Miðhálendi Íslands er einstakt svæði sem á sér sess í vitund þjóðarinnar. Landslag hálendisins er fjölbreytt og ber þess merki að hafa mótast af samspili eldvirkni og jökla – svartir sandar, stórskorin fjöll, litrík háhitasvæði, hraun og beljandi fljót. Inni á milli leynast síðan hvanngrænar gróðurvinjar og bleikar Eyrarrósarbreiður sem kallast á við hrjóstrugt umhverfið. Mikilvægi og sérstaða hálendisins byggist jafnframt á því að þar er eitt víðfeðmasta óbyggða svæði í Evrópu.
Óskir ferðamanna og ferðaþjónustunnar
Miðhálendið er mikilvægur áfangastaður ferðamanna, bæði innlendra og erlendra, auk þess sem það á stóran hlut í ímynd og orðspori landsins sem ferðamannalands.
Rannsóknir meðal innlendra og erlendra ferðamanna sýna að aðdráttarafl miðhálendisins felst fyrst og fremst í fegurð og fjölbreytileika landslags, víðernum, kyrrð og fámenni. Rannsóknir hafa jafnframt sýnt að þeir ferðamenn sem heimsækja hálendið sækjast eftir einfaldleika í innviðum og þjónustu og eru almennt ekki hlynntir mikilli mannvirkjagerð eða þjónustuuppbyggingu í óbyggðum.
Þá sýna rannsóknir meðal ferðaþjónustuaðila hér á landi að mikill meirihluti þeirra vill viðhalda sérstöðu hálendisins með því að takmarka uppbyggingu innviða þar. Flestum þykir fyrst og fremst æskilegt að bæta salernisaðstöðu og fjölga merktum gönguleiðum á fjölsóttum ferðamannastöðum hálendisins. Í könnun árið 2020 taldi einungis þriðjungur ferðaþjónustuaðila að auka ætti veitingasölu á hálendinu og um 20% að fjölga mætti hótelum á hálendinu.
Meirihluti aðspurðra ferðamanna og ferðaþjónustuaðila eru jafnframt sammála um að ekki eigi að leggja uppbyggða vegi eða bundið slitlag á hálendinu en telja hins vegar að sinna megi viðhaldi vega betur en gert hefur verið.
Hálendið sem auðlind ferðaþjónustunnar
Ferðaþjónusta er orðin ein af undirstöðuatvinnugreinum Íslendinga. Hlutdeild greinarinnar í gjaldeyristekjum þjóðarinnar fyrir COVID-19 var álíka og samanlagðar gjaldeyristekjur sjávarútvegs og stóriðju.
Greinin hefur náð sér fljótt eftir farsóttina og nú stefnir enn á ný í metár í fjölda erlendra ferðamanna og áframhaldandi vöxt. Langflestir ferðamenn koma hingað til lands til að upplifa náttúru landsins og þar er miðhálendið og óbyggðirnar krúnudjásnið. Víðerni og lítt snortin náttúra eru mikilvæg auðlind fyrir ferðaþjónustuna.
Þolmörk náttúru og ferðamanna á hálendinu
Náttúra miðhálendisins er sérstaklega viðkvæm fyrir ágangi. Af þeim sökum er takmörkum háð hvernig og hversu mikið er hægt að nýta svæðið, enda hlýtur markmiðið að vera að viðhalda og efla náttúru svæðisins. Að sama skapi felst óbyggðaferðamennska í að upplifa óbyggðir og einveru, fjarri mannmergð og mannvirkjum. Þannig fara hagsmunir náttúrunnar og ferðamanna í óbyggðum saman. Hvort tveggja kallar á meðvitund um að mannvirkjagerð og umferð fólks gangi ekki á náttúrugæði og upplifun gesta.
Vísbendingar eru um að þolmörkum ferðamanna hafi verið náð á sumum áfangastöðum á hálendinu. Það á til dæmis við um Landmannalaugar, þar sem rannsóknir hafa sýnt að um helmingur gesta telur of marga ferðamenn vera á svæðinu. Landmannalaugar hafa líka ítrekað verið metnar í hættu á að tapa náttúruverndargildi sínu, í árlegu ástandsmati stjórnvalda á friðlýstum svæðum. Þetta tvennt, þolmörk náttúrunnar og þolmörk ferðamanna, undirstrikar mikilvægi þess að hugsa heildstætt um hálendið sem verðmæti og auðlind og að öll stefnumótun og ákvarðanir um nýtingu þess hafi að leiðarljósi að umferð fólks og mannvirkjagerð sé innan þolmarka bæði náttúrunnar og þeirra ferðamanna sem heimsækja svæðið. Þetta er mikil áskorun, sér í lagi við stöðuga fjölgun ferðamanna til landsins.
Stjórnun ferðamennsku
Við skipulag og stjórnun ferðamennsku er reynt að hafa áhrif á ferðamynstur fólks meðal annars með lagningu vega og göngustíga, merkingum, fræðslu og þjónustustigi. Ákvarðanir sem teknar eru um þessa þætti hafa áhrif á hverjir og hversu margir koma á viðkomandi stað, hve lengi þeir staldra við og á hvaða tíma árs. Með slíkum stjórntækjum er hægt að hafa áhrif á val og ferðahegðun fólks án beinna boða og banna. Almennt er reynt að beita slíkum aðferðum, áður en kemur til þess að beita beinum takmörkunum, eins og ítölu, eða lokunum svæða.
Á miðhálendinu hefur um langt skeið háttað þannig til að vegakerfi og þjónustustig hafa virkað sem óbein aðgangstakmörkun. Þannig hafa hálendisvegir ekki verið opnaðir fyrir umferð fyrr en snjóa hefur leyst og áhrifa vorleysinga gætir ekki að marki og síðan lokast þeir aftur þegar vetrar á ný. Jafnframt eru flestir vegir um miðhálendið torfærir og ár víða óbrúaðar, sem er hluti af ævintýrinu að ferðast um óbyggðir. Þá er gistiaðstaða og önnur þjónusta við ferðamenn á hálendinu takmörkuð, bæði hvað varðar fjölda staða og gistirýma og þjónustustig. Þetta hefur lengst af gert að verkum að fjöldi ferðamanna á hálendinu er takmarkaður og þeir sem þangað sækja, fara þangað á forsendum óbyggðaferðamennsku.
Skipulagsmál á miðhálendinu
Undir lok síðustu aldar var lyft grettistaki í skipulagsmálum á miðhálendinu. Þá var unnið að heildstæðu skipulagi um náttúruvernd og mannvirkjagerð á hálendinu sem sett var fram í Svæðisskipulagi miðhálendis Íslands sem staðfest var árið 1999. Þar var náttúra og landslag hálendisins sett í öndvegi og mörkuð stefna um að vega- og mannvirkjagerð skyldi haldið í lágmarki. Með nýjum skipulagslögum árið 2010 var ákveðið að landsskipulagsstefna skyldi leysa svæðisskipulag miðhálendisins af hólmi. Alþingi samþykkti fyrstu landsskipulagsstefnuna árið 2016 og er hún enn í gildi. Þar er viðhaldið þeim anda og áherslum sem svæðisskipulagið fól í sér. Lögð er áhersla á að viðhalda sérkennum og náttúrugæðum hálendisins með verndun víðerna, landslagsheilda og mikilvægra gróðurlenda. Uppbygging ferðamannaaðstöðu á hálendinu verði takmörkuð og gætt að því að óbyggðaupplifun og náttúrugæði skerðist sem minnst vegna mannvirkja og umferðar. Lögð er áhersla á að álag á ferðamannastaði verði í samræmi við þol landsins.
Ekki bæði sleppt og haldið
Þrátt fyrir þá skýru áherslu á náttúruvernd og lágstemmda uppbyggingu sem hefur legið fyrir um skipulagsmál á miðhálendinu undanfarinn aldarfjórðung, eru vísbendingar um að verið sé að blása til ákveðinnar sóknar og stefnubreytingar hvað varðar uppbyggingu vega, mannvirkja og þjónustu á hálendinu. Uppbyggingar og þjónustu af meira umfangi og öðrum kalíber en við eigum að venjast á hálendinu. Þessar ákvarðanir eru teknar af sveitarstjórnum á hverjum stað, að því er virðist án heildstæðrar sýnar um miðhálendið og tillits til þess fordæmisgildis og langtímaáhrifa sem slík uppbyggingarverkefni geta haft.
Þannig hefur Vegagerðin verið að byggja Kjalveg upp, kafla fyrir kafla, á undanförnum árum og nýlega var opnað fjögurra stjörnu hótel í Kerlingarfjöllum, inni á miðju hálendinu. Þá hefur talsverð umræða skapast um áformaðar framkvæmdir við Námshraun í Friðlandi að Fjallabaki í nágrenni við Landmannalaugar sem felast í uppbyggingu baðlóns, gistingar, verslunar og veitingasölu, svo dæmi séu tekin.
Hér virðist vera í farvatninu þróun sem getur haft í för með sér óafturkræfa skerðingu á víðernum og náttúrugæðum hálendisins og sem gengur um leið á hálendið sem auðlind ferðaþjónustunnar og útivistarparadís landsmanna. Þetta er líka rétt að skoða í samhengi við þróun á alþjóðavettvangi, en þjóðir heims hafa nýlega samþykkt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna (COP15) að vinna að verndun að minnsta kosti 30% lands fyrir árið 2030, til að bregðast við þeim ágangi sem orðið hefur á náttúrusvæði um veröld víða.
Hvað er til ráða?
Umræða og þróun mála undanfarið gefur tilefni til að skerpa enn frekar á skipulagsstefnu um miðhálendið, með áherslu á heildstæða sýn fyrir miðhálendið og meðvitund um þolmörk viðkvæmrar náttúru hálendisins og óbyggðaferðamennsku. Jafnframt telja undirritaðar það miðhálendinu og ferðamennsku á hálendinu til heilla til framtíðar að stigin verði markviss skref til að tryggja heildstæða umsýslu um rekstur og uppbyggingu á hálendinu. Það verður best gert með miðhálendisþjóðgarði þar sem almannahagsmunir og náttúruvernd verði höfð að leiðarljósi en peningaöflin ráði ekki för. Með því myndu íslensk stjórnvöld jafnframt stíga myndarlegt skref í að framfylgja áðurnefndri stefnu Sameinuðu þjóðanna um verndun að minnsta kosti 30% lands fyrir árið 2030.
Þess er að vænta að eftirspurn innlendra og erlendra ferðamanna eftir því að ferðast um íslenska náttúru haldi áfram að aukast. Auk þess að marka skýra umgjörð um stefnumörkun og rekstur miðhálendisins með framangreindum stjórntækjum, þ.e. skipulagi og verndun, er án efa tímabært að fara í markvissa greiningu á viðeigandi aðferðum til frekari aðgangsstýringar á hálendinu, því við blasir að á einstökum stöðum getur skapast þörf á slíku. Þá skiptir öllu að velja réttlátar aðferðir, sem ná vel markmiði sínu og þar sem ábyrgð og rekstur eru samræmd.
Athugasemdir