Mörgum í mínu umhverfi var virkilega brugðið þegar ráðherra „barnamála“ boðaði skyndifund í Menningarhúsinu Hofi til að tilkynna „að hann hefði ákveðið að sameina MA og VMA á Akureyri.“ Gamall og lönguhættur skólastjóri fann líka eins og eitthvað hríslast niður bak sitt þegar skólameistari annars skólans upplýsti svo í fréttum RÚV að ráðherrann „hefði gefið stjórnendum skólanna fyrirmæli“ í þá veru að vinna að sameiningu stofnana sinna.
Beiting ráðherravalds með fyrirmælum til faglega ráðinna stjórnenda sjálfstæðra ríkisstofnana er alls ekki í neinu góðu samræmi við stjórnskipan landsins. Ráðherrar eiga almennt ekki að geta beitt slíku valdi – nema í undantekningartilfellum og þá í samræmi við lög sem ákveða slíkt með miklum takmörkunum. Það er Alþingi Íslendinga sem fer með ákvörðunarvald um stofnanaskipan og fjárveitingar – ekki einstakir ráðherrar – þeim ber á hinn bóginn að framkvæma ákvarðanir Alþingis og tryggja að „vilji löggjafans“ nái fram að ganga eftir því sem við verður komið.
Það hefur hins vegar sífellt orðið meira áberandi að ráðherrar ryðjist um í kerfinu – eins og hálfgildings einræðisherrar eða eins og stjórnskipanin geri ráð fyrir „forsetaræði/ríkisstjórnarræði“ – í stað þingræðis og það sem verra er að fjármálaráðherra og ráðuneyti hans komast upp með framgöngu eins að það sé einhvers konar YFIRRÁÐUNEYTI sem öllu öðru eigi að ráða.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur meira og meira hallast á þá sveifina að verða að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins sem framkvæmir stefnu Sjálfstæðisflokksins – og þá ekki bara í þeim ráðuneytum sem Sjálfstæðisflokkurinn skipar ráðherrastóla – heldur með afgerandi hætti í öðrum ráðuneytum líka. Willum Þór hamast t.d. við að einkavæði heilsugæslustöðvar og aðgerðarþjónustu – meira og meir – til að þóknast og þjónka frekustu Sjálfstæðismönnum í ríkisstjórn og Sjúkratryggingum er að mínu mati iðulega misbeitt sem framlengingu á fjármálaráðuneyti Bjarna Benediktssonar. Ráðning forstjóra SÍ nýlega – án auglýsingar – beint úr fjármálaráðuneyti Bjarna er til dæmis grímulaus misnotkun á ráðherravaldi og sé hún ekki ólögleg með öllu þá er hún amk algerlega siðlaus.
„Barnamálaráðherra… (haha – kanntu annan?)“
Nú kemur „barnamálaráðherrann“ (sem er auðvitað orðið að hlægilegu öfugmæli) og ruslast um á vettvangi framhaldsskólanna. Skipar nefnd til að framkvæma einhverja duttlunga ráðherrans – án þess að hafa hirt um að leggja áður fram stefnumótandi tillögur fyrir Alþingi. Greinargerð nefndarinnar er meira og minna byggð á afvegaleiðingu staðreynda og fúski – og tillögur PWC eru beinlínis „fals“ og móðgun að leggja slíkt fram af því að þar er ekki byggt á neinni viðurkenndri þekkingu á skólastarfi eða faglegu mati sem unnt er að treysta. Raunalegt er að sjá fv. rektor Háskólans á Akureyri taka þátt í þeim fráleitu vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð – og sannarlega reiknuðum við með öðru en því að Þorsteinn Gunnarsson sem naut síns mesta starfsframa og virðingar á Akureyri myndi láta frá sér fara slíka steypu sem er með öllu ósamboðin þekkingu hans og reynslu af rekstri menntastofnunar á landsbyggðinni.
„Til að sitja í ríkisstjórn Katrínar hefur Framsóknarflokkurinn tekið að sér áberandi auðvirðilegt hlutverk“
Allt gerist þetta vissulega í því samhengi að til að framhaldsskólakerfið geti sinnt vaxandi fjölbreytni í nemendahópum og um leið bætt námsframvindu og tryggt betri árangur; einkum drengja – þá þarf framhaldsskólinn a.m.k. fjóra til fimm milljarða á ári umfram áætlanir í Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Beiðni um aukningu framlaga er staðfastlega neitað af Bjarna fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins og fjárlaganefnd undir forystu VG tekur undir með Bjarna og segir nei.
Til að sitja í ríkisstjórn Katrínar hefur Framsóknarflokkurinn tekið að sér áberandi auðvirðilegt hlutverk – og alveg sérstaklega upp á síðkastið. Ásmundur Einar Daðason hikar ekki við að ráðast að hagsmunum landsbyggðarinnar með því að ákveða án faglega burðugs undirbúnings að sameina tvo mjög eðlisólíka framhaldsskóla sem þjóna meira og minna landsbyggðinni allri. Að leyfa sér að bollaleggja um niðurskurð á námsáföngum og minnkun á þjónustu t.d. sálfræðinga og námsráðgjafa til að ná fram lækkun á kostnaði um allt að 400 milljónir á ári og flytja þá fjármuni til framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu er ósvífnara en tali tekur. Rifja má upp að fyrir næstum 100 árum var það Framsóknarflokkurinn og ráðherra kennslumála Jónas Jónsson frá Hriflu sem hafði frumkvæði að því að heimila Gagnfræðaskólanum á Akureyri að verða menntaskóli sem útskrifaði stúdenta. Enn í dag – svona löngu síðar – eru til einstaka erfingjar borgaralegra gilda og gamla kaupmannavaldsins í Reykjavík sem eru tilbúnir að láta í ljós vanþóknun á þessum ráðherra Framsóknarflokksins og þeirri skólabyltingu sem héraðsskólum í öllum landsfjórðungum og Menntaskóla á Akureyri fylgdu. Og það er allt í lagi að segja það – svolítið að gefnu tilefni – að það er ekki eintómt snobb að vera þakklátur fyrir að hafa getað gengið í menntaskóla á landsbyggðinni og sannarlega tilefni til að fagna með samstúdentum ekki sjaldnar en á 5 ára fresti.
Framsókn gegn íbúðabyggingum neytenda?
Um svipað leyti beitir formaður Framsóknarflokksins Sigurður Ingi Jóhannsson reglugerðarvaldi sínu til að útiloka íbúðabyggingar á forsendum neytendarekstrar um alla landsbyggðina. Ráðherrann ákveður að ekki sé heimild hjá Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun til fjármögnunar íbúðabygginga í þágu aldraðra (60 ára+) nema sannað sé að sá hópur sem íbúðirnar muni sitja sé bláfátækur. Sama gildir með allar aðrar byggingar á forsendum neytenda – að opin húsnæðissamvinnufélög/ byggingarsamvinnufélög fá ekki fjármögnun til bygginga hjá HMS. Verkalýðshreyfingin hefur svo líka fallið frá þeirri stefnu að almenningi skuli standa til boða hjá ríkisstofnun allra hagkvæmustu kjör á fjármögnun eigin íbúða – í félagi eða séreign – og fellst þar með á að það sé viðunandi í nútímanum að safna allra fátækasta fólkinu á vinnumarkaðinum saman í sérmerkta íbúðaklasa eða hverfi – þar sem engir aðrir búa í bland við þennan viðkvæma hóp. Þetta er að kröfu fjármálaráðuneytisins og alveg sérstaklega Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins sem Sigurður Ingi framkvæmir þessa stefnu.
Rétt er í samhenginu að rifja upp að það er Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sem handvelur alla stjórn Bankasýslunnar sem að forminu til fer með stjórn Landsbankans og lykilstöðu í Íslandsbanka. Þessir bankar lána ekki neytendum til byggingar á hagkvæmum íbúðum út um landsbyggðirnar – enda er það beinlínis stefna fjármálaráðherrans að beita ríkisvaldinu til þess að fjárfestar og einkabankar geti hagnast ríflega á byggingarstarfsemi. Allar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans síðustu 20 mánuði hafa dregið harkalega úr byggingu nýrra íbúða og með því ýtt undir áframhaldandi yfirverðlagningu á eignum. Og formaður Framsóknarflokksins hefur gert stefnu Sjálfstæðisflokksins að leiðarljósi sínu – sama hvað hann heldur marga fundi og boðar stórauknar byggingar nýrra íbúða – þá stefnir raunveruleikinn í langvarandi íbúðaskort með tilheyrandi ræningjastarfsemi fjárfesta og leigubraskara.
Já; auðvirðilegt er orðið hlutverk þessa Framsóknarflokks sem fyrir næstum 90 árum setti af stað lagarammann um verkamannabústaði og byggingarsamvinnufélög – og átti meira og minna aðild að öllum jákvæðum breytingum á húsnæðiskerfinu fram til loka síðustu aldar – með það að markmiði að tryggja sem allra flestum hagkvæman aðgang að öruggu heimili.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur – með þáttöku Framsóknarflokksins – virðist vera farin að hafa þann eina augljósa tilgang að framkvæma rustalega og óhagkvæma einkavæðingu og niðurskurðarstefnu Sjálfstæðisflokksins. Sama hvað „segir í menntastefnu til 2030“ þá er greinilegt að sitjandi ríkisstjórn ætlar ekki að tryggja aukið fjármagn til að unnt sé að framkvæma jákvæðustu markmið þeirrar stefnu. Stefna ríkisstjórnarinnar er þannig að flestu leyti beinlínis orðin fjandsamleg hagsmunum almennings um allt land og alveg sérstaklega um landsbyggðirnar víða vega. Það eru ekki bara framhaldsskólamálin sem Framsókn fórnar fyrir ráðherrastóla með Sjálfstæðisflokknum og Katrínu þótt það séu óhappaverkin á vettvangi framhaldsskólanna í kastljósi athyglinnar þessa daga. Við erum hér að fást við ákaflega slæma pólitík og ómálefnalegan niðurskurð gagnvart landsbyggðinni alveg sérstaklega – á meðan er dekrað við ríka og valdamikla sem skammta sér ofsagróða og lifa hömlulausu líferni í skattasniðgöngu og aflandsbraski.
Krakkar – þetta má ekki halda svona áfram… og sannarlega er EKKI best að kjósa þessa Framsókn.
Höfundur er eftirlaunamaður á Akureyri og áhugamaður um stefnu Framsóknarflokksins alveg frá 1916
Nú sem gjarnan áður hafa valda lokkar vilja nálgast málefni skólanna í landinu sem verksmiðjur væru þar sem afköst og framleiðni fjármagns væru í fyrirrúmi.
Þar færiböndin væru á sem mestum hraða og ef framleiðslukerfið hentaði ekki öllum nemendum í latínufræðum væri slíkum gallagripum hent út af færibandinu og þeir settir í úrgang. Hugsanlega mætti endurnýta þá sem best litu út til einhvers eðlilegs brúks.
Aðrir væru bara urðaðir á öskuhaugum mannheima því það væri of dýrt að gera úr þeim hagfræðileg verðmæti er mældist í hagtölum frjálshyggjunnar.
En framhaldskólar í hverju byggðarlagi fyrir hafa miklu meira gildi og miklu mikilvægara hlutverki að gegna en að kenna tiltækar náms-greinar. Þeir eru og verða að vera félagslegar mennta og eða menn-ingastofnanir hvers byggðarlags.
Því er heimamönnum einum treystandi að annast slíkar stofnanir svo þær skili þeim menningar- og lærdómsauðævum til fólksins í byggð-arlögunum. Fjarstýrðar og fjölmennar skólastofnanir geta aldrei skilað þeim arði til samfélagsins.
Auðvitað verður landsstjórnin að setja stofnunum eðlilega og réttlátar reglur til að starfa eftir og meitluð markmið til að vinna að. Því er í sjálfu ekkert að því að kannaðar séu nýjar leiðir til að ná árangri. Það eru reyndar dagleg verkefni allra góðra skóla.
Jafnframt verður að sjá til þess að allir nemendur skólanna njóti sömu tækifæra er henta þeirra áhugsviðum og hæfileikum. Það er ekki að sjá að tilskipanir ráðherrans lúti að slíkum markmiðum í raun.