Píratar komu einn af öðrum í pontu Alþingis í dag og lýstu óánægju sinni með að fá ekki Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra á fund velferðarnefndar um „fordæmalausa sviptingu grundvallarréttinda flóttafólks“ sem raungerðist í haust með gildistöku nýrra útlendingalaga.
Katrín svaraði Pírötunum ekki en flokkssystir hennar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir gerði það í staðinn. Hún sagði að málaflokkur umsækjenda um alþjóðlega vernd heyrði ekki undir forsætisráðherra.
„Við teljum það með öllu óeðlilegt að kalla forsætisráðherra til,“ sagði Bjarkey.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingkona Pírata, gaf lítið fyrir þau svör. Hún hafði kallað eftir upplýsingum um það hvort hægt væri að kalla Katrínu fyrir einhverja aðra nefnd vegna spurninga um þjónustusviptingu þeirra sem hefðu fengið neitun um alþjóðlega vernd. Svarið sem hún fékk var að ekki væri hægt að kalla Katrínu fyrir neina nefnd, jafnvel þó að hún hefði sjálf kallað eftir lögfræðiáliti um málið.
„Við megum einfaldlega ekki fá forsætisráðherra hingað inn til okkar til að ræða þetta til að fá svör við þessum spurningum vegna þess að þessi ríkisstjórn hefur ákveðið að hún ætlar að hafa þrjár ríkisstjórnir í þessu landi,“ sagði Arndís og vísaði til flokkanna þriggja sem mynda ríkisstjórnina.
Ekki einsdæmi
Hún telur stöðuna óboðlega því svörin við spurningum Pírata um þjónustusviptinguna, sem hefur verið afar umdeild og fordæmd af fjölmörgum hjálparsamtökum, liggi í forsætisráðuneytinu.
„Hvernig í ósköpunum eigum við að fá svör við þessum spurningum ef við getum ekki boðað þá ráðherra sem um ræðir á fundi nefndarinnar?“ spurði Arndís. „Þessi afstaða meirihlutans í nefndinni og formanns og ráðherrans er forkastanleg og enn eitt dæmið um aðför meirihlutans hér á þingi að eftirlitshlutverki þingsins með framkvæmdarvaldinu.“
Þá sagði Halldóra Mogensen, þingkona Pírata, málið ekki einsdæmi. Hún bað nýverið um opinn fund í allsherjar- og menntamálanefnd um útlendingalögin og framkvæmd þeirra og fékk þá ekki að bjóða félagsmálaráðherra, bara dómsmálaráðherra. Það þykir Halldóru ekki boðlegt, sérstaklega ef litið er til þess að ráðherrar mismunandi flokka tali „þvers og kruss“ opinberlega um túlkun sína á lögunum og viðeigandi framkvæmd þeirra.
Athugasemdir (1)