Öll höfum við heyrt setningunni „það er nóg til frammi“ fleygt fram í boðum og veislum þar sem gestgjafinn, iðulega kona á besta aldri, vandar sig við að láta öllum líða vel og gætir þess að allir taki vel til matar síns. Ef til vill er ísskápurinn að verða tómur en hún tryggir samt að enginn gestur fari svangur heim.
Ef fleiri einstaklingar með þetta viðhorf hefðu komið að mótun okkar samfélagsgerðar væri það væntanlega talsvert annað en við þekkjum í dag. Það væru ekki hópar innan okkar samfélags sem búa við fátækt, geta ekki sótt heilbrigðisþjónustu eða komið þaki yfir höfuðið vegna fjárhags eða búa við lægri laun en aðrir hópar í sömu eða jafnverðmætum störfum og svo mætti lengi telja.
„Stjórnvöld horfa þannig fram hjá því að sumir hrúga á diskinn sinn í boðinu með þeim afleiðingum að lítið verður eftir fyrir aðra.“
Þegar stjórnvöldum er bent á ólíka stöðu hópa í samfélaginu og að það gangi ekki upp að horfa eingöngu á meðaltöl eru viðbrögðin iðulega að Ísland standi best á heimsvísu þegar kemur að jöfnuði. Röksemdin þeirra er þá væntanlega sú að þar sem við stöndum fremst í samanburði við önnur lönd heimsins þá þurfi ekki að grípa til aðgerða, eða þegar gripið er til aðgerða sé gengið eins skammt og hægt er.
Misskipting tekna og eigna fer vaxandi og sú mikla samþjöppun auðs sem er að verða hér á landi er skaðleg fyrir samfélagið, ýtir undir stéttaskiptingu, dregur úr félagslegri samheldni og eykur hættu á misbeitingu pólitísks valds. Stjórnvöld horfa þannig fram hjá því að sumir hrúga á diskinn sinn í boðinu með þeim afleiðingum að lítið verður eftir fyrir aðra. Sumum er svo einfaldlega ekki boðið að vera með.
Sjá þau ekki veisluna?
Samkvæmt umfangsmiklum mælingum Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, á tæplega helmingur vinnandi fólks erfitt með að ná endum saman og fer það hlutfall sífellt hækkandi. Tæplega kemur á óvart að þeim fer fjölgandi sem búa við þunga byrði vegna húsnæðiskostnaðar og sérstaklega hátt hlutfall einstæðra foreldra og innflytjenda býr við efnislegan skort. Ríflega helmingur einstæðra mæðra og ungra kvenna býr einnig við slæma andlega heilsu.
Slæm félags- og efnahagsleg staða og þunglyndi eru systur en í núverandi dýrtíð er sjaldnast tekið tillit til þess né hvaða áhrif það hefur á fjölskyldulíf eða líðan barna. Aðrar rannsóknir sýna að börn eru í mestri hættu á að búa við fátækt. Þessar niðurstöður lýsa alvarlegum brestum í samfélagsgerð okkar.
Kannanir Vörðu leiða skýrlega í ljós hverjir þeir hópar eru sem við þurfum að einbeita okkur að; einstæðir foreldrar, öryrkjar, innflytjendur, ungt fólk, kaupendur fyrstu fasteignar og leigjendur. Þá koma konur verr út á öllum mælikvörðum Vörðu en karlar og ljóst að enn er langt í land þegar kemur að jafnrétti kynjanna.
Framúrskarandi heilbrigðisþjónusta, félagsþjónusta og menntun óháð greiðslugetu og búsetu er undirstaða jöfnuðar. Fjárskortur stofnana í þessum geirum hefur leitt til undirmönnunar, gríðarlegs álags á starfsfólk og mikillar veikindafjarveru þeirra. Mikilvæg þjónusta hefur verið skorin niður, biðlistar hafa lengst og hluti þjónustunnar færður til einkaaðila. Fámennur en hávær hópur berst ötullega fyrir enn frekari markaðsvæðingu þjónustunnar enda sjá þau tækifæri til að hagnast á neyð einstaklinga sem leitast við að uppfylla grundvallarþarfir sínar á borð við heilsu eða húsnæði á efri árum.
Meirihluti starfsfólks í þessum störfum eru konur innan stétta sem gjarnan eru nefndar kvennastéttir. Kynskiptur vinnumarkaður er enn helsta ástæða launamunar kynjanna á Íslandi og þar hefur skakkt verðmætamat á vinnuframlagi kvenna mestu áhrifin.
Umönnunarbyrði vegna eldri eða veikra ættingja er mun þyngri hér á landi en í öðrum löndum sem við berum okkur helst saman við. Konur bera enn meginábyrgðina á umönnun barna ásamt þriðju vaktinni og eru líklegri en karlar til að minnka starfshlutfall, taka ólaunað leyfi frá störfum eða krefjast einhvers konar sveigjanleika til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og annast börn og ættingja.
Skattleggjum breiðu bökin
Upplýsingar um mismunandi stöðu hópa og stöðu velferðarkerfisins hafa legið fyrir í lengri tíma, í fjölmörgum innlendum og erlendum rannsóknum og greiningum. Það skortir því ekki yfirsýnina yfir þær risastóru áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Hins vegar skortir að slíkar upplýsingar séu lagðar til grundvallar pólitískrar ákvörðunartöku. Það nægir ekki að skreyta sig með samstarfi um þróun velsældarhagkerfis eða heimsmarkmiðum þegar ekki er raunverulega verið að grípa til aðgerða samkvæmt slíkri hugmyndafræði. Aðgerðarleysið endurspeglar að ekki sé vilji hjá stjórnvöldum til að endurhugsa hvaðan hinn raunverulegi auður kemur og hvernig við sem samfélög eigum að skipta honum.
Efnahagsákvarðanir eiga að þjóna fólki með velferð, jöfnuð og sjálfbærni að leiðarljósi. Stjórnvöld þurfa að marka sér skýra sýn um hvernig samfélag þau vilji stuðla að, allar ákvarðanir þeirra taki mið af því markmiði og þannig móti þau samfélagið. Verkefnið fram undan felst í því að endurhugsa tekjuöflun ríkis og sveitarfélaga og skipta kökunni með öðrum hætti. Takist okkur að losna úr fjötrum úreltrar efnahagsstjórnunar getum við virkilega byrjað að skara fram úr.
Brauðmolar duga ekki til
Stjórnvöld halda yfirleitt að sér höndum þar til í aðdraganda kjarasamninga (eða kosninga) til að geta nýtt sjálfsagðar aðgerðir í þágu almennings sem skiptimynt. Þetta munum við sjá nú í haust þar sem boðið verður upp á sporslur við barna- og vaxtabótakerfið, aukinn húsnæðisstuðning og ófjármagnaðar aðgerðaráætlanir um ýmis málefni.
Sami gamli söngurinn um að launafólk megi ekki gera of miklar kröfur er þegar hafinn hjá atvinnurekendum og ráðherrum, auk seðlabankastjóra – en svo virðist sem allar fjárhirslur tæmist heppilega rétt fyrir hverja kjarasamningslotu. Hræðsluáróðurinn byggir að sjálfsögðu á mótstöðu þeirra við breytingar í átt að aukinni valddreifingu og tilfærslu á fjármagni frá þeim fáu til þeirra mörgu.
Kröfur verkalýðshreyfingarinnar í aðdraganda næstu kjarasamninga felast í uppstokkun á þessu öllu. Það verður jöfnum höndum að tryggja kjarabætur í gegnum launaumslagið og mikilvægar samfélagsbreytingar til að bæta lífsskilyrði fyrir öll. Þar munu brauðmolar ekki nægja til heldur þarf að tryggja að öll fái boð í veisluna og fái nóg á diskinn sinn í samfélagi meiri jöfnuðar og manngæsku.
Gini-stuðull (e. Gini-index) er mælikvarði á ójöfnuð tekna (Hagstofan). Áhrif heimilisútgjalda á jöfnuð eru því ekki fókusinn. Sem dæmi má nefna að mestur ójöfnuður á Íslandi í dag tengist húsnæðiskostnaði. Einkum vegna stökkbreytts vaxtakostnaður hafa margar ungar fjölskyldur þurft að horfast í augu við gríðarlega hækkun húsnæðiskostnaðar, jafnvel tvöföldun. Hagur yngri og fátækari fjölskyldna hefur því oft hrunið. Ójöfnuður í þjóðfélaginu því snarversnað. Þetta mælir Gini ekki nema að óverulegu leiti því mælikvarðinn er tekjujöfnuður en ekki útgjöld. Annað dæmi: Kvótaerfingi sem sem selur hlutabréf í útgerð fyrir 100 milljarða. Þetta hreyfir ekki við Gini stuðlinum því hann mælir ekki söluhagnað af hlutabréfum. Dæmin er mun fleiri sem ekki verða talin hér.
Þessir gallar á Gini ættu ekki að hafa farið framhjá stjórnmálamönnum og hagsmunaaðilum atvinnulífsins því Forsætisráðuneytið gaf 2020 út greinargerð „Launabil og jöfnuð“ þar sem á 60 bls er hvergi minnst einu orði á húsnæðiskostnað, sem verður að teljast nokkuð magnað.
Líklega hefur engin algeng hagfræðistærð verið jafn mikið gagnrýnd af virtum hagfræðingum á undanförnum árum og Gini stuðullinn. Týnd hafa verið til endalaus dæmi þar sem Gini stuðullinn er villandi og vondur mælikvarði á jöfnuð. Í greinargerðinni frá stjórnarráðinu 2020 segir því um mælingu á jöfnuði: „Samanburður milli landa er því erfiður.“
Í sífellt fjölbreyttari og flóknari samfélögum þá er svona ofureinfaldur mælikvarði vondur. 1912 þegar Gini stuðullinn sá dagsins ljós þá voru samfélög mun einfaldari og um margt líkari og notagildi stuðulsins því meira.
Margir hagfræðingar segja að líklega hafi engin stuðull verið jafn mikið misnotaður til að slá ryki í augu kjósenda og Gini stuðullinn. Ísland er gott dæmi þar um.