Þann 13. september 2017 flutti Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, stefnuræðu sína. Þar sagði hann að það sem skipti máli fyrir velferð launafólks væri ekki fjárhæð bóta eða skattbyrðiprósentur, heldur þær krónur sem fólk hefði á milli handanna.
Bjarni bætti svo við: „Klisjan um vaxandi ójöfnuð lifir góðu lífi í umræðunni. Staðreyndin er þó sú að engin þjóð mælist með meiri launajöfnuð en Ísland samkvæmt árlegri úttekt OECD á jöfnuði meðal þjóða. Því er engu að síður haldið fram að launaójöfnuður sé sjálfstætt vandamál og vaxandi á Íslandi, en sá málflutningur stenst enga skoðun eins og niðurstöður OECD bera skýrt með sér. Það væri nær að beina sjónum að tækifærum til aukinnar verðmætasköpunar og fjölgunar á störfum sem standa undir hærri launagreiðslum. Sterkari samkeppnishæfni landsins mun skila sér í betri kjörum til allra, ekki síst launalægstu hópanna.“
Ræðan var merkileg á margan hátt. Um var að ræða einu af einungis tveimur stefnuræðum sem Bjarni náði að flytja sem forsætisráðherra þar sem ríkisstjórnin sem kennd var við hann sprakk með látum tveimur dögum síðar vegna uppreist æru-málsins eftir nokkurra mánaða líftíma. Sá atburður leiddi til nýrra kosninga, sem haldnar voru rúmum mánuði síðar, og myndun ríkisstjórnar sem teygði sig þvert yfir hið pólitíska litróf: frá vinstri, yfir miðju og til hægri.
Að beita sér stöðugt fyrir réttlætinu
Fyrst í pontu í umræðum um stefnuræðuna var Katrín Jakobsdóttir, sem nokkrum vikum síðar var orðin forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn með Bjarna. Hún sá íslenskt samfélag, svo vægt sé til orða tekið, í öðrum litum en verðandi bandamaður hennar.
Í ræðu sinni sagði Katrín að stjórnmálamenn mættu aldrei vísa í ríkjandi kerfi til að rökstyðja bið eftir réttlæti. Þeir þyrftu að vera reiðubúnir að beita sér stöðugt fyrir réttlætinu og breyta kerfinu ef það þyrfti til. „Ég hef áhyggjur af því að þrátt fyrir efnahagslegan uppgang vanti upp á þennan sameiginlega skilning á því hvað felst í samfélagi. Ég hef áhyggjur af því að of margir séu beðnir um að bíða eftir réttlæti. Og af því að spurt er hvað valdi því að fólk geti ekki komið sér saman um einfalda hluti eins og forgangsröðun er rétt að svara þeirri spurningu fyrir mitt leyti: Hér á Íslandi þarf stjórnvöld sem treysta sér til að útrýma fátækt. Um það hefur ekki verið eining á Alþingi þó að sumir stjórnmálamenn tali eins og hér séu allir sammála um tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins. En við höfum ekki verið sammála um að hlutverk skattkerfis sé að tryggja jöfnuð.“
Myndin af hinu jafna samfélagi
Katrín sagði að það þyrfti stjórnvöld sem eru reiðubúin að horfast í augu við og bregðast við því að ríkustu tíu prósent landsmanna ættu þorra alls auðs í landinu. „Launajöfnuðurinn sem hæstv. forsætisráðherra nefndi hér áðan er nefnilega aðeins annar hluti myndarinnar um hið jafna samfélag. Eignaskiptingin segir talsvert aðra sögu. Vaxandi misskipting auðsins sprettur beinlínis af pólitískum ákvörðunum sem hingað til hafa verið þær að ekki megi skattleggja auðinn, ekki megi skattleggja fjármagnseigendur eins og venjulegt launafólk, ekki megi setja sérstakt hátekjuþrep á verulega háar tekjur eins og þær til að mynda sem skila sér í kaupaukagreiðslum sem margir þingmenn flytja gjarnan vandlætingarræður um en heykjast svo á að taka á í gegnum skattkerfið.“
Hið sama mætti segja um þær pólitísku ákvarðanir sem hefðu verið teknar um bótakerfin, vaxtabætur og barnabætur. „Á bak við það eru líka pólitískar ákvarðanir sem hafa ekki miðað að því að auka jöfnuð og draga úr misskiptingu, heldur þvert á móti. Hér þarf stjórnvöld sem eru reiðubúin að taka pólitískar ákvarðanir til að útrýma fátækt og draga um leið úr misskiptingu.“
Kostnaðurinn við næstum 50 þúsund fátæka
Síðan eru liðin næstum sex ár sem hægt hefur verið að nýta til að breyta kerfunum. Sem betur fer er hægt að styðjast við opinberar tölur til að kanna hvort það hafi tekist.
Byrjum á því að skoða hvort búið sé að útrýma fátækt. Svarið við því, samkvæmt nýlegri skýrslu sem forsætisráðuneyti Katrínar lét vinna, er nei. Þar kom fram að tæplega 48 þúsund einstaklingar á Íslandi reiknast undir lágtekjumörkum eftir að tekið er tillit til húsnæðisstuðnings og barnabóta, og þar með fátækir. Þar af er áætlað að um níu þúsund börn búi við fátækt. Heildarkostnaður samfélagsins vegna fátæktar er áætlaður 31 til 92 milljarðar króna. Þegar skýrslan lá fyrir ákvað ríkisstjórnin að eyða átta milljónum króna til frekari rannsókna.
Millifærslukerfin hafa sannarlega ekki verið keyrð í gang til að vinna á þessum vanda. Útgreiddar barnabætur hafa þvert á móti farið lækkandi á síðustu árum. Árið 2021 voru greiddar samtals 15,5 milljarðar króna í barnabætur og sérstakar barnabætur, ári síðar var sú upphæð 14,8 milljarðar króna og þær barnabætur sem greiddar verða út í ár, og ákvarðast af tekjum sem fólk hafði á síðasta ári, nema um 14,3 milljörðum króna.
Húsnæðisstuðningur við ríka
Sömu sögu má segja um vaxtabætur. Hlutfall heimila með íbúðalán sem fékk slíkar árið 2017 var 25,8 prósent en var orðið 16,8 prósent við álagningu ársins 2021. Þeir sem fengu slíkar árið 2022 voru 340 færri en árið 2021.
Í stað vaxtabótakerfisins var komið á fyrirkomulagi skattaívilnana til þeirra sem nota séreignarsparnað til að borga niður íbúðalán. Fjármála- og efnahagsráðuneytið metur eftirgjöf hins opinbera á tekjum vegna þessa á um 50 milljarða króna. Um 77 prósent þeirrar upphæðar hefur lent hjá þremur efstu tekjuhópunum. Um sjö prósent hennar hefur farið til þess helmings landsmanna sem hefur lægstu tekjurnar.
„Hér tala tölurnar sínu máli. Pólitískar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar sem hafa verið teknar á þessum sex árum hafa ekki miðað að því að draga úr fátækt. Þvert á móti.“
Hér tala tölurnar sínu máli. Pólitískar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar sem hafa verið teknar á þessum sex árum hafa ekki miðað að því að draga úr fátækt. Þvert á móti.
Tíu prósent juku auð sinn um 739 milljarða
Hefur ríkisstjórnin þá frekar verið að einbeita sér að því að skipta kökunni jafnar með öðrum hætti? Auka jöfnuð og draga úr misskiptingu með skattlagningu? Fátt í opinberum gögnum bendir til þess.
Þegar tölur yfir allt eigið fé íslenskra heimila eru skoðaðar birtist nokkuð skýr mynd. Frá árinu 2017, þegar Katrín og Bjarni mynduðu ríkisstjórnina sem nú situr ásamt Framsókn, og til loka síðasta árs hefur eigið fé nánast tvöfaldast. Sá hluti sem lent hefur hjá landsmönnum sem standa utan efstu tekjutíundarinnar hefur að uppistöðu verið vegna hækkunar á húsnæðisverði.
Í fyrra bættu íslensk heimili við 1.624 nýjum milljörðum króna við auð sinn. Þar af fóru 739 milljarðar króna til þeirra tíu prósenta landsmanna sem voru með mestar tekjur, eða um 46 prósent. Sá hópur átti rúmlega helming alls auðs í landinu á síðasta ári og eigið fé hans hafði þá vaxið um 43 prósent á þremur árum. Um er að ræða rúmlega 24 þúsund fjölskyldur.
Enn á eftir að birta frekara niðurbrot á þessum tölum þannig að hægt sér til dæmis að sjá hvar ríkasta eitt prósentið, og ríkasta 0,1 prósentið, stendur.
Á árinu 2021 var staðan þannig að þær 224 fjölskyldur sem mynduðu 0,1 prósentið sem sat efst í fæðukeðjunni áttu eignir upp á 330 milljarða króna og skulduðu nánast ekkert. Eiginfjárhlutfallið var 98,5 prósent. Til samanburðar var það um 52,2 prósent hjá þeim 90 prósent landsmanna sem áttu minnst eigið fé.
Eigið fé þessara 224 fjölskyldna jókst um 32,2 milljarða króna á því ári sem var mesta aukning í milljörðum talið innan árs síðan 2016, þegar mesti hagvöxtur í áratugi var á Íslandi.
Auður bundinn í steypu ekki peningur í hendi
Flestir Íslendingar eru með nánast allt sitt eigið fé bundið í steypu. Samkvæmt þeim tölum sem Hagstofan birtir eru um átta af hverjum tíu krónum sem einstaklingar eiga umfram skuldir í fasteignum. Eigið fé heimilanna í þessum eignum hefur sannarlega stóraukist á undanförnum árum, enda var fasteignabóla blásin upp. Alls 80 prósent af þeirri skráðu auðsaukningu sem orðið hefur frá 2010 til loka árs 2022 hafa verið vegna hækkunar á virði fasteigna. Þessar tölur gætu á yfirborðinu bent til þess að auðurinn sem verður til á Íslandi sé að dreifast afar jafnt. Þegar kafað er undir það kemur annað í ljós.
Í fyrsta lagi liggur fyrir að lifandi fólk þarf að búa einhvers staðar. Það getur illa leyst út virðisaukningu í heimili sínu nema kaupa nýja fasteign, sem lýtur í flestum tilfellum sömu hækkunum. Því er um auðsöfnun á blaði en ekki í hendi sem veitir viðkomandi í besta falli meira veðrými þannig að hann geti skuldsett sig frekar.
Sá sem hagnast mest fjárhagslega af slíkum bættum lífskjörum að láni er banki, ekki sá sem tekur lánið. Þessu til stuðnings má benda á að hreinar vaxtatekjur stóru bankanna þriggja: Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka, voru um 25 prósent meiri á fyrra hluta þessa árs en á sama tíma í fyrra vegna „stærra útlánasafns og hærra vaxtastigs“.
Ríkasta fólkið á vanmetnar eignir
Mergurinn málsins er þessi: 75 prósent þess auðs sem heimili landsins eiga utan þess sem bundið er í fasteignum er í eigu þeirra tíu prósent landsmanna sem eru með hæstu heildartekjurnar. Sá hópur á 85 prósent af öllum verðbréfum sem einstaklingar eiga hérlendis.
Virði hlutabréfa er vanmetið í þessum tölum þar sem þær sýna virði þeirra að nafnvirði, ekki markaðsvirði, sem er í flestum tilfellum miklu hærra. Auk þess eru ýmsar eignir bókfærðar á miklu lægra virði í bókum ýmissa fyrirtækja en raunvirði þeirra er.
Þar skiptir fiskveiðikvóti mestu máli, en bókfært virði hans samkvæmt ársreikningum útgerðarfyrirtækja var um 405 milljarðar króna árið 2021. Ef kvótinn yrði bókfærður á markaðsvirði, sem byggir á gerðum viðskiptum með hann, væri virði hans nær 1.200 milljörðum króna. Þarna skeikar næstum 800 milljörðum króna.
Átta þénuðu 22,5 milljarða
Það þarf ekki að horfa lengi á hátekjulista Heimildarinnar, sem birtur er í blaði dagsins, til að átta sig á því hversu arðbært það er að selja kvóta. Átta af þeim tíu sem þénuðu mest í fyrra voru með þorra sinna tekna vegna slíkrar sölu. Samtals námu tekjur þessara átta einstaklinga 22,5 milljörðum króna. Á einu ári. Nánast einvörðungu er um söluhagnaðinn af kvótasölunni að ræða og hann er skráður sem fjármagnstekjur. Af honum er greiddur 22 prósent skattur. Á sama tíma er skattur á launatekjur 31,45 til 46,25 prósent.
Fjármagnstekjur einstaklinga voru 227 milljarðar króna í fyrra. Það er 97,5 milljörðum króna meira en heildarfjármagnstekjur voru árið 2020. Því voru fjármagnstekjur, í krónum talið, 75 prósent hærri í fyrra en á því ári.
Þau tíu prósent landsmanna sem höfðu mestar tekjur greiddu 83 prósent af öllum fjármagnstekjuskatti í fyrra. Það hlutfall hækkaði um tvö prósentustig milli ára sem bendir til þess að hlutdeild hópsins í öllum fjármagnstekjum fari hækkandi. Ef hlutfall tekjuhæstu tíundarinnar í þeim fjármagnstekjum sem var aflað er sama hlutfall og hún greiðir af fjármagnstekjuskatti má ætla að hún hafi haft 188,4 milljarða króna í slíkar tekjur.
Ekki full mynd
Fyrir liggur að hátekjulistinn gefur ekki fulla mynd af því hvar peningar safnast saman á Íslandi. Þeir sem tróna á toppi hans eru fyrst og síðast fólk sem hefur selt kvóta, selt minni fyrirtæki eða gerðu upp kaupréttarsamninga sem launatekjur. Inn í þessa mynd vantar allar þær fjármagnstekjur sem safnast saman í einkahlutafélögum þar sem skattgreiðslum er frestað svo hægt sé að nýta þær til að kaupa nýjar eignir, og græða á þeim.
Á sama tíma er kaupmáttur ráðstöfunartekna íslenskra heimila, að teknu tilliti til vaxtagjalda, að dragast saman. Hann hefur, nánar tiltekið, dregist saman fjóra ársfjórðunga í röð þrátt fyrir miklar launahækkanir. Ráðstöfunartekjur eru þeir peningar sem standa eftir þegar búið er að draga skatta og önnur gjöld frá launum viðkomandi og kaupmáttur þeirra lýsir því hvað hver getur keypt fyrir þær tekjur.
Ofan á þetta er húsnæðiverð að lækka og höfuðstóll lána þeirra sem eru með verðtryggð lán að hækka vegna verðbóta sem leggjast á hann þegar verðbólga er jafn há og raun ber vitni. Því má búast við að eigið fé margra heimila sé að dragast saman.
„Fyrir vikið greiddu þeir átta sem seldu kvóta í fyrra, og röðuðu sér á listann yfir tíu tekjuhæstu landsmenn ársins, samtals 15,3 milljónir króna í útsvar af 22,5 milljarða króna tekjum, eða 0,07 prósent af upphæðinni“
Þessi þróun bitnar minnst á þeim sem eiga mest. Ráðstöfunartekjur á Íslandi hafa aukist um 565 milljarða króna frá því að sitjandi ríkisstjórn tók við og út síðasta ár. Tæplega þriðjungur þeirrar aukningar hefur endað hjá ríkustu tíu prósentunum.
Vilji til aðgerða í orði en ekki á borði
Það sem sitjandi ríkisstjórn hefur gert sem lítur út fyrir að auka jöfnuð er það að hækka fjármagnstekjuskatt úr 20 í 22 prósent. Á móti voru líka gerðar aðrar breytingar, aðallega með hækkun frítekjumarks, sem minnka þann skattstofn. Ekkert hátekjuskattsþrep hefur bæst við hérlendis frá árinu 2017. Þess í stað var bætt við lægra skattþrepi og þau því orðin þrjú í stað tveggja áður. Bankaskattur var lækkaður án þess að það hafði nein áhrif til lækkunar á vaxtamun banka. Hann hefur þvert á móti aukist.
Á flokksráðsfundi Vinstri grænna fyrir ári síðan sagði Katrín að nú væri „kominn tími til að breyta skattlagningu þeirra sem fyrst og fremst hafa fjármagnstekjur og tryggja að þau greiði sanngjarnan hlut í útsvar til sveitarfélaganna til að fjármagna þau mikilvægu verkefni sem þau sinna, ekki síst í félags- og velferðarþjónustu. Um það hefur verið talað í tuttugu ár en nú er kominn tími aðgerða.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í útvarpsþætti í september í fyrra að hann vildi skoða þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt þar sem „þeir sem hefðu meira, borguðu meira til ríkisins. Hin leiðin er þá til útsvars.“ Það myndi skýrast vorið 2023, þegar frumvarp yrði lagt fram, hvernig útfærslan yrði. Það frumvarp var aldrei lagt fram.
Fyrir vikið greiddu þeir átta sem seldu kvóta í fyrra, og röðuðu sér á listann yfir tíu tekjuhæstu landsmenn ársins, samtals 15,3 milljónir króna í útsvar af 22,5 milljarða króna tekjum, eða 0,07 prósent af upphæðinni.
Allt ofangreint sýnir svart á hvítu að gæðunum er misskipt í íslensku samfélagi. Að hér hefur orðið til yfirstétt sem á mikið og er að eignast meira. Ástæða þessa eru kerfin sem voru smíðuð og viljaleysi ráðandi afla til að breyta þeim.
Þar vantar einfaldlega sameiginlegan skilning á því hvað felst í samfélagi.
Getur hugsast að særsti hluti þeirra tekna nái aldrei til landsins en liggi inn á feitum bankareikningum erlendis? Hver manneskja getur leitað inn á booking. com og Arbnb hér á landi og skoðað sólahringsgistingu fyrir eitt herbergi. Meðalverð er ekki undir $400. Það geri um það bil $2000 fyrir fimm daga, sem gerir 270.000 þúsund krónur. Það má vel gera sér í hugarlund hve ferðaþjónustan halar inn á einu sumri. Og koma þeir peningar okkur til góða nema að litum hluta? Eða getur einhver útskýrt fyrir mér hvers vegna við höfum það ekki betrameð auknum tekjum eftir ferðamannasprenguna 2010-12