Ég veit að ég er að taka af dýrmætum tíma þínum þegar ég bið þig að lesa það sem ég er að skrifa hérna en oft er þörf en nú er nauðsyn að við sem þjóð bregðumst við. Gerðu það fyrir þig og börnin þín að lesa það sem ég er að segja því að nú þegar tekjur þjóðarinnar hafa aldrei verið meiri hefur aldrei verið stolið jafn miklu af okkur með aðgerðum óheiðarlegra manna sem ganga erinda glæpamanna.
Afleiðingar hrunsins notaðar gegn þjóðinni
Ég ætla að byrja í hruninu þegar endaleysan með gengi krónunnar byrjaði. Það var gengi (verðgildi) krónunnar sem féll. Verð á krónu sem hafði verið nokkuð stöðugt í kringum € = 92 kr. og flot krónunnar gagnvart Evrunni þar sem þjóðartekjur og hagvöxtur réðu ferð hafði virkað vel fyrir okkur og skapað viðunandi stöðugleika og vaxandi kaupmátt almennings. Útgerðin var reyndar vælandi eins og venjulega en þar höfðu menn misst sig í svokölluðum kvótalánum sem voru útgerðarmönnum dýr enda höfðu peningarnir farið í allt annað en til útgerðirnar. En í heiðarlegu umhverfi eins og var enn fyrir hrun þurftu menn að borga af sínum lánum.
Krónan (gengið) féll þarna í hruninu um 65 til 70% og „ekkert“ var gert til að koma í veg fyrir þetta fall eins og selja þann gjaldeyri sem við höfðum að láni í Seðlabankanum, 550 milljón Evrur, en þær fóru í annað. Ekki var aukið við þorsk kvótann þótt hér væri fordæmalaus mok veiði af þorski og sögur (myndir) af því að net netabátanna á vertíðinni hafi verið svo búkkuð eftir hálfan daginn að slá þurfti stroffum á búkkuð netin til að ná þeim inn. Margir eins og ég bentum á að vel mætti auka við kvótann en ekkert var hlustað á það þótt þarna hafi sannarlega verið tækifæri til að tvöfalda þorskkvótann og auka þannig nauðsynlegar gjaldeyristekjurnar og styrkja þannig gengi krónunnar og hjálpa þannig þjóðfélaginu sem var á hliðinni og fólk að missa atvinnu sína og húsin sín. Munum að 15.000 fjölskyldur misstu heimili sín en ekkert var gert til að styrkja krónuna sem hafði fallið vegna óráðsíu útgerðanna í kvótalánunum.
Bættur hagur ekki fyrir almenning
Síðan um leið og þjóðfélagið byrjaði að rétta úr kútnum hófust strax furðulegar uppborganir nýrra erlendra neyðarlána frá vinveittum þjóðum á hagkvæmustu vöxtum sem þekktust, 0,5 upp í 1%. Af hverju var talið nauðsynlegt að borga upp þessi „góðu“ lán frekar en að nota peningana til að rétta þjóðfélagið við og auka kaupmátt launa? Kaupmátt hins opinbera? Við vorum veikburða að berjast við lága krónu en óheiðarlegir stjórnmálamenn gerðu allt sem þeir gátu til að koma í veg fyrir styrkingu krónunnar?
Þegar frá leið fóru kvikmyndir og myndir af fallegri náttúru landsins að auka ásókn erlendra ferðamanna til landsins og inn flaut meira af erlendum gjaldeyri sem við þurftum svo mikið á að halda. Eins hækkuðu verðin á heimsmarkaðsverði á fiski (20% á þorski) svo allt ætlaði að snúast okkur í hag og þrátt fyrir uppborgun lána styrktist krónan og verðbólgan eftir hrunið tók að lækka og 2013 var verðbólgan komin niður í 3%!
Svona stelur maður af þjóðinni og hyglar eigendum Flokksins
En 2013 var furðulegt ár. Bjarni Benediktsson er kominn í ríkisstjórn sem fjármála- og efnahagsráðherra (ekki sem forsætisráðherra?) og ræður til sín í ráðuneytið af öllum mönnum prófessor dr. Ragnar Árnason sem sérstakan ráðgjafa (frá útgerðinni). Í kjölfarið fylgir furðulegur gerningur. Þegar Már Guðmunsson Seðlabankastjóri er rekinn og síðan ráðinn aftur eftir auglýsingar. Þetta var algert einsdæmi að sami maðurinn sé rekinn út svo mikilvægri stöðu og ráðinn síðan aftur? En eftir endurráðninguna hefjast, án þess að neinn fái um það vitneskju, fordæmalaus (inngrip) uppkaup á gjaldeyri (peningar teknir úr umferð) gagngert til að koma í veg fyrir styrkingu krónunnar og tryggja þannig áframhaldandi óáunninn hrungróða útgerðarinnar. Þetta er gert þrátt fyrir að þjóðfélagið engist sundur og saman af peningaleysi og vaxandi fátækt vegna lágs kaupmáttar launa og bóta? Lág verðlaus króna er sannarlega ávísun á lágan kaupmátt. Gengi krónu er hnífurinn sem sker kökuna og skiptir auðnum.
Áfram heldur Seðlabankinn að kaupa upp gjaldeyri án þess að tala við hvorki kóng né prest til 2016 að fjármálaráðherra lætur hafa eftir sér að þetta séu peningar „fengnir að láni“? Óútskýrt? Hvar fékk BB yfir 600 milljarða að láni? Og hvernig ætlaði hann að borga þetta lán? Jú stuttu seinna kom Ásgeir Jónsson nýi Seðlabankastjórinn og skýrði út af þessir peningar væru „gjaldeyrisforði“, þá tæpir 700 milljarðar sem væri tvisvar sinnum stærri en stærsti gjaldeyrisforði en við hefðum nokkru sinni átt og stærsti gjaldeyrisforði nokkurrar þjóðar í veröldinni miðað við mannfjölda?
Þarna kemur allt í einu í ljós að Seðlabankinn hunsar ráðleggingar OECD um hvernig eigi að byggja gjaldeyrisforða? (OECD tillögur til S.Í. „að selja ríkiseignir og taka arðstekjur af auðlindum þjóðarinnar). OECD er þar að hnykkja á að uppbygging slíks sameiginlegs sjóðs skuli leggjast á alla þegna þjóðfélgsins ekki bara launþega og lífeyrisþega en ágóðinn af uppkaupum gjaldeyris stórauki umfram tekjur útgerðanna og annarra útflytjenda? Sjáið þið hversu galið þetta er? Fjármálaráðherra er nú farinn að viðra hugmyndir sínar (og Ragnars) um að halda áfram að stela af eldri borgurum og láta þá byggja nýjan þjóðarsjóð? Þetta er stórmannlegt?
Miklar tekjur af túrismanum halda síðan áfram að fljóta inn og jú krónan styrkist en bara ekki sem skyldi því enn heldur Seðlabankinn áfram að kaupa upp gjaldeyri til að halda aftur af styrkingu krónunnar. 2018 er gengi krónu komið í €=122 (hafði farið hæst í €=112 kr en var kippt niður.
Stærsti „gjaldeyrisforði“ heims ekki notaður til að verja krónuna og kaupmáttinn
2019 er ár Lífskjarasamninganna og síðan kom Covid. Við covid hrynja tekjur af ferðamönnum en tekjur útgerðanna stóðu í stað eða uxu. Við lægri útflutningstekjur og minnni hagvöxt fellur krónan en þrátt fyrir lang stærsta gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar er hann ekki notaður til að standa með krónunni? Skýringar Ásgeirs Seðlabankastjóra voru vandræðalegar og ansi misjafnar frá degi til dags. Fyrst kom að Ásgeir teldi „að kaupmáttur launa í Lífskjarasamningunum“ hækkuðu of mikið miðað við „þýskar verkamenn“. Við mældumst tekjuhæsta þjóð veraldar á sama tíma og Þýskaland átti í erfiðleikum en okkar kaupmáttur mátti ekki vaxa meira en kaupmáttur þýskra verkamanna? Næsta skýring alveg út í loftið var að Ásgeir sagðist ætla að bjarga ferðamannaiðnaðinum? (Það var covid?) Krónan stoppaði Síðan í 140 kr. Evran þar sem hún stóð í gegnum covid.
Nú í gegnum covid stendur gengi krónunnar í €=140 kr sem er nánast hrun gengi. Furðulegt atvik skeði í fyrrasumar. Evran fellur um 20% en gengið breytist ekkert gagnvart krónunni sem hefði átt að hækka gagnvart Evrunni. Þetta þýðir að Seðlabankinn greip inn í og lét krónuna fylgja Evrunni þegar hún lækkaði þrátt fyrir að hér væru vaxandi tekjur og aukinn hagvöxtur. Þetta átti alls ekki að ske en án þess að tilkynna þetta var það látið viðgangast og þarna er hægt að fullyrða að þjóðin, almenningur, var vísvitandi gjaldfelldur til að auðga útgerðarmenn og útflytjendur eins og ferðamannaiðnaðinn.
Við þjóðin erum gjaldfelld
Í haust var komið að samningum við verkafólk og talað um skammtímasamninga vegna óvissustigs. Þá af öllum okkar bönkum kaupir allt í einu Landsbankinn upp hundruð milljarða virði af gjaldeyri án þess að Seðlabankinn reisi litla fingur til að verja krónuna gegn þessari aðför að verðgildi krónunnar. Og sjálfur bankastjóri Landsbankans kemur fram og segir að þetta séu eðlileg viðskipti sem þó eru gersamlega fordæmalaus og höfðu aldrei fyrr verið framkvæmd í þessu magni. Og jú útgerðarmenn höfðu á sama tíma haldið aftur af heimsendingu söluandvirðis fiskafurða?
Þarna er gersamlega komið fram við okkur sem alger fífl. Þarna með falli Evrunnar fyrr um sumarið um 20% er verðgildi krónunnar komin niður fyrir verðgildi krónunnar í hruninu. Við erum að tala um eitt mesta góðæri Íslandsögunnar til sjávar og sveita og krónan hefði svo sannarlega átt að vera orðin hærri en fyrir hrun en nei. Aðgerðir innan Seðlabankans höfðu valdið því að krónan var gjaldfelld. Laun og lífeyrisþegar voru gjaldfelldir og hið opinbera, ríki og bæir voru gjaldfelld.
Þetta er gjörsamlega grímulaus þjófnaður af þjóðinni. Ekki er nóg með það að stór-útgerðirnar eru búnar að koma sér upp svikamyllum með hinni viðbjóðslegu virðiskeðju sem búið er að ljúga að þjóðinni að sé „svo hagkvæm“ endar í „erlendu“ fyrirtæki sem kaupir mest af aflanum og býr þar til peninga sem hrúgast hafa undanfarin ár upp á leynireikningum erlendis (á Kýpur). Það kveður svo rammt að þessu að það er viðskiptahalli í góðærinu og sólarlandaferðum kennt um. Þar sást kannski best hversu lágkúrulega komið er fram við okkur. Kanaríeyjar (Tene) eru sennilega ódýrustu orlofsstaðir í Evrópu sem þegnar tekju hæstu þjóðar veraldar hafa ekki efni á að skreppa til af því stór-kvótahafar stela svo miklu út af virðiskeðjunum sem kvótakerfið skapar?
Þögnin rofin eins og ekkert hafi í skorist
Og hvað skeður svo allt í einu núna eftir 9 ára þögn um þennan fordæmalausa glæp? Á sama tíma og þing kemur saman og allt snýst um stefnuræðu forsætisráðherra og fjárlagafrumvarp fjármálaráðherra? Jú þá laumast aðalhagfræðingur seðlabankans inn á fund með fjármálaelítunni og fer að gorta sig og seðlabankann af því að hafa tekið/stolið 900 milljörðum út úr hringrás peninganna og núna „eigi“ seðlabankinn 900 milljarða gjaldeyrisvaraforða sem tryggi krónuna gegn falli hvað sem á dundi. Hann nefnir ekkert hvaðan og hvernig þessir peningar urðu til. Hvernig þeim var sannarlega stolið undan þjóðinni.
Svo kom „show no 2“ þegar aðalhagfræðingur Íslandsbanka kemur fram á Morgunvakt RÚV og kemur með nánast sömu rullununa og hagfræðingur Seðlabankans en gleymir að skýra út fyrir hlustendum að ef ekki hefði verið farið í þessi fordæmalausu uppkaup á gjaldeyri væri ekki svona mikil skortur á húsnæði, verðbólgan væri engin (2013 verðbólgan 3%) og vextir lágir. Þessir tveir hagfræðingar sem báðir eru á risa launum hjá okkur koma sér hjá því að segja okkur sannleikann um það sem skeð hafði. Krónan var gjaldfelld og við með til að viðhalda hrungróða útgerðanna.
Rísum upp
Kæru vinir og góðu landar. Þið verðið að setja ykkur inn í þessi mál. Hér er allt sannleikanum samkvæmt og þjóðin hefur bara tapað á þessum fordæmalausu uppkaupum á gjaldeyri yfir 900 milljörðum sem á þessum árum hafa legið og rýrnað ónotaðar í skúffum seðlabankans á meðan við höfum gengið í gegnum þvílíkar þrengingar og örbyrð að fólk hefur ekki náð endum saman og þurft að standa í biðröðum eftir mat á meðan útgerðarmenn hafa ekki undan að koma óáunnum ofsagróða sínum fyrir og kaupa upp landið og heilu byggðarlögin (Selfoss).
Á sama tíma má t.d. ætla að lífeyrisþegar hafi frá því að þessi fölsun á gengi krónunnar hófst 2014 tapað af verðgildi tekna sinna um 5 til 15 milljóna hvert. Fjármálaráðherra sagði 2016 að hann hafi fengið þessa hundruðir milljarða að láni? Ég og við gamlingjarnir bíðum? Ekki eru fjármála- og forsætisráðherra Íslands óreiðufólk sem stendur ekki við orð sín og skuldbindingar? Er það nokkuð?
Höfundur er eldri borgari og fyrrverandi skipstjóri.
Athugasemdir (2)