Alls voru 228.295 starfandi á íslenskum vinnumarkaði í lok júlí síðastliðins. Þar af voru innflytjendur 51.687 talsins. Það þýðir að innflytjendur eru nú 22,5 prósent vinnuaflsins.
Síðastliðið ár hefur starfandi á Íslandi fjölgað um 7.902 talsins. Af þeim eru 6.892 innflytjendur en rétt rúmlega eitt þúsund eru með íslenskan bakgrunn. Það þýðir að 87 prósent þeirra starfa sem bæst hafa við íslenskan vinnumarkað frá júlí 2022 og til loka sama mánaðar ári síðar hafa verið mönnum með innflytjendum.
Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu Íslands.
Umfang þeirra sem koma erlendis frá á íslenskum vinnumarkaði hefur vaxið gríðarlega á síðastliðnum árum, samhliða miklum uppgangi í ferðaþjónustu sem er mannaflsfrek atvinnugrein. Í byrjun árs 2005 voru einungis 9.220 innflytjendur starfandi á Íslandi og þeir þá um sex prósent allra starfandi. Fyrir 13 árum síðan voru innflytjendur á íslenskum vinnumarkaði 15.385 talsins, eða 36.302 færri en þeir eru í dag. Þá voru þeir níu prósent vinnuafls hérlendis. Fyrir fimm árum, þegar met var sett í komu ferðamanna til Íslands á einu ári, voru innflytjendurnir á íslenskum vinnumarkaði orðnir 39.754 og þeir tæplega 19 prósent vinnuaflsins.
Ungt fólk sem leggur mikið til
Langflestir þeirra innflytjenda sem eru starfandi hérlendis eru á aldrinum 20 til 44 ára, eða alls 36.380 manns. Það þýðir að sjö af hverjum tíu innflytjendum sem eru starfandi eru á því aldursbili. Kynjaskiptingin er þannig að 56 prósent eru karlar en 44 prósent konur.
Flestir sem hingað koma eru því ungir og tilbúnir á vinnumarkað. Í nýlegri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um efnahag Íslands kom skýrt fram það mat að um afar jákvæða þróun fyrir Ísland sé að ræða. Framlag innflytjenda til vergrar landsframleiðslu var áætlað rúmlega sex prósent árið 2030 og rúmlega tíu prósent árið 2040.
Vert er að taka fram að þar er varlega áætlað, enda tekur mat OECD ekki tillit til þeirrar miklu aukningar sem hefur orðið frá upphafi síðasta árs, þegar um eitt þúsund erlendir ríkisborgarar hafa að jafnaði flutt til landsins.
Einn Hafnarfjörður plús einn Garðabær
Ofangreind þróun er mjög í takti við þá miklu samfélagslegu breytingu sem orðið hefur vegna aukningar á fjölda erlendra ríkisborgara sem setjast hér að. Samkvæmt síðustu birtu tölum Þjóðskrár voru alls 71.250 erlendir ríkisborgarar með skráða búsetu hérlendis í byrjun ágúst. Þeir eru nú 18 prósent allra íbúa landsins. Til samanburðar voru þeir 6,8 prósent íbúa landsins í lok árs 2009, en síðan þá hefur þeim fjölgað um næstum 50 þúsund.
Á sama tíma hefur landsmönnum í heild fjölgað um 77.760 sem þýðir að næstum tveir af hverjum þremur íbúum sem bæst hafa við hafa komið utan frá. Önnur leið til að horfa á þessa þróun er að á tæplega 14 árum hefur erlendum ríkisborgurum hér á landi fjölgað jafn mikið og allur núverandi íbúafjöldi Hafnarfjarðar lagður saman við allan íbúafjölda Garðabæjar, en þar búa samtals um 50 þúsund manns.
Ónáttúrulegt atvinnuleysi
Skráð atvinnuleysi á Íslandi í júlí var 2,8 prósent, sem er undir því sem kallast náttúrulegt atvinnuleysi, en Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skilgreinir það á bilinu þrjú til fjögur prósent. Þar er um að ræða atvinnuleysi sem er til staðar meðal annars vegna þess að fólk skiptir um störf, er að ljúka námi eða flytur á milli staða og í flestum tilvikum tekur það einhvern tíma að finna nýtt starf og fólk er án atvinnu á meðan.
Það sýndi sig í kórónuveirufaraldrinum að innflytjendur eru mun líklegri til að missa störf sín í kreppum en þeir sem eru með íslenskan bakgrunn. Það ræðst af því að þeir starfa mun frekar í þjónustugreinum á borð við ferðaþjónustu, í byggingaiðnaði og veitingageiranum.
Erlendir ríkisborgarar eru líka hærra hlutfall atvinnulausra en aðrir, eða alls 48 prósent. Flestir atvinnuleitendur með erlendan ríkisborgararétt í júlílok komu frá Póllandi, eða 1.287 talsins. Það þýðir að 45 prósent allra erlendra atvinnuleitenda koma þaðan, en Pólverjar eru langstærsti hópur innflytjenda á Íslandi.
Athugasemdir