslensku. Hún hefur í eitt og hálft ár unnið í móttökunni á Keahótelinu Reykjavík Lights við Suðurlandsbraut. Oriana nýtur þess að segja erlendum gestum frá Íslandi, landi sem hún hefur heillast af. Gestir lýsa henni sem brosmildri og ótrúlega hjálpsamri. Á Íslandi á hún vini, vinnufélaga, móður, eldri systur, mág, systurson og systurdóttur.
„Þau eiga hjartað mitt,“ segir Oriana um börn systur sinnar, eins árs dreng sem er fæddur hér á landi og níu ára stúlku. „Mig langar alltaf að vinna í að verða betri og betri fyrirmynd fyrir þau.“
Ættingjarnir hafa allir fengið vernd hér á landi en ekki Oriana. Hún hefur verið hér í tvö ár en verndarbeiðni hennar var hafnað í fyrra og verður hún send með á annað hundrað öðrum venesúelskum ríkisborgurum til Venesúela – lands sem Útlendingastofnun hefur komist að niðurstöðu um að hún eigi á hættu að sæta illri meðferð í – í byrjun þessa mánaðar. Hún hefur ekki fengið nákvæma dagsetningu enn. Móðir hennar, Ana Pineda, harmar þessa niðurstöðu.
„Þetta er hræðilegt því að ég veit að hún er að snúa aftur í land sem er ekki öruggt,“ segir Ana. Það er þungi í röddinni.
Höfðu það gott í heimalandinu en svo var öllu kippt undan þeim
Þó að Oriana hafi ekki lifað í nema tæpa þrjá áratugi þá man hún eftir því að hafa upplifað öryggi í heimalandinu, að hafa átt nógu mikið á milli handanna til þess að geta keypt í matinn, skotist í bíó og farið í ferðalög.
„Við vorum ekki vön að setjast að í öðrum löndum,“ segir Oriana um þjóðina sína – Venesúelabúa. „Við vorum vön að geta ferðast til annarra landa og fara aftur heim því landið okkar er ofboðslega fallegt og svo ríkt af auðlindum.“
„Oriana lagði sig einstaklega mikið fram um að hjálpa okkur. Hún er yndisleg manneskja með stórt bros“
Annan júní árið 2010 lýsti Hugo Chávez, þáverandi forseti Venesúela, yfir „efnahagsstríði“ vegna sívaxandi skorts á nauðsynjum í landinu. Kreppan þar ágerðist eftir að Nicolás Maduro, núverandi forseti Venesúela, tók við stjórnartaumunum árið 2013 og varð jafnvel enn verri árið 2015 þegar verð fyrir olíu, aðalútflutningsvöru Venesúela, tók dýfu.
Þá var Oriana ekki nema rétt tvítug og fann vel fyrir því hvernig hennar fyrri lífsgæði hurfu. Hún lýsir lífinu eftir umskiptin þannig að hver dagur hafi snúist um það eitt að lifa af.
„Allt fór niður á við svo hratt að ég sá á mínum eigin launum hvernig þau fóru úr því að geta greitt fyrir ferðalag, kannski helgarferð á ströndina, og þar til að ég gat ekki keypt fötu af eggjum,“ segir Oriana sem byrjaði að vinna 14 ára gömul.
En það var ekki efnahagslega ástandið sem plagaði hana mest. Það var óöryggið, sífelldir glæpir og ofbeldisverk oft örvæntingarfulls fólks sem var orðið svo fátækt að það hafði engu að tapa.
„Ég átti vini sem voru drepnir fyrir skóna sem þeir voru í,“ segir Oriana. „Ég gat aldrei tekið símann minn með mér í háskólann því það var of hættulegt að fara með hann.“
„Þetta er hræðilegt því að ég veit að hún er að snúa aftur í land sem er ekki öruggt“
Samkvæmt skýrslum alþjóðlegra samtaka sem Útlendingastofnun hefur vísað í í sínum úrskurðum kemur fram að ofbeldi hafi lengi verið daglegt brauð í Venesúela og kom m.a. fram í skýrslu Hælisstofnun Evrópusambandsins (EASO) frá árinu 2020 að morðtíðni í Venesúela væri sú hæsta í Mið- og Suður Ameríku. Morðtíðnin var þá 45,6 morð á hverja 100.000 íbúa það árið en hún var 40,4 í fyrra. Ef slík tíðni væri heimfærð á íslenskt samfélag væru framin hér um 150 morð árlega.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í viðtali við RÚV fyrr á þessu ári að að meðaltali væru framin eitt til tvö morð hér á landi árlega.
„Ég var svo glöð að hafa dætur mínar tvær hjá mér“
Systir Oriönu flúði Venesúela fyrir fimm árum síðan með eiginmanni sínum og dóttur. Þau fengu alþjóðlega vernd skömmu eftir að þau sóttu um hana hér á Íslandi. Oriana og Ana móðir hennar byrjuðu að spara fyrir flugi til Íslands skömmu síðar. Ana kom hingað í ágúst árið 2021 en Oriana þurfti að bíða í nokkra mánuði eftir bólusetningu við Covid-19 og kom svo á eftir móður sinni í nóvember sama ár.
„Það var léttir að koma hingað,“ segir Oriana sem flutti inn til Önu til að byrja með. „Ég fékk að upplifa öryggi, hafði ekki sífellt áhyggjur af því að kannski væri hurðin ólæst.“
Ana var líka hæstánægð þegar hún sá dóttur sína loksins. „Ég var svo glöð að hafa dætur mínar tvær hjá mér.“
20% þjóðarinnar hafa farið frá Venesúela
Þegar Oriana kom til Íslands voru nokkuð margir Venesúelabúar þegar hér á landi. Ríflega sjö milljónir Venesúelabúar, 20% þjóðarinnar, hafa farið þaðan síðan árið 2014 samkvæmt Sameinuðu þjóðunum og er um að ræða einn umfangsmesta fólksflótta í heimssögunni. Langstærstur hluti fólksins, um sex milljónir manns, heldur til í öðrum löndum rómönsku ameríku eða Karíbahafinu. Verulegur fjöldi hefur einnig leitað til Bandaríkjanna.
Í Evrópu hefur verið langalgengast að Venesúelabúar leiti til Spánar, enda er þar talað sama tungumál og í Venesúela – spænska, og Þýskalands. Ísland hefur einnig verið mjög eftirsóttur áfangastaður fyrir Venesúelabúa í leit að hæli en líkleg ástæða fyrir þeim mikla fjölda sem hingað hefur sótt á síðustu árum er sú að frá 2018 til 2020 veitti Ísland öllum þeim sem hér sóttu um hæli svokallaða viðbótarvernd vegna slæmra aðstæðna í Venesúela.
„Allt fór niður á við svo hratt að ég sá á mínum eigin launum hvernig þau fóru úr því að geta greitt fyrir ferðalag, kannski helgarferð á ströndina, og þar til að ég gat ekki keypt fötu af eggjum“
Þegar Útlendingastofnun fór að neita fólki um vernd 2021 komst kærunefnd útlendingamála aftur og aftur að því að ekki ætti að senda venesúelska hælisleitendur úr landi, fremur ætti að veita þeim viðbótarvernd. Því má segja að frá 2018 og út árið 2021 hafi meira og minna allir venesúelskir sem hér sóttu um vernd fengið hæli. Þar sem Oriana kom hingað til lands árið 2021 bjóst Oriana við að fá hér að vera, en raunin varð önnur.
Í júnímánuði í fyrra kvað Útlendingastofnun upp sinn dóm.
„Ég þurfti að setjast niður. Mér leið eins og ég væri að fara að falla í yfirlið,“ segir Oriana um það þegar talsmaðurinn hennar færði henni fréttirnar um að beiðni hennar um hæli hafi verið hafnað. „Ég var ekki að búast við þessu.“
Útlendingastofnun komst að þeirri niðurstöðu að Oriana ætti hættu á illri meðferð í Venesúela. En það ætti hún ekki í Kólumbíu og því væri hægt að senda hana þangað, jafnvel þó að hún ætti á Íslandi bæði móður og systur.
„Jafnvel þó að hún væri lagamenntuð þá væri eðlilegt að hún héldi að umsóknin hennar væri góð. Þegar hún fær nei er sagt: „Því miður, þú veðjaðir á rangan hest – farðu heim“
Oriana er með tvöfalt ríkisfang en það eru móðir hennar og systir ekki með. Föðurafi Oriönu var fæddur og uppalinn í Kólumbíu en flúði til Venesúela þegar hann var táningur. Afinn lést áður en Oriana kom í heiminn en árið 2018, þegar ástandið var orðið mjög slæmt í Venesúela ákváðu hún og faðir hennar að fara til Kólumbíu og reyna að finna þar betra líf. Þau sóttu um og fengu kólumbískan ríkisborgararétt en það var engin ávísun á öryggi. Í Kólumbíu áttu feðginin ekkert bakland og fundu ekki löglega vinnu. Oriana endaði á að vinna í svarta hagkerfinu – á bar þar sem hún fékk greitt í reiðufé eftir hverja vakt. Barinn var ekki góður staður og þegar maður var myrtur þar ákvað Oriana að pakka saman föggum sínum og fara aftur til Venesúela.
„Þá var ástandið þar jafnvel verra en ég mundi eftir því,“ segir Oriana.
„Mamma mín gat ekki hætt að gráta“
Þegar hún fékk endanlega neitun um hæli hér á landi lok síðasta árs sagði lögreglan henni að senda ætti hana til Kólumbíu. En það gerðist aldrei. Svo Oriana hélt sínu lífi áfram, vann á hótelinu, borgaði sína skatta, bjó í sinni eigin leiguíbúð, varði tíma með fjölskyldu sinni. Hún fann sér lögmann til þess að kanna hvort það væri einhver möguleiki fyrir hana að fá að vera hér á landi með sinni nánustu fjölskyldu.
Hún og lögmaður hennar, Helgi Þorsteinsson Silva, gátu ekki sótt um tímabundið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar þar sem Oriana er eldri en 18 ára og yngri en 67 ára.
Önnur dvalarleyfi sem þau skoðuðu – til að mynda tímabundið atvinnuleyfi, sem er annað en bráðabirgðaatvinnuleyfið sem hún er með núna og rennur út fljótlega – stóðu henni ekki til boða vegna 51. greinar útlendingalaga sem segir til um að útlendingur þurfi að sækja um dvalarleyfi þegar hann er utan landsteinana. „Honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt,“ segir í lögunum.
Veðjaði á rangan hest og sagt að fara
„Ég myndi vilja að þarna væri einhver undantekning sem væri til dæmis sú að þú mættir sækja um þetta leyfi ef fyrri umsókn í góðri trú var hafnað,“ segir Helgi. „Eins og þarna, hún sótti um hæli og jafnvel þó að hún væri lagamenntuð þá væri eðlilegt að hún héldi að umsóknin hennar væri góð. Þegar hún fær nei er sagt: „Því miður, þú veðjaðir á rangan hest – farðu heim.“
Helgi telur að ef Oriana hefði sótt um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla hefði hún líklega fengið það þar sem meirihluti nánustu fjölskyldu hennar er búsettur hér á landi. Þá umsókn geta þau ekki lagt inn fyrr en Oriana er farin frá Íslandi.
„Hún er búin að skrifa undir slíka umsókn svo ég ætla að leggja hana inn í hólfið um leið og hún stígur upp í flugvél,“ segir Helgi.
Um miðjan október á þessu ári fékk Oriana svo nýjar fréttir frá Útlendingastofnun. Stofnunin hafði skipulagt leiguflug fyrir um 170 til 180 Venesúelabúa úr landi, til Venesúela.
Oriana herti upp hugann og bauð fjölskyldunni sinni í mat. Þar færði hún þeim fréttirnar.
„Mamma mín gat ekki hætt að gráta,“ segir Oriana. „Við vissum öll að þetta myndi gerast en það voru samt ofboðsleg vonbrigði.“
Hjálpar erlendum ferðamönnum en fær ekki hjálp frá íslenskum stjórnvöldum
Þrátt fyrir allt þetta er Oriana ekki búin að gefa upp vonina um að fá einn daginn að búa á Íslandi með fjölskyldu sinni: Móðurinni, systurinni og þeim sem skipta hana öllu máli: Systurbörnum hennar.
„Það er ekki mögulegt fyrir mig að dvelja í Venesúela – sérstaklega ekki eftir að hafa verið í Evrópu og að sjá möguleikana hér. Að líf geta haft tilgang, verið þýðingarmikil og þurfi ekki bara að snúast um það að lifa af,“ segir Oriana.
Hún vill koma hingað aftur og vinna í íslenskri ferðaþjónustu, atvinnugrein sem hún hefur heillast gjörsamlega af. Og ferðamennirnir hafa sömuleiðis heillast af henni.
„Oriana var ótrúleg,“ skrifar einn gesta hennar í umsögn um hótelið sem Oriana starfar hjá á Tripadvisor. Þar er að finna nokkra tugi umsagna sem nefna gestrisni ungu venesúelsku konunnar. Til dæmis þessa: „Oriana lagði sig einstaklega mikið fram um að hjálpa okkur. Hún er yndisleg manneskja með stórt bros.“
Þetta stóra bros er nú á leið úr landi, í um 7.500 kílómetra fjarlægð frá fólkinu sem stendur henni næst. Um leið og hún stígur upp í flugvélina mun Helgi skila inn umsókn um dvalarleyfi fyrir hana á grundvelli sérstakra tengsla. Og þá er ekkert annað að gera nema að bíða og sjá hvort það verði samþykkt og Oriana geti faðmað börn systur sinnar á nýjan leik.
Athugasemdir