Við eigum aðeins eina veröld en samt búum við ekki í henni saman. Hjón standa saman í eldhúsinu. Saxa niður lauk, skrúfa frá krana. Þau eru með sitthvor heyrnartólin að hlusta á sitthvort streymið. Í okkar veröld er hver í sínum heimi. Allir eru búnir að finna sína músík og sínar skoðanir og troða airpodsunum þétt inn í eyrun og láta höfuð sín síga ofan í rúllukragann eins og skjaldbökur. Þetta eru einkenni nútímans. Bergmálshellar, pólarísering, hver að hjakkast í sínu horni. Það er ákall um aukið samtal. Samtal!? Ég segi gleymum því. Það eina sem þarf er rokk og ról. Já. Rokk og ról. Ég er leðurjakkaklædda klisjan sem hendir fimmtíukalli í djúkboxið og hækkar vel í og ég segi aftur: Allt sem við þurfum er rokk og ról!
Rokk og ról. Hvað er það? Saga rokks og róls hefur verið sögð svo oft og er lykillinn að svo mörgu í menningu okkar að við erum orðin ónæm fyrir henni. En sagan hljómar samt nokkurn veginn svona. Í gamla daga voru allir alvarlegir. Karlmenn klæddust jakkafötum, konur kjólum. Engir, fyrir utan örfáa aristókrata, fengu tíma eða ráðrúm til að þróa sig neitt frekar. Konur ólu upp börn, karlar sinntu störfum. Á heimilum var stór standklukka sem sló taktinn í hinu borgaralega, yfirvegaða skipulagi. Tónlist var til, en hún heyrðist lágt, og hún ýtti ekki við fólki heldur svæfði börnin á kvöldin og innsiglaði agann og festuna í samfélaginu. Svo kom Chuck Berry árið 1955 og tengdi gítarinn sinn í samband við rafmagn og leysti úr læðingi bældar hvatir og meiningar sem legið höfðu í dvala í hundruð ára, vegna kynþáttamismununar og hvers konar böls, og fólk hreinlega ærðist – hinir ungu af fögnuði en hinir eldri af heift. Rokk og ról ferskaði, frelsaði en umfram allt þá ærði það mannskapinn. Æring er lykilatriði hér. Að sjá rokk og ról flutt á sviði af hömlulausum, mjaðmahnykkjandi ólátabelgjum sem blésu og fnæsuðu í míkrófónana, ærði fólk. Þetta er saga rokks og róls í hnotskurn.
Og takið eftir. Það sem rakið er hér að ofan er ekki saga rokks heldur rokks OG róls. Þetta „og ról“ skiptir nefnilega rosalega miklu máli.
„Heimurinn er að skiljast í sundur og ekki bara í nokkra bita heldur er hann að splundrast eins og kristalsglas á harðri flísalagningu eftir stormasamt hjónarifrildi á Arnarnesi“
Vagg OG velta
Rokk og ról. Rock and roll. Hlustið á þessi þrjú orð í heild sinni. Leyfið þeim að rúlla fram af tungunni. Það fer eitthvað í gang um leið. „Rock“ þýðir að „rugga“ eða „hreyfa við“ og í nútímanum eigum við nóg af menningarefni sem gerir það. „Roll“ þýðir að „rúlla“ eða „hreyfa úr stað“ og vöntunin á því hefur aldrei verið jafn mikil. Rokk án róls er bara hjakk og við erum öll að hlusta á rokk þó að sumt rokk heiti hiphop og annað salsa og enn annað sé podcast um hagfræðileg málefni. Rokk þýðir í þessu samhengi ekki ákveðin tónlistarstefna heldur er samnefnari fyrir taktfestuna sem hreyfir vissulega við manni en nær ekki að velta mosagrónum rassi manns úr sófanum.
„Back down the road I‘m going“ söng Muddy Waters í „Rollin‘ Stone“, laginu sem hljómsveitin Rolling Stones tók nafn sitt eftir. Laginu sem setti þetta allt af stað. Þetta snerist um að vera á hreyfingu, leggja heiminn að fótum sér. Þetta snerist um rokk OG ról. Þau voru alltaf tvö saman, vaggið og veltan en á einhverjum tímapunkti datt endingin burtu og eftir varð bara „rokk“ og við erum eiginlega búin að gleyma að einhvern tímann var til eitthvað „ról“ líka. Við gleymdum rólinu og skildum það bara eftir. Þetta er eins og að fara á fæðingardeildina og eignast tvíbura og taka bara einn með sér heim. Þetta var hræðilegt og þetta er okkar mesti skaði. Því hvað er rokk án róls? Það er eins og samlíf án ástar, ritzkex án osta. Það er þurrt hjakk. Það er rólið sem er netti hlutinn. Það er rúllunin sem gerir grúvið, seigluna og tilganginn. Það þarf að taka steininn og velta honum upp þannig að maðkarnir koma í ljós, að rúlla honum áfram þannig að enginn mosi fái þar þrifist. Að rúlla er að búa til músík sem sprengir upp tónlistarformin, hlustendahópinn, að gera eitthvað sem ferðast á milli aðskildra hópa og sameinar. Það var rokk OG ról sem beindi athyglinni að menningararfi afrískra Bandaríkjamanna. Það var rokk OG ról sem smaug í gegnum Berlínarmúrinn.
Allir eru rokkstjörnur
Eruð þið ekki að sjá þetta? Heimurinn er að skiljast í sundur og ekki bara í nokkra bita heldur er hann að splundrast eins og kristalsglas á harðri flísalagningu eftir stormasamt hjónarifrildi á Arnarnesi. Það er ekki bara vinstri hægri dæmi í gangi heldur er hver einstaklingur að læsast inn í eigin airpods-helli með sitt óbilgjarna fullkomna hjakk á repeat. Það eru allir að rugga bátnum en það er enginn að velta honum. Fólk flýgur á loftslagsráðstefnur á bensínknúnum breiðþotum með koldíoxíðbindingarpodcöst í eyrunum, sitjandi fyrir á Instagram-story myndum í vísis- og baugfingurs djöflahorns rokk-signitúr pósum því allir eru jú vissulega rokkstjörnur á sínu sviði! Það eru allir orðnir litlir rokkarar, eins og þriggja ára krakkar í Polarn O. Pyret smekkbuxum að headbanga, stjörnur í sinni litlu veröld, rockin‘ it out, vaggandi, kvakandi, ruggandi en aldrei raunverulega ögrandi. Því það sem okkur vantar er:
Rokk OG ról.
Predikun. Level tvö. Og nú til unga fólksins. Drekkið orkudrykki, verið með eyrnalokka (endilega verið með eyrnalokka) en munið að rúlla líka og þá er ég ekki að meina að rúlla kálfavöðvana með einangrunarplastsrúllu heldur að rúlla steininum yfir allt og alla og vera drullusama um afleiðingarnar. Sprengið þetta upp. Tortímið þessu einstrengingslega, óbilgjarna, flissandi hagsmunahjakki sem miðlun upplýsinga er að vera. Hættið svo að kalla sköpunarverk „content“. Komið steininum á hreyfingu. Komið heiminum á hreyfingu. Þess óskar yðar einlægur leðurjakkaklæddur náungi í horninu sem fellir eitt stakt cry baby tár við að horfa á veröldina frostþurrkast ofan í Toro-súpupakka. Farið á fæðingardeildina, í guðanna bænum, og gefið að líta yfirgefið barn ykkar. Það heitir Ról og það lítur út eins og vúdúdúkka og í augum þess glitrar háheiðið blik. Faðmið það að ykkur, elskið það!
Að trúa á galdra
Og já. Það er niðurstaða og hún er svona. Það hefur enginn rétt fyrir sér. Hvorki ég né nokkur þeirra spámanna sem ég airpods-treð inn í heilann á mér. Það er engin leið rétt. Þetta snýst bara um að halda áfram og ekki láta mosann gróa. Mannkynið hefur aldrei vitað í hvaða átt það er að fara, en allt frá tímum píramídanna höfum við haft vit á því að steinum verður ekki lyft nema með sameiginlegu átaki. Kallið mig Wayne‘s World elskandi hálfvita. Sama er mér. En ég trúi á rokk og ról. Ég trúi á galdra. Ég trúi á bátshvolfandi, jarðarskekjandi, rassflytjandi, rafmagnaða galdra og að veröldinni verði borgið sé þulan flutt nógu oft.
Ég trúi á rokk. Ég trúi á rokk OG ról.
Athugasemdir