Árum saman hefur Ísland verið í fararbroddi þegar kemur að háhraðatengingum til heimila og fyrirtækja eins og sjá má í nýútkominni skýrslu Fjarskiptastofu, sem eftirlitsstofnanir fjarskipta á Norðurlöndum og í Eystrasalti birta árlega. Þar er samanburður á notkun helstu þátta fjarskiptaþjónustu í viðkomandi löndum og þróun hennar síðustu sex ár.
Samkvæmt þessari samantekt („Fjarskiptamarkaðir Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna 2022“) er Ísland áfram fremst þegar kemur að háhraðatengingum til heimila, með gagnahraða yfir 30 Mb/s og yfir 100 Mb/s og er í algjörum sérflokki þegar kemur að gagnahraða yfir 1 Gb/s. Einungis Danir eru að einhverju ráði farnir að bjóða 1 Gb/s hraða á heimilistengingum yfir ljósleiðara.
Samkvæmt þessu eru íslenskir netrekendur og ekki síður neytendur leiðandi þegar kemur að hraða tenginga til heimila. Hér á landi er almennur nethraði yfir ljósleiðaratengingar til heimila allt að 1 Gb/s og býður Míla 1 Gb/s nethraða á ljósleiðaraheimtaugum um allt land. Nú hefur Míla tekið stórt skref inn í framtíðina, sem styður frekar það forskot sem Ísland hefur á alþjóðavísu í háhraðatengingum til heimila.
10x vettvangur – Næsta kynslóð háhraðatenginga
Þann 22. ágúst síðastliðinn tilkynnti Míla um nýjan vettvang fjarskipta – 10x vettvanginn, sem stendur fyrir tíföldun internethraða til heimila. Frá og með 1. október mun heimilum á höfuðborgarsvæðinu standa til boða 10x hraðari internettenging í gegnum sitt fjarskiptafélag. Í upphafi verður 2,5 Gb/s í boði fyrir ljósleiðaratengd heimili á höfuðborgarsvæðinu og 10 Gb/s verður í boði á völdum svæðum. Þeim svæðum sem geta boðið 10 Gb/s mun svo fjölga jafnt og þétt, eftir því sem öflugra burðarnet verður byggt upp. Í kjölfarið verður þjónustan færð yfir allt landið, eftir því sem uppfærsla burðarnets verður unnin. Sú áætlun verður gefin út síðar.
Bandvíddarþörf eykst um 20-30% á ári
10x er vettvangur fyrir fjarskiptafélögin til að bjóða þjónustu sem getur vaxið með þörfum heimila og tryggt þeim næga bandvídd á hverjum tíma. Rík þörf er fyrir þessa framþróun. Bandvíddarþörf eykst stöðugt um 20-30 prósent á ári.
Æ fleiri tæki eru nettengd á heimilum, allt frá sítengdum eftirlitstækjum og ryksuguvélmennum til nettengdra ísskápa, allt frá 4K sjónvarpsstreymi til 8K eða hærri myndgæði leikjatölva ungmenna. Fjarvinna, sýndarveruleiki og gervigreind ásamt næstu kynslóð þráðlausra neta WiFi-7 með margfalt meiri afkastagetu en núverandi WiFi getur boðið, munu krefjast æ meiri hraða. Með 10x vettvanginum erum við tilbúin og flutningskerfið okkar verður ekki flöskuháls þegar kemur að upplifun notenda af nýrri tækni.
10x vettvangurinn er stórt stökk inn í framtíðina, því möguleikarnir sem opnast við það að svo bandbreiðar tengingar séu aðgengilegar eru óþrjótandi. Tífaldur internethraði ýtir undir nýsköpun, skapar ný tækifæri, skapar grundvöll fyrir framþróun víða, s.s. í heilbrigðiskerfinu, i skólakerfinu, í iðnaði og svo framvegis. Nýjar hugmyndir frjórra huga kalla á þennan veruleika.
En 10x þróunin stoppar ekki við 10 Gb/s. Nú þegar er staðlavinna hafin að næstu kynslóðum – 25, 50 og 100 Gb/s hraða. Framþróun skapar nýjar leiðir og ný tækifæri og stefnan er stöðug fram á við. Við íslendingar ætlum áfram að vera brautryðjendur í fjarskiptum á Norðurlöndum og Eystrasalti. Sú forysta skiptir lífskjör á Íslandi miklu.
Höfundur er forstjóri Mílu
Athugasemdir