Heitasti september frá upphafi mælinga. Heitasti ágúst frá upphafi mælinga. Heitasti júlí frá upphafi mælinga. Þrjá mánuði í röð hafa hitamet verið slegin. Þessi staðreynd veldur mörgum vísindamönnum óhug, ekki síst sú að september í ár var 0,5 gráðum hlýrri en sá sem áður hafði mælst heitastur í sögunni. Og slíkt hefur ekki áður sést í mælingum á hitastigi á Jörðinni. Gróðureldar hafa sjaldan eða aldrei verið jafn tíðir á norðurhveli jarðar og síðustu mánuði. Og eldatíðinni er ekki lokið því enn á ný er nú barist við gróðurelda á Tenerife.
Í samantekt The Guardian á hitametum síðustu mánaða segir að nýliðinn september hafi verið 1,8 gráðum heitari en meðalhiti sama mánaðar fyrir iðnbyltingu samkvæmt rannsókn evrópskra og japanskra vísindamanna.
Losun gróðurhúsalofttegunda heldur áfram að aukast og er helsti drifkraftur hitanna nú en að auki hefur veðurfyrirbærið El Nino tekið við af La Nina í Kyrrahafinu. Líkt og gerist reglulega við þessi umskipti þýðir myndun El Nino að mikil varmalosun verður úr hafinu. Andrúmsloftið hlýnar þá enn frekar og telja vísindamenn nær óhætt að fullyrða að árið 2023 verði það heitasta frá upphafi mælinga en vara við að árið 2024 gæti orðið enn heitara enda reynslan sýnt að áhrif El Nino koma mest fram árið eftir að fyrirbærið myndast.
Út úr öllu korti
„September var, samkvæmt mínu faglega áliti sem loftslagsvísindamanns, algjörlega galið,“ segir Zeke Hausfather, sem starfar að öflun gagna um veðurfar við Berkeley-háskóla.
„Ég er enn að reyna að ná utan um þá staðreynd hversu mikið hiti getur hækkað eitt árið miðað við þau fyrri,“ segir Mika Rantanen, loftslagssérfræðingur við finnsku veðurstofuna. Og fleiri vísindamenn hafa lýst undrun sinni. Ed Hawkins, sem starfar við háskólann í Reading, segir að hitastig síðustu mánaða hafi verið „með ólíkindum“.
Ef fram heldur sem horfir stefnir allt í að árið 2023 verði 1,4 gráðum heitara en árin fyrir iðnbyltingu að meðaltali.
Það er hins vegar ekki aðeins á norðurhveli jarðar sem hitinn hefur verið óvenjulega hár miðað við árstíma. September hefur líka slegið öll met í Ástralíu þar sem hann er vormánuður. Þar var 3-5 gráðum heitara á mörgum stöðum en nokkru sinni hefur mælst í mánuðinum.
Athugasemdir