Boðað hefur verið til allsherjarverkfalls kvenna þriðjudaginn 24. október. Kvennaverkfallið er tilvísun í kvennafrídaginn 1975, þegar 90 prósent kvenna lögðu niður störf um miðjan dag vegna kynbundins launamisréttis. Að baki verkfallinu stendur fjöldi grasrótarsamtaka, mannréttindasamtaka og samtaka launafólks.
Í þetta sinn stendur verkfallið allan daginn, sem er skýrt með því að jafnréttisbaráttan gangi allt of hægt. „Þrátt fyrir áratugalanga baráttu búum við enn í samfélagi þar sem langlífasti og útbreiddasti faraldurinn sem við eigum við að etja er kynbundið ofbeldi, ásamt því að framlag kvenna til samfélagsins er gróflega vanmetið. Hver rannsóknin á fætur annarri sýnir fram á sláandi tölur um misrétti og ofbeldi, en viðbrögðin eru lítil sem engin. Við sem samfélag virðumst orðin samdauna stöðunni,“ segir í yfirlýsingu frá aðstandendum verkfallsins.
Konur og kvár eru hvött til að mæta ekki til vinnu, annast ekki börn, eða sinna veikum fjölskyldumeðlimum þennan dag. Hér á eftir má lesa ákall frá Kristínu Ástgeirsdóttur, sem er ein þeirra sem stendur að baki verkfallinu.
Stundin er runnin upp
Í sjöunda sinn boða kvennasamtök á Íslandi til kvennaverkfalls. Frá 1975 hefur verið rætt um kvennafrí en nú var ákveðið að taka af skarið og kenna daginn við það sem hann verður: kvennaverkfall. Konur og kvár um allt land eru hvött til að leggja niður störf, heima og heiman í heilan sólarhring. Áhersla verður lögð á að uppræta ofbeldi gegn konum og öðrum útsettum hópum og að kjör kvennastétta verði endurmetin.
Kvennafríið sem haldið var á degi Sameinuðu þjóðanna 24. október 1975 vakti heimsathygli. Svo vel vildi til að margir erlendir fréttamenn voru staddir hér á landi vegna landhelgisdeilna við Breta. Þess vegna fóru fréttir um þessa mögnuðu aðgerð kvenna út um allan heim sem gerði konur heldur betur stoltar af eigin hugrekki. Á sviðinu á Lækjartorgi stóð meðal annarra Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, formaðar Sóknar, sem var félag starfsstúlkna (eins og það hét þá) á sjúkrahúsum og víðar. Hún sagði að ástæðan fyrir því að konur söfnuðust saman á þessum degi væri einkum launamisréttið og vanmatið á störfum kvenna.
Hvað er mikilvægast?
Nú 48 árum síðar stöndum við enn í sömu sporum. Launamisrétti er til staðar og vanmatið á hinum mikilvægu umönnunarstörfum kvenna er himinhrópandi! Á Covid-árunum horfðum við á heilbrigðisstarfsfólk, sem að stærstum hluta eru konur, glíma við faraldurinn daga og nætur nánast í geimfarabúningum. Starfsfólk skóla á öllum stigum (þar eru konur líka í miklum meirihluta) gerði kraftaverk við að halda skólastarfi gangandi, m.a. með heimanámi. Getur nokkur efast um mikilvægi þessara starfa? Eru menntun og mannslíf ekki mikilvægari en peningar og verðbréf? Það finnst mér en kapitalískt feðraveldið er mér ekki sammála. Það þrífst á kynjamisrétti og allt of mikilli þolinmæði kvenna sem halda heimilum og þriðju vaktinni gangandi daga og nætur.
Þegar kvennaáratugnum (1976-1985) lauk var aftur efnt til kvennafrís og mikillar sýningar undir yfirskriftinni konan, vinnan, kjörin. Sem sagt sama þema og tíu árum áður. Árið 2005 þótti kvennasamtökum tími til kominn að minna enn á launamisréttið og þá var í fyrsta sinn reiknað út hvenær konur væru búnar að vinna fyrir þeim launum sem þeim voru greidd, miðað við karla. Þátttakan var gríðarleg sem sýndi að vitund og vilji til breytinga var til staðar en eins og áður voru verkfærin ekki nógu beitt til að knýja fram verulegar breytingar.
Bóluefni gegn ofbeldinu
Árið 2010 var enn boðað til fundar og þá var áherslan á ofbeldi gegn konum og veitti ekki af. Það er nöturlegt að 41 ár eru liðin frá stofnun Kvennaathvarfsins í Reykjavík og 33 ár frá stofnun Stígamóta. Kynbundið ofbeldi er faraldur sem ekkert lát er á. Meðan Covid geisaði skorti ekki aðgerðir; grímur, bólusetningar, búbblur og ferðalög innanhúss. Nú þurfum við kröftugar aðgerðir og bóluefni gegn ofbeldinu! Bóluefnið heitir fræðsla og aftur fræðsla sem beinist ekki síst að ungum drengjum.
Enn var efnt til kvennaaðgerða 2016. Þá stóðu kosningar til Alþingis fyrir dyrum eftir skandala. Ekki var minnst á kynjamisrétti eins og það kæmi mótun og framtíð samfélagsins ekki við. Því var „riggað“ upp stórfundi undir yfirskriftinni: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu. Glæsilegur fundur fyrir framan Alþingishúsið sýndi styrk og samstöðu kvenna og stjórnmálamenn hrukku vonandi við.
Áfram, stelpur
Svo rann upp árið 2017 en um haustið stigu ótal konur fram víða um heim og sögðu sögu sína af kynferðislegri áreitni, nauðgunum og misnotkun valds undir myllumerkinu #MeToo. Hér á landi stigu fram hópar kvenna en sárast var að heyra frásagnir kvenna af erlendum uppruna sem máttu þola andlegt, líkamlegt og fjárhagslegt ofbeldi úr öllum áttum ekki síst frá atvinnurekendum sem stunda launaþjófnað. Haustið 2018 var haldinn útifundur, kvennafrí, sem var tileinkað ofbeldi gegn konum.
Nú blásum við til aðgerða því það kraumar víða í pottum kvenna. Stundin er runnin upp. Við krefjumst aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi og það öflugra. Við krefjumst þess að umönnunarstörfin verði endurmetin og það strax. Það er hægt að bæta kjör kvennastéttanna í áföngum og það verða aðrir að sætta sig við. Velferðarkerfi okkar er í húfi, hvorki meira né minna.
Sýnum að samstaða kvenna er sterkasta vopnið. Mætum á Arnarhól og á fundi um land allt þann 24. október kl. 14.00. Við eigum brýnt erindi við samfélag okkar og heiminn allan. Kvennaverkfallið er skref í áttina en síðan þarf að leita nýrra leiða í baráttunni. Áfram, stelpur!
Athugasemdir