Ég man eftir því þegar ég fór fyrst á ircið. Uppi í hlíðum Helgafells í Mosfellssveit á miðjum tíunda áratug síðustu aldar að tala við manneskju hinum megin á hnettinum í gegnum internetið. Eftir að hafa notað það í fyrsta skiptið hljóp ég og sagði mömmu frá þessum töfrum og hún trúði mér ekki. Tala við manneskju í Ástralíu í tölvunni? Je ræt.
En svona sá fólk fyrir sér að internetið yrði. Tengdi saman allan heiminn í eitt þorp þar sem hugmyndir, stefnur og straumar gætu flætt fram og til baka óhindrað. Upphafið að nýrri upplýsingaöld. Og fyrstu árin voru ótrúleg. En svo gerðist eitthvað og nú heldur stór hluti fólks því fram að jörðin sé flöt, Trump sé í raun snillingur í dulargervi hellisbúa í jakkafötum og að kynsegin fólk sé í laumu-samsæri að misnota börn í gegnum skólakerfið. En hvað var það sem gerðist?
Við töpuðum. Án þess að við tækjum eftir því var háð stríð um athygli okkar og við áttum ekki séns. Ástæðan er að miklu leyti tvíþætt og ég ætla að gera mitt besta til þess að setja hana fram á skiljanlegan máta:
-
Samfélagsmiðlar nærast á sundrungu
Stærstu samfélagsmiðlar í heiminum eru allir í eigu fyrirtækja sem vilja skila hagnaði. Að sjálfsögðu. Það er jú heili tilgangur fyrirtækja að gera eigendur sína ríkari en þeir voru fyrir. Fyrirtæki hafa ekki samvisku, upplifa ekki samfélagslega ábyrgð eða löngun til að bæta heiminn. Þau eru gróðavélar. Ekki við fyrirtækin að sakast að gera það sem þau eru hönnuð til.
Vandamál skapast hins vegar þegar miðlar sem móta samfélög eru í eigu fyrirtækja sem vilja einungis græða pening og er sama um allar afleiðingar. Í bókinni Chaos Machine eftir blaðamann New York Times, Max Fisher, fjallar hann um það hvernig samfélagsmiðlar hafa undanfarna tvo áratugi smám saman mótað hugsun okkar og hegðun, og í kjölfarið haft áhrif á þróun mannlegs samfélags.
Rótina greinir hann í forritun miðlanna, sem vilja að sjálfsögðu halda notendum sínum sem lengst límdum við skjáinn. Besta leiðin til þess að halda fólki í skjánum er að sýna því það efni sem fólk staldrar lengst við. Þar komum við að fyrstu vísbendingunni um það af hverju við upplifum sundrungu í kringum okkur: Efnið sem fólk staldrar lengst við er það sem gerir fólk hrætt og reitt. Heilinn í okkur er gíraður inn á að veita því eftirtekt sem getur skapað okkur hættu og sú frumhvöt slekkur ekki á sér þótt við höfum flutt okkur af gresjunni inn í stofu með litla saklausa símann okkar.
„Efnið sem fólk staldrar lengst við er það sem gerir fólk hrætt og reitt“
Í bókinni Chaos Machine fer Fisher ofan í kjölinn á því hvernig meðal annars þjóðarmorðin á Róhingja-múslimum í Myanmar hafi orðið til vegna falsfrétta á Facebook sem fóru um eins og sinueldur með hræðilegum afleiðingum. Facebook neitaði að gera neitt í fréttunum eða deilingum á þeim fyrr en stjórnvöld í landinu neyddust til þess að slökkva á internetinu í tilraun til þess að stöðva blóðbaðið.
Það sem við höfum svo horft upp á á Vesturlöndum er hvernig falsfréttir hafa haft áhrif á kosningar. Ekki bara á appelsínugulum forsetum, heldur einnig hér á Íslandi, þar sem skrímsladeildir hafa verið stofnsettar í þeim eina tilgangi að dreifa lygum um ákveðna flokka og frambjóðendur á samfélagsmiðlum.
Öll höfum við svo orðið vitni að því hvernig kórónuveirufaraldurinn varð að meiri háttar deiluefni þegar vísindi og viðurkenndir samfélagssáttmálar voru sett út af sakramentinu og ofboðslegu magni af misvísandi upplýsingum var sprautað yfir allan heiminn í tilraun til þess að gera eins eðlilegan og náttúrulegan hlut og drepsótt, að samsæri.
„Samfélagsmiðlar eru í stríði við hver annan um athygli þína“
Og þar sjáum við óttann og reiðina keyra áfram samfélagsmiðlavélina. Til þess að halda notendum sínum við skjáinn sýna samfélagsmiðlar fólki það sem mun koma þeim til þess að lesa, kommenta og deila. Sannleikurinn skiptir gróðavélina engu máli. Fólk sem Fisher talaði við, sem hefur rætt við stjórnendur stærstu samfélagsmiðla í heimi, sagði allt sömu söguna: Þeim er sama, eða þá að þeir geta ekki breytt forrituninni. Samfélagsmiðlar eru í stríði við hver annan um athygli þína. Þeir munu nota öll þau vopn sem í boði eru til þess að sigra. Afleiðingarnar skipta fyrirtækin engu máli. Það eina sem skiptir þau máli er gengið á hlutabréfamörkuðum og gróði.
Ég er hættur að sjá kisumyndbönd og uppistand. Nú sé ég bara fólk sem fer í taugarnar á mér og gegndarlausan áróður sem allur miðar að átökum en ekki upplýsingum. Og þar er kannski ágætt að vinda sér yfir í hinn helminginn af drullukökunni.
-
Rússneskar óreiðuverksmiðjur
Í nýlegri grein, sem á einfaldaðri íslensku gæti kallast Brunaslanga lyganna, fjalla dr. Christopher Paul, prófessor í félagsfræði, og dr. Miriam Matthews, prófessor í félagslegri sálfræði, um stefnu Rússlands í upplýsingamálum.
Greinin er góð og hrollvekjandi lesning, en í skemmstu máli segja þau frá því hvernig Rússar hafa síðustu 15 ár stefnt að því að grafa undan lýðræði og samstöðu Vesturlanda með því að kaffæra þau í falsfréttum og misvísandi upplýsingum. Það hafa þau gert bæði með notkun ríkismiðla, en einnig með því að hafa úr að ráða her nettrölla sem sinna þeim eina tilgangi að moka eins miklu kjaftæði og þau geta á eins marga staði og þeim er unnt. Eitt fyrrum nettröll sagði að þau væru að störfum allan sólarhringinn, á tólf tíma vöktum, og hvert og eitt tröll þarf að skila af sér 135 póstuðum athugasemdum á vakt, sem þurfa að vera í það minnsta 200 stafabil hvert.
Kórónuveiran, lýðræðið, kynsegin samfélagið, kvenréttindi. Allt er undir. Það er ekki skrítið að sum okkar upplifi þreytu og gremju þegar kemur að samfélagsmiðlum. Rangfærslurnar eru stöðugar og þær eru reiðar og þær krefjast athygli. Ég horfi með aðdáun á þá einstaklinga sem í veikum mætti reyna að veita flóðinu mótspyrnu, en það er við ofurefli að etja.
Forritun samfélagsmiðlanna, sem ýtir undir allt sem vekur reiði og ótta, samfléttað við rússnesku brunaslönguna, hefur gert internetið að algjörlega ógeðslegum stað til þess að vera á. Í staðinn fyrir að færa okkur nær hvert öðru, opna á ólíka menningarheima og viðhorf, hefur netið gert okkur hrædd við hvert annað. Ýtt undir vantraust á hvert öðru. Gert okkur reið.
Þegar verkfærin sem við notum eru farin að gera meiri skaða en gagn þarf að skipta þeim út fyrir eitthvað annað. Í það minnsta hætta að nota þau. Við erum líkari en við erum ólík. Fólk sem þú heldur að sé vont er kannski bara hrætt og illa upplýst. Fórnarlömb forritunar sem það hefur ekki skilning á og rússneskra stjórnvalda sem vilja að við rífumst út í hið óendanlega án þess að komast að neinni niðurstöðu. Ég veit ekki hver lausnin er, en hana er í það minnsta ekki að finna á Facebook eða Twitter.
Athugasemdir (3)